Vilhjálmur Bjarnason
Vinur minn, Ólafur, er algjörlega pólitískur, hann kýs Sjálfstæðisflokkinn eins og amma hans og afi hafa gert frá dögum Fjalla-Eyvindar og Jóns Hreggviðssonar.
Þar fyrir utan segir Ólafur mér frá glæsimönnum í ættinni, afar hans í ellefta lið eru þeir Guðbrandur Þorláksson byskup og Einar Sigurðsson, kenndur við (H)Eydali austur, en hann var sálmaskáld gott. Það eru aðeins eldri formenn Sjálfstæðisflokksins sem eru ættgöfugri en hann.
Ólafur er alltaf mjög slæmur fyrir kosningar, þá hringir hann kvölds og morgna og hellir úr skálum reiði sinnar yfir mig. Það sem ergir hann fyrst og fremst er hvernig fólk fer með atkvæðisrétt sinn. Hvernig hægt er að sóa atkvæðinu á vitleysinga og vanvirða þannig forfeður og formæður sínar.
Glæsiskeið
Eitt mest glæsiskeið í sögu Sjálfstæðisflokksins var í tíð mjög vondrar vinstri stjórnar árin 1956-1958. Sú vinstri stjórn, er þá sat, er sennilega þriðja versta stjórn lýðveldissögunnar. Aðeins síðari vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, 1978-1979, og vinstri stjórn Gunnars Thoroddsen, 1980-1983, eru verstu stjórnir í samanlagðri kristni, en þá var stjórnarfar enn verra en á árunum 1956 til 1958.
Árið 1958 vann Sjálfstæðisflokkurinn sinn næststærsta sigur í borgarstjórnarkosningum, stærsti sigurinn var í kosningunum 1990. Þá var einnig vond vinstri stjórn við völd í landinu.
Hve oft er ég búinn að hlusta á Ólaf endursegja mér ræðuna sem Birgir Kjaran hélt í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll daginn fyrir kjördag, hvernig hann þjappaði stuðningsfólkinu saman og hver og einn sá um sína við að koma þeim á kjörstað.
Hann Birgir Kjaran, hann Birgir með símaskrá var kjarnorkusprengja! Þótt andfemínisti sé varð Ólafur að viðurkenna að konurnar í Hvöt voru dínamít. Nú eru þetta allt vesalingar, Brynhildur Anders Andersen látin og Sigríður Ásthildur farin úr flokknum! Hvernig getur Sigmundur Davíð nautakjötsæta náð kjörfylgi í evruvæddasta kjördæmi landsins, án nokkurra hagsmuna í kúabúskap? Sennilega glæsimennskan! Eitthvað, sem ritara skortir.
Hvert er þetta komið?
Og nú er svo komið að Sjálfstæðisflokkurinn í kosningum 2024 er með 19,36% atkvæða og orðinn minni en Alþýðubandalagið í kosningum 1978, með 22,82% atkvæða. „Mala domestica majora sunt lacrymis.“ Þetta er allt búið, komið í þrot! Og svo á ritari að svara fyrir allar syndir Flokksins frá 1959!
Ritari ber af sér sakir
Ritari er nokkuð syndlaus maður í stjórnmálum. Hans helsta axarskaft er að hafa greitt atkvæði af of mikilli mannúð í atkvæðagreiðslu um búvörusamninga árið 2016. Það sem þá réð för hjá ritara var að best væri að bændur réðu sínum eigin örlögum í sókn til fátæktar.
Ritari telur sig eiga frumkvæði að framlögum hinna föllnu banka, sem kennd eru við stöðugleika. Stöðugleikaframlög voru forsenda afnáms gjaldeyrishafta og þess að landsmenn geta um frjálst höfuð strokið þrátt fyrir covid og Grindavík.
Slíkt frumkvæði og árangur afmáir margar syndir!
Ritari telur sig einnig hafa verið ötulan stuðningsmann menningar, vísinda og lista í störfum sínum og gerðum.
Kann að vera að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst jarðsamband sitt við menningu, vísindi og listir og allt venjulegt fólk sem kallast kjósendur í landinu. Það er ekki sök ritara.
Hvers vegna er Sjálfstæðisflokkurinn svona lítill?
Að sjálfsögðu er þetta verðug rannsóknarspurning. Þar reka margar staðreyndir sig á þrár kjósenda eftir „einhverju öðru“. Og hvað er þetta annað?
Hvernig gat það gerst að Viðreisn varð til? Hvernig gat Bjarni látið Gunnar Braga og Sigmund Davíð dufla sig til stuðnings við tilgangslausa afturköllun, þar sem lá fyrir loforð um þjóðaratkvæði um aðildarviðræður við ESB.
Um margt er tímabilið frá 1991, að ekki sé talað um frá 1993, eitt mesta hagsældar- og framfaraskeið frá kristnitöku. Kaupmáttaraukning á ári er sem næst 2% og á þessu tímabili hefur kaupmáttur launa tvöfaldast. Og fylgið hrynur!
Hvers vegna er ekki hægt að koma þessum sannleika til kjósenda? Eru flytjendur þessa sannleika svona lélegir málflytjendur? Eini málflytjandi Sjálfstæðisflokksins í liðnum 5 kosningum hefur verið formaður flokksins. Aðrir hafa ekki sést.
Reyndar er það svo, að skyldugreinar sumra frambjóðenda í fjölmiðlum ná því vart að vera birtingarhæfar. Hundsmigur, til að „merkja sér mál“! Frambjóðendur tala um „frelsi“, þó ekki til fiskveiða, og „hægri“ án þess að vera í danskennslu. Og stundum er skrifað hrútleiðinlega um hugmyndafræði sjálfstæðismanna. Skrif, sem eiga enga sína líka, nema hjá Moskvukommúnistum.
Þetta lætur Ólafur ritara vita fyrir klukkan 7 á morgnana. Vondar greinar í Morgunblaðinu fara fyrir brjóstið á langminnugum Ólafi.
Þetta þarfnast greiningar. Það ættu allir að finna aukna hagsæld í vösum sínum. Öryrkjar og eldri borgarar geta dvalið á sólríkum slóðum í suðurlöndum á íslenskum sósíal og lífeyri. Þetta eru utankjörstaðaatkvæðin, sem breyta öllum úrslitum þegar búið er að telja atkvæði greidd á kjörstað.
Og samstarfsnefnd um gjaldeyrismál hefur verið lögð niður og gjaldeyrisskömmtun er hætt. Enda algjör óþarfi!
Og svo er það Jón Hreggviðsson. Allt það sem Ólafur getur veitt ritara leiðsögn með Jóni Hreggviðssyni. Fyrir utan frillutal, þá minnir Ólafur ritara á útgerð Jóns heitins. Ólafur og ritari standa með Jóni vegna snærisþjófnaðar hans. Jón vildi bjarga heimili sínu með því að róa á dýpri mið. Enda sjálfstæðismaður!
Nú mega afkomendur frænda Jóns ekki róa til fiskjar nema með því að verða leiguliðar „kvótaeigenda“. Ólafur bendir réttilega á að „nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Af hverju mega vinir Ólafs, vinar míns, ekki róa? Smáatvinnurekendum hefur verið útrýmt vegna þess að ekkert hefur komið í stað þess frumréttar að halda til fiskveiða. Þar hverfa mörg atkvæði.
Útgerðarmenn, stórir og smáir, voru kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Mannafli hefur breyst. Sennilega hefur menntunarstig þjóðarinnar hækkað. Kann að vera að hátt menntunarstig dragi úr kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins. Þingmenn flokksins telja sér stundum til tekna að hafa barið á kennurum! Það var þá lið til að taka slaginn við! Svo segir Ólafur þegar hann býsnast við ritara.
Forysta Flokksins verður að svara því hvers vegna Flokkurinn er orðinn smáflokkur, hrakinn úr Bláa herberginu.
Formaður hættir! Hvað svo!
Nú lítur út fyrir að Flokkurinn verði femínískur! Það fer alveg með geðheilsu Ólafs. Við hverju má ritari búast? Þá býsnast Ólafur ekki lengur fyrst yfir stjórnarfrúm! Nú verður formaður Flokksins blóraböggull flests sem aflaga fer.
Og hvernig verður „stjórnmálaályktun“ Sjálfstæðisflokksins í lok landsfundar? Verður hún til brúks?
Hetjuskapur
„Það er misskilningur að hetjuskapur eigi nokkuð skylt við þann málstað sem barist er fyrir.“ Svo segir organistinn, sem var fyrir frelsi.
Lífið er aðeins mismunandi form þjáningar. Það finnur Flokkurinn nú!
Höfundur var alþingismaður.