Hörður Gunnarsson fæddist 24. ágúst 1939 í Reykjavík. Hann lést á Landakotsspítala 17. febrúar 2025.

Foreldrar hans voru Gunnar Kristinsson fangavörður, f. 1913, d. 1982 og Svanhildur Guðmundsdóttir verkakona, f. 1912, d. 1996.

Systur Harðar eru Auður, f. 1934, Bergljót, f. 1938 og Hildigunnur, f. 1941.

Eftirlifandi eiginkona Harðar er Margrét Þórisdóttir sjúkraþjálfari, f. 1940 og eru börn þeirra Þórir, f. 1970 og Svanhildur, f. 1972.

Hörður byrjaði snemma að stunda sjómennsku á fraktskipum en síðan flutti hann sig í sjálfstæðan rekstur, sem hann var með alveg þar til hann hætti sökum aldurs.

Hörður byrjaði að stunda glímu ungur að árum hjá Glímufélaginu Ármanni en áhuginn fór fljótlega að snúast að þjálfun og félagshlutanum. Hann var formaður Glímudeildar Ármanns og síðar einn af stofnendum Glímudómarafélags Íslands og formaður þess. Hörður var sæmdur æðstu viðurkenningu bandarísku fangbragðasamtakanna The Eastern USA International Martial Arts Association í Pittsburgh.

Hörður var einnig virkur í Framsóknarflokknum og sinnti þar mörgum trúnaðarstörfum og sat m.a. í miðstjórn flokksins og var oft sérlegur fundarstjóri fyrir flokkinn enda manna fróðastur þegar kom að félagslögum og fundarstjórn. Var hann samtals 62 ár í flokknum með nokkurra ára millibili þegar hann varð hann einn af stofnendum Miðflokksins og arkitekt allra félagslaga og regluverks flokksins.

Hörður verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. febrúar 2025, kl. 15.

Það er ekki hægt að hugsa sér betri pabba því alltaf varstu tilbúinn að hjálpa okkur og redda öllu. Í ófá skipti hringdum við í pabba og báðum þig að redda hlutum, allt frá að drepa köngulær til þess að ná í okkur ef bíll bilaði.

Þú varst ákveðinn og strangur faðir en alltaf réttlátur, þó Svanhildi hafi nú ekki alltaf fundist það þegar Þórir fékk að gera eitthvað en hún ekki, af því að hann var eldri.

Ekki var hægt að finna fróðari mann um glímu hér á Íslandi en þig en þú hafðir brennandi áhuga á þeirri íþrótt. Við vorum svo stolt þegar þú varst sæmdur æðstu viðurkenningu bandarísku fangbragðasamtakanna, The Eastern USA International Martial Arts Association, sem kallast Grandmaster. Við montuðum okkur mikið af pabba mínum þá. Svo ákvaðstu að mæla með fjórum öðrum glímudómurum sem Master og einum sem Grandmaster Junior. Vikulega hittust þið Masterarnir (eins og þið kölluðuð ykkur) í Masterakaffi þar sem spilað var bridge í nokkra klukkutíma. Það var alltaf fjör hjá ykkur á þessum stundum.

Þú varst svo sérvitur og það sem það fór ofboðslega í taugarnar á mér þegar við vorum unglingar, sérstaklega þegar hringt var heim (engir farsímar þá!) og spurt um Svönu (ég kynnti mig alltaf sem Svönu) og þú svaraðir: „Það býr engin Svana hér“ svo manneskjan í símanum þurfti að hugsa hratt til að reyna að finna hvað Svana var stytting fyrir. „En Svanhildur?“ „Já, HÚN er heima.“ Það eru ófáar minningarnar sem koma upp í hugann svo við þær munum við ylja okkur hér eftir.

Elsku mamma, við verðum að vera sterk saman og þá komumst við í gegnum þessa tíma.Elsku pabbi, þú varst sá besti og það er mikill söknuður í hjörtum okkar nú þegar þú ert farinn en við vitum að það var tekið vel á móti þér hinum megin.

Þín börn,

Svanhildur og Þórir.

Fallinn er frá grandmaster Hörður Gunnarsson. Hann var máttarstólpi í glímuhreyfingunni í áratugi, keppandi, þjálfari, glímukennari, dómari og ekki síst, félagsmálatröll. Það síðastnefnda var ekki bundið við glímuíþróttina, heldur líka aðrar íþróttir og íþróttahreyfinguna auk þátttöku í stjórnmálastarfi.

Við masterar minnumst samveru og samstarfs við Hörð, sem hefur staðið í áratugi og hefur þróast og eflst í gegnum tíðina. Hrossakjötsveislur, ferðir innan lands og utan og ekki síst á nokkrar samkomur fangbragðasamtaka í Bandaríkjunum, þar sem honum var sýndur ýmis heiður fyrir störf sín og framlag til íþrótta. Hörður var heiðursfélagi Glímufélagsins Ármanns og Glímusambands Íslands auk þess að vera heiðursfélagi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).

Síðustu áratugina urðu spilin að vera með í för í öllum ferðum, jafnvel þótt það væri bara farið bæjarleið. Það þróaðist út í vikulegan hitting mastera undir stjórn grandmasters sem sá um að færa allt til bókar.

Sjálfboðaliðastörf Harðar í gegnum tíðina fyrir glímuhreyfinguna eru ómetanleg. Hann þurfti ekkert endilega að vera í forystu, þótt það lægi vel fyrir honum og hann skoraðist ekki undan ábyrgð nema síður sé, þá var hann alltaf til stuðnings ef til hans var leitað. Eftir að dómaraferlinum lauk og margra tíma stöður við dómgæslu urðu honum of erfiðar var hann alltaf á hliðarlínunni í eftirlitsstörfum. Það er innan við ár síðan hann var síðast á hliðarlínunni, tilbúinn að vera til aðstoðar og veita stuðning og ráð að loknum keppnum.

Hörður, þín verður saknað á hliðarlínunni og við spilaborðið. Takk fyrir allt, keppnina, kennsluna, stuðninginn og samstarfið.

Margrét, Svanhildur og Þórir, ykkur færum við okkar dýpstu samúðarkveðjur og takk fyrir að gefa okkur hlut í lífi Grandmasters, Harðar Gunnarssonar.

Masterar,

Garðar, Kjartan,
Rögnvaldur, Sigurjón
og Þorvaldur.

Í dag kveð ég vin minn og félaga Hörð Gunnarsson. Vinátta okkar hófst fyrir mörgum árum er leiðir okkar lágu saman í Framsóknarflokknum. Hörður var þá fundarstjóri og ráðagóður mjög. Færni hans sem fundarstjóri var einstök. Hann hafði einstakt lag á því að halda reglum, tíma og skipulagi hvers fundar – sama hversu stór samkoman var. Að hafa Hörð sem fundarstjóra var ávísun á að fundurinn færi fram eftir settum reglum.

Við Hörður ræktuðum vináttu okkar afar vel og heyrðumst reglulega – stundum oft í viku. Við tókum „plottið“ um stjórnmál alveg fram á síðustu stundu og það var hrein unun að heyra Hörð segja frá sögunni sem hann var þátttakandi í því hann byrjaði sem ungur maður í Framsóknarflokknum. Hugsjón hans í anda samvinnuhreyfingarinnar var drengileg og hann sýndi það í verki með ýmsum hætti. Hörður var reglumaður enda góðtemplari til margra ára og virkur félagi í reglunni. Hans heilræði var að æska vor ætti að hafa skjól fyrir bábilju og áreiti heimsins. Mín fyrstu kynni af Herði voru í raun í Glímudeild Ármanns þegar ég mætti á mína fyrstu æfingu þar barnungur. Þar var Hörður að dæma og veita ungu fólki ráð og hvatningu.

„Það er Guðs þakkarvert minn kæri,“ sagði Hörður minn gjarnan þegar við áttum í samskiptum. Hann leyndi því ekki en bar heldur ekki mikið á því að segja að hann væri trúaður. Þá gjöf ræddum við gjarnan og í þeirri umræðu var leiðtogi okkar Kristur.

Lífsstarf Harðar er duglegt og hann átti ótal sögur að segja frá sem eru ótrúlegar því á þeim tíma voru ferðalög oft erfiðari en er í dag.

Hörður var mikill félagsmaður og bóngóður til verka. Hann taldi mikilvægt að sinna sjálfboðaliðastarfi sínu í íþróttahreyfingunni og í Framsóknarflokknum og var óeigingjarn þar. Hann var taktfastur til þeirra verka sem flokkurinn lagði honum í té og hann skilaði því vel. Hann hafði hugsjón sem oft á tíðum var á undan hans samtíð. Fyrir það hversu snemma Hörður tók þátt í stjórnmálum í Framsóknarflokknum þótti mörgum merkilegt að hann væri slíkur viskubrunnur því minnugur var Hörður mjög og hægt var að leita til hans með ráð hvenær sem er. Þau ráð vissu allir að væru hárrétt enda leituðu trúnaðarmenn og formenn Framsóknarflokksins til Harðar með ráð og skoðun hans á einstaka málum. Hann var með eindæmum lagafróður og félagslög og regluverks laga um stjórnmál.

Lífsglíma Harðar er nú stíginn og glíma hans er úti. Öruggur allt til hinstu stundar var Hörður sannur glímukóngur lífsins og hann tók stöðu í sinni síðustu glímu. Hann steig glímuna friðsæll og með reisn.

Minn kæri vinur, félagi og mentor. Ég þakka þér fyrir ferðalag okkar saman sem þú glæddir af visku og metnaði, gleði og yfirvegun. Ég þakka þér fyrir allt það sem við gerðum saman, kaffihúsaferðirnar, hádegisverðunum sem við áttum, traust þitt og hlýju. Það voru forréttindi að kynnast þér og lífsleið þinni, fjölskyldu og vinum og öllu þínu samferðarfólki. Ég mun sakna þín því við vorum góðir vinir.

Guð blessi þig og minningu þína. Það er jú Guðs þakkarvert að hafa átt vin sem þig!

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson.

Fallinn er frá Hörður Gunnarsson, félagi í Framsóknarflokknum, sem var virkur í flokksstarfi í alls 62 ár. Hörður sat í miðstjórn flokksins og var lykilmaður á fundum hans.

Hann var mikill glímukappi og var félagi í Glímufélaginu Ármanni, þar sem hann gegndi trúnaðarstörfum.

Hörður Gunnarsson var mikill hugsjónamaður, sem helgaði líf sitt bæði pólitískri baráttu og félagsstarfi. Á löngum ferli sínum í Framsóknarflokknum var hann ekki aðeins virkur þátttakandi í stefnumótun flokksins, heldur einnig ómetanlegur stuðningsmaður ungra framsóknarmanna, sem hann hvatti til dáða með sinni einlægu samvinnuhugsjón. Hann trúði á sameiginlegt átak í þágu heildarinnar og var ætíð reiðubúinn til að leggja hönd á plóg til að efla íslenskt samfélag.

Félagsstörf hans spönnuðu vítt svið, en hann var ekki síður ötull innan íþróttahreyfingarinnar, þar sem glíman átti sérstakan sess í hjarta hans. Hann var bæði keppnismaður og leiðtogi í starfi Glímufélagsins Ármanns, þar sem hann skildi eftir sig djúp spor. Hann hafði unun að því að leiðbeina og kenna þeim sem til hans leituðu.

Á haustdögum fór heilsu hans að hraka, og áttum við nokkur samtöl um hið pólitíska landslag. Í þeim samtölum reikaði hugur Harðar til sögu Framsóknarflokksins, sem hann hafði verið samferða í gegnum líf sitt. Hann sagði mér frá kynnum sínum við fyrri formenn flokksins, einkum Hermann Jónasson og Eystein Jónsson. Miðstjórnarfundurinn 1962 stóð upp úr í minningunni; þá var Hörður 23 ára gamall. Formannsskipti urðu óvænt er Eysteinn tók við af Hermanni. Hörður hafði á orði hversu öflugur Hermann hafði verið á fundinum og verið hvetjandi fyrir unga fólkið í flokknum. Þar hafi samvinnuhugsjónin sannarlega verið höfð að leiðarljósi, og framsóknarfólk þétti raðirnar til að efla íslenskt samfélag. Hörður sagði mér einnig frá því að eftir miðstjórnarfundinn tóku þeir Hermann eina glímu og það þótti unga manninum einkar merkilegt. Herði var það einnig minnisstætt hversu vel foringjar flokksins ræktuðu unga fólkið í gegnum sameiginlegan félagsskap. Mér þótti vænt um þetta samtal okkar Harðar og hversu miklu máli það skipti fyrir hann að koma þessari sögu á framfæri við mig.

Hörður var maður sem lifði samkvæmt sínum gildum og barðist fyrir þeim allt til loka. Minning hans mun lifa í hjörtum þeirra sem þekktu hann, bæði sem félaga, leiðbeinanda og vinar.

Blessuð sé minning Harðar Gunnarssonar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður
Framsóknarflokksins.