Byggt Alls komu 387 nýbyggðar íbúðir á markað á landinu í janúar.
Byggt Alls komu 387 nýbyggðar íbúðir á markað á landinu í janúar. — Morgunblaðið/Eggert
Merki eru um viðsnúning á fasteignamarkaði til meiri virkni í byrjun yfirstandandi árs, þar sem ekki hafa verið teknar fleiri íbúðir af sölu í janúarmánuði síðan í ársbyrjun 2021 þegar vextir voru í lágmarki

Merki eru um viðsnúning á fasteignamarkaði til meiri virkni í byrjun yfirstandandi árs, þar sem ekki hafa verið teknar fleiri íbúðir af sölu í janúarmánuði síðan í ársbyrjun 2021 þegar vextir voru í lágmarki. Voru alls teknar tæplega eitt þúsund íbúðir úr sölu í janúar og voru þær um 300 fleiri en í desember á síðasta ári. Í janúarmánuði í fyrra voru 928 fasteignir teknar úr sölu.

Þetta kemur fram í nýútkominni mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þegar reynt er að áætla umsvif á fasteignamarkaði hefur mátt sjá að sterk fylgni hefur verið á milli fjölda íbúða sem teknar eru úr sölu á vefnum fasteignir.is og fjölda útgefinna kaupsamninga.

Bent er á að markaðurinn róaðist í desember og kaupsamningum fækkaði frá nóvember um rúm 6% en töluverð virkni var þó á markaðinum sé litið á allan síðasta fjórðung ársins 2024 ef tillit er tekið til efnahagsaðstæðna. Samhliða minni umsvifum hefur dregið úr kaupþrýstingi á húsnæðismarkaði og fækkaði íbúðum sem seldust á yfirverði í desember hlutfallslega fjórða mánuðinn í röð. Er kaupþrýstingur um þessar mundir hins vegar sagður vera álíka og í febrúar í fyrra, en þá fór hann vaxandi á vor- og sumarmánuðum síðasta árs.

Alls voru 3.974 íbúðir til sölu á landinu öllu í upphafi febrúarmánaðar og hafði þeim þá fjölgað um 98 frá stöðunni um áramótin. Á höfuðborgarsvæðinu voru 2.362 íbúðir til sölu og þar af 340 sérbýli, að því er fram kemur í skýrslunni.

Rétt innan við 300 íbúðir sem voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu, eða 12% allra íbúða til sölu á svæðinu, eru verðlagðar á undir 60 milljónum króna. Meirihlutinn, eða 1.357 íbúðir, er verðlagður á bilinu 60 til 100 milljónir kr.

Bent er á að á höfuðborgarsvæðinu hefur verið meiri eftirspurn eftir ódýrum íbúðum en dýrum íbúðum undangengin misseri. Í upphafi febrúar voru um 340 fleiri íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu samanborið við febrúar á síðasta ári. „Skýrist það mestmegnis af fjölgun íbúða til sölu sem verðlagðar eru á bilinu 60 til 100 milljónir króna, en slíkar íbúðir eru um 240 fleiri nú en fyrir ári með tilliti til verðlags. Einnig fjölgaði íbúðum sem verðlagðar eru yfir 100 miljónum króna um 70 talsins frá því í febrúar á síðasta ári.“

Aftur á móti er hlutfallslegt framboð íbúða sem verðlagðar eru yfir 60 milljónum króna 88% af öllum íbúðum til sölu, en til samanburðar var hlutfallið um 70% í maí 2020 með tilliti til verðlags.

Þá hefur hlutfallslegt framboð íbúða sem verðlagðar eru yfir 100 milljónum næstum tvöfaldast frá árinu 2020, eða úr 17% í 31%.
omfr@mbl.is