Gísli Þór Ólafsson fæddist á Sauðárkróki 1979. Hann lést á HSN Sauðárkróki 11. febrúar 2025.

Foreldrar hans eru Ólafur Þorbergsson, f. 1954, og Guðrún Kristín Sæmundsdóttir, f. 1960.

Systkini Gísla Þórs eru Bjarnhildur Svava Ólafsdóttir, f. 1971, Þorbergur Skagfjörð Ólafsson, f. 1974, Ólöf Snædís Ólafsdóttir, f. 1976, Hulda Júlía Ólafsdóttir, f. 1982, og Óli Þór Ólafsson, f. 1992.

Eiginkona Gísla Þórs er Guðríður Helga Tryggvadóttir, f. 1989, og gengu þau í hjónaband 22. ágúst 2020. Foreldrar Guðríðar Helgu eru Tryggvi Þorbergsson, f. 1942, og Fanney María Holm Stefánsdóttir, f. 1955. Gísli Þór og Guðríður Helga eiga soninn Kolbein Ara, f. 2020.

Gísli Þór ólst upp á Sauðárkróki, að loknu grunnskólanámi lá leið hans í FNV á Sauðárkróki. Gísli Þór útskrifaðist svo með B.A. í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Gísli Þór starfaði lengst af sem skjalavörður bæði hjá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga og hjá utanríkisráðuneytinu.

Gísli samdi ógrynni af fallegum textum sem finna má í ljóðabókum hans en einnig á hljómplötum og smáskífum sem hann gaf út undir listamannsnafninu Gillon. Auk texta Gísla á fyrrnefndum hljómplötum samdi hann einnig lög, bæði við eigin texta og við ljóð Geirlaugs Magnússonar, Gyrðis Elíassonar, Ingunnar Snædal og Jóns Óskars.

Útför Gísla Þórs verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag, 21. febrúar 2025, klukkan 14. Hlekk á streymi má nálgast á mbl.is/andlat.

Jæja fóstri, þetta fór þá svona. Þú ert farinn yfir um og skilur eftir þig stórt skarð í okkar röðum sem ekki verður aftur fyllt. Ég finn líka að ég er sjálfur ekki samur eftir að fréttin barst. Það er eins og hluti af mér hafi horfið með þér. Skilið eftir sig tóm. Svo djúp voru þau áhrif sem þú og vinskapur okkar hafði á mig. Ég vona að þú hafir vitað af því þótt ég hafi kannski aldrei sagt þér það.

Oft vorum við búnir að rölta saman um nafirnar, bæinn og fjöruna. Blönduhlíðarfjöllin í fjarskanum. Ræðandi um allt og ekki neitt. Stundum með bjór og jafnvel einstaka sinnum með smávindla. Þessa koníakslegnu sem var hægt að kaupa á Kaffi Krók. En það var nú kannski aðallega ég sem sá um að farga þeim. Stundum djúpsteikt pylsa á Bláfelli og jafnvel ball um kvöldið. Gítarinn og söngurinn aldrei langt undan. Gegnum þessar stundir kynntist ég þér sem skáldi, húmorista og djúpt hugsandi einstaklingi, vopnuðum sterkri réttlætiskennd. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á hvaða mann þú hafðir að geyma. Sjálfur treysti ég mér til að fullyrða að nú höfum við misst einn af okkar allra bestu drengjum. Þú sérð líka fóstri að tómið sem þú skilur eftir þig má fylla af góðum minningum og af þeim er sem betur fer nóg. Fyrir það verð ég ævarandi þakklátur.

Hann fór geyst að þér svarti riddarinn. Þegar við félagarnir komum að hitta þig var hann þegar búinn að ná á þig mörgum lögum og þú orðinn vígamóður. Það var dýrmætt að sitja með þér þennan dag, en hún nagar mig sú tilfinning að við hefðum verið of seint á ferðinni. Þú hafðir verið svo hress nokkrum dögum áður og það var svo margt sem ég hefði viljað ræða við þig. Segja þér eitthvað til að taka með þér og kannski gera þér ferðina yfir um bærilegri. Segja þér hve sárt þín verður saknað. Aftur, þá get ég ekki annað en vonað að þú hafir þekkt hug minn þótt minna hafi verið sagt.

Þú varst jú alltaf meira á andlegu hliðinni en ég. Þú trúðir því að það væri eitthvað meira á bak við leiktjöld þessa heims. Ég trúði á trunt, trunt og tröllin í fjöllunum. Ég þrjóskur, þú þolinmóður. Nú er bara að vona að þú hafir haft rétt fyrir þér. Að síðar megum við hittast aftur fyrir hinum megin, rölta um nafir sumarlandsins og syngja Seppa saman. Þá skyldu menn fyrst fá að sjá stemningu.

Ungur var eg forðum,

fór eg einn saman:

þá varð eg villur vega.

Auðigur þóttumst

er eg annan fann:

Maður er manns gaman.

(Úr Hávamálum)

Teitur Már Sveinsson.

Elsku vinur og spilabróðir.

Með trega og tómlegum orðum reynum við að kveðja kæran vin sem erfitt er að sætta sig við að hafi lokið þessari jarðvist. Eftir stöndum við samt með barmafullt hjarta af þakklæti og auðmýkt, við fengum að ferðast með þér í lífinu, upplifa sigra, sorgir, alls kyns ævintýri, kærleik og endalausa gleði saman. Þú þessi hægverski og húmoríski tónlistamaður og ljóðskáld sem komst inn í líf okkar fyrir mörgum ferðalögum, pilsnerum, sólgleraugum, ofnæmisköstum, heilögum morgunstundum og dásemdar kaffibollum síðan, smitaðir okkur öll af gleði með kímni þinni, hlátri og notalegri nærveru. Það var sannur heiður að fá að starfa með þér og það var einstakt að fá að vera vinur þinn. Söknuður okkar er mikill og minning þín lifir og mun lifa í huga og hjörtum okkar.

Dúrírúrídú, elsku vinur, tónlistin leiðir okkur seinna aftur saman í fleiri ævintýri.

Elsku Guja, Kolbeinn Ari og fjölskylda, megi allar góðar vættir fylgja ykkur og styrkja á þessum erfiða tíma.

Ég kveð núna

við áttum okkur stund

við Sólfarið

(G.Þ.Ó.)

Sigurlaug Vordís,
Sigfús Arnar og börn.

Fátt er nöturlegra en það, þegar fjölskyldufaðir er hrifinn á brott, langt fyrir aldur fram. Frammi fyrir þessu stöndum við nú, krabbamein hefur lagt Gísla Þór Ólafsson að velli eftir stutta en snarpa baráttu.

Leiðir okkar Gísla lágu fyrst saman í Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki um síðustu aldamót. Við tókum meðal annars báðir þátt í starfi skólakórsins, sem við höfðum báðir mikla ánægju af, en kórstarf í skólanum stóð þá í blóma undir öruggri handleiðslu Hilmars Sverrissonar. Við Gísli vorum líka báðir meðlimir í merkum félagsskap sem þá var starfandi innan veggja skólans og hét því mikla nafni Bindindisfélag Blöndhlíðinga. Ekki bar það félag þó nafn með rentu, því meðlimir þess voru upp til hópa alls engir bindindismenn og ekki algilt heldur að þeir væru ættaðir úr Blönduhlíð. Hið síðarnefnda átti til dæmis við um mig – ég mun seint geta talist Blöndhlíðingur – en þar sem ég var fremur bindindissamur á þessum tíma og álíka sérvitur og aðrir meðlimir, þá þótti tilhlýðilegt að hleypa mér inn í félagið. Á vegum þess var meðal annars gefið út tímaritið Staupið, haldnar samdrykkjur og farið í ýmsar vettvangsferðir, einkum hér innan héraðs. Gísli Þór gegndi stöðu nokkurs konar andlegs leiðtoga í félagi þessu, sem líklega var meira í ætt við trúar- eða lífsskoðunarfélag en eiginlegt bindindisfélag, eins og fram kemur hér að ofan.

Gísli var annars hlédrægur maður, sem þó var í sjálfu sér ástæðulaust, því hann var mörgum kostum búinn. Þrátt fyrir að vera rólyndur jafnan var hann alls ekki skaplaus eða skoðanalaus og hafði ákaflega sterka réttlætiskennd – honum var ómögulegt að sætta sig við ranglæti og yfirgang. Hann var léttlyndur innan um fólk sem hann þekkti vel og treysti, gat þá leikið á als oddi, hélt þó sjaldan langar eintölur en gat skotið inn meitluðum athugasemdum þegar við átti.

Gísli var listamaður í víðum skilningi þess orðs. Hann orti ljóð og texta og samdi lög – mikið af þessu gaf hann út – hann spilaði auk þess á hljóðfæri og söng. Hann las mikið og hlustaði á tónlist, hafði afar fjölbreyttan tónlistar- og bókasmekk, en meðal hans uppáhaldsmanna í bókmenntum voru Gyrðir Elíasson og Geirlaugur Magnússon, hans gamli kennari úr FNV. Fáar stundir held að ég hafi verið Gísla kærari en þær sem átti við lestur góðrar bókar, með rjúkandi kaffi í bolla.

Samband Gísla og Guju var kærleiksríkt og engum sem til þekkti duldist að á milli þeirra ríkti gagnkvæm virðing og traust. Ég votta henni, Kolbeini Ara og fjölskyldunni allri mína innilegustu samúð, og veit að minningin um einkar vel innrættan og hjartahlýjan eiginmann og föður mun lifa og ylja.

Atli Gunnar Arnórsson.

Gísli Þór bekkjarbróðir okkar í árgangi 1979 úr Gagnfræðaskóla Sauðárkróks er látinn. Elstur í árganginum, fæddur 1. janúar 1979 og var einn af þeim rólegu. Tónlistin náði hug hans snemma.

Í minningunni fékk hluti bekkjarsystkinanna að hlusta óumbeðinn á kassettu þar sem Gísli hafði tekið upp lögin sín og gæði upptakanna kannski ekki alltaf upp á sitt besta.

En þrátt fyrir að Gísli hafi verið rólegur drengur þá var það einmitt hann sem leiddi hópsöng árgangsins aftast í langferðabíl á skólaferðalögum. Hvort sem það voru lög með Bítlunum eða Queen þá kepptumst við við að berja okkur á lærin og klappa í takt.

Á unglingastiginu varð til hljómsveitin „Þú Smjattar“ þar sem nokkur gigg voru tekin í félagsmiðstöðinni. En hljómsveitina skipuðu Styrmir, Rúnar, Garðar, Gísli og Fannar.

Íslenskan og ljóðin áttu einnig hug hans og var Gísli hrifinn af verkum Geirlaugs Magnússonar sem kenndi ófáum sem lögðu leið sína í FNV íslensku. Gísli samdi einnig tónlist við ljóð Geirlaugs og gaf út plötur með tónlist sinni.

Árgangur 1979 á Króknum sendir eiginkonu, syni, foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Minning Gísla lifir með okkur.

Fyrir hönd árgangs 1979 Gagnfræðaskóla Sauðárkróks,

Anna María og Tinna.