Í Aþenu
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Ævintýri Víkings úr Reykjavík í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu karla lauk með afar dramatískum og svekkjandi hætti í gærkvöldi þegar liðið tapaði fyrir Panathinaikos, 2:0, í síðari leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Víkingur vann fyrri leikinn í Helsinki í Finnlandi í síðustu viku 2:1 og tapaði því einvíginu samanlagt 3:2.
Sigurmark Panathinaikos kom á fjórðu mínútu uppbótartíma og voru Víkingar því hársbreidd frá því að knýja fram framlengingu. Allt kom þó fyrir ekki og þátttöku Víkings í Sambandsdeildinni er lokið eftir magnaða og sögulega frammistöðu í keppninni á tímabilinu.
Víkingur er fyrsta íslenska félagsliðið sem vinnur leik í riðla- eða deildarkeppni í Evrópukeppni og fyrsta liðið sem spilar leik og vinnur leik í útsláttarkeppni í Evrópu. Liðið má því ganga afar stolt og sátt frá borði þrátt fyrir svekkelsið sem fylgdi tapi gærkvöldsins.
Hættulegri í fyrri hálfleik
Í leiknum í gærkvöldi var Víkingur síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik og fékk raunar betri færin í hálfleiknum. Ari Sigurpálsson slapp einn í gegn vinstra megin í vítateignum á 22. mínútu eftir glæsilega sendingu Helga Guðjónssonar af vinstri kantinum.
Ari komst framhjá Bartlomiej Dragowski í marki Panathinaikos, missti aðeins jafnvægið og laust skotið fór beint á Nemanja Maksimovic, sem lék við hlið Sverris Inga Ingasonar í miðverði hjá Panathinaikos. Maksimovic var lengi að losa sig við boltann og hreinsaði af markteig, beint í Valdimar Þór Ingimundarson þaðan sem boltinn fór rétt yfir samskeytin vinstra megin.
Valdimar Þór slapp svo einnig í gegn á 40. mínútu, aftur eftir laglega sendingu Helga, náði góðri snertingu vinstra megin í vítateignum en líkt og Ari missti hann aðeins jafnvægið og skotið hafnaði í utanverðu hliðarnetinu.
Í síðari hálfleik féllu Víkingar mjög aftarlega en Panathinaikos gekk illa að skapa sér opin færi. Ísinn var hins vegar brotinn á 70. mínútu þegar Filip Mladenovic fékk boltann vinstra megin í vítateignum eftir þunga sókn og smellti boltanum með laglegu hægri fótar skoti upp í samskeytin fjær. Staðan orðin 1:0 og samanlagt 2:2.
Þegar allt virtist stefna í framlengingu fékk Filip Djuricic boltann vinstra megin við vítateig Víkinga, skaut að marki þaðan sem boltinn fór af varnarmanni og Ingvar Jónsson í marki Víkings varði með fótunum. Illu heilli barst boltinn til Tete, sem skoraði af öryggi úr frákastinu og tryggði Panathinaikos tveggja marka sigur og samanlagðan eins marks sigur.
Vont að missa Aron Elís
Frammistaða Víkings í leiknum var afar góð, sérstaklega í fyrri hálfleik, en í þeim síðari fór fókusinn kannski ögn mikið á að verja mark sitt. Einu tvær marktilraunir Víkinga í síðari hálfleik komu í uppbótartíma; skalli frá Sveini Gísla Þorkelssyni eftir hornspyrnu sem fór beint á markvörðinn Dragowski og hjólhestaspyrna Nikolaj Hansen í blálokin sem fór töluvert yfir markið.
Ljóst er að meiðsli Arons Elís Þrándarsonar, sem bar fyrirliðabandið þar sem fyrirliðinn Nikolaj byrjaði á varamannabekknum, reyndust Víkingum þungbær þar sem hann tók mikið til sín, skilaði boltanum vel frá sér og vann tæklingar og skallabolta.
Eftir að hann fór af velli á 55. mínútu þyngdist róður Víkinga töluvert þó að ekki sé hægt að kvarta yfir frammistöðu neins Víkings, hvort sem þeir byrjuðu leikinn eða komu inn á sem varamenn.
Panathinaikos – Víkingur R. 2:0
1:0 Filip Mladenovic 70.
2:0 Tete 90.
m
Helgi Guðjónsson
Sveinn Gísli Þorkelsson
Oliver Ekroth
Tarik Ibrahimagic
Aron Elís Þrándarson
Ari Sigurpálsson
Lið Víkings: (5-3-2) Mark: Ingvar Jónsson. Vörn: Davíð Örn Atlason (Karl Friðleifur Gunnarsson 66), Tarik Ibrahimagic, Oliver Ekroth, Sveinn Gísli Þorkelsson, Helgi Guðjónsson. Miðja: Daníel Hafsteinsson (Gunnar Vatnhamar 81), Aron Elís Þrándarson (Matthías Vilhjálmsson 55), Erlingur Agnarsson (Nikolaj Hansen 66). Sókn: Valdimar Þór Ingimundarson, Ari Sigurpálsson.