Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru sammála um að Ísland teljist vera háskattaríki.
Tilefnið er fyrirspurn Morgunblaðsins vegna umfjöllunar í síðasta ViðskiptaMogga um hækkun gjalda á nýjar íbúðir í Reykjavík. Samkvæmt útreikningum Ingva Jónassonar, framkvæmdastjóra Klasa, mun fyrirhuguð hækkun gatnagerðargjalda þýða alls 5,5 milljónir á íbúð á Ártúnshöfða.
Þetta eru töluverðir fjármunir og því vaknar spurning hversu háa skatta íslenskur almenningur er farinn að greiða í alþjóðlegu samhengi.
Jafnframt vakna spurningar um hversu mikið fyrstu kaupendur íbúða greiða í skatta og gjöld.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins (SA), segir aðspurð að Ísland sé nú þegar háskattaríki, það leiki enginn vafi á því.
Ekki talin sem skattar
Hún segist aðspurð hins vegar telja ólíklegt að gjöld eins og gatnagerðar- og innviðagjöld séu beinlínis talin sem „skattar“ í alþjóðlegum samanburði.
„En hækkun þessara gjalda þrýstir auðvitað upp byggingarkostnaði sem er til þess fallin að draga úr framboði íbúða og/eða hækka íbúðaverð. Það gefur auga leið. Það er alveg ljóst að hækkun þessara gjalda skilar sér beint inn á íbúðamarkað sem hefur svo áhrif á vísitölu neysluverðs. Eins og við vitum hefur þróun íbúðaverðs verið að halda verðbólgunni uppi þannig að aukin gjaldtaka af íbúðauppbyggingu er alls ekki að hjálpa til hvað það varðar. Ef sveitarfélögin hefðu áhuga á að taka þátt í því verkefni ættu þau að stuðla að aukinni og hagkvæmri íbúðauppbyggingu með öllum tiltækum leiðum,“ segir Anna Hrefna.
Spurð hvort aukin umsvif ríkisvaldsins þrýsti á tekjuöflun í formi skattheimtu segir hún að svarið sé já.
Sömu spurningar voru sendar Samtökum iðnaðarins. Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs, svaraði fyrirspurninni.
Sífellt meira íþyngjandi
„Ísland er háskattaland. Skatttekjur hins opinbera hér eru með þeim hæstu í heiminum, þar sem um 40% af verðmætasköpun hagkerfisins rennur til stjórnvalda í formi skatta og gjalda,“ sagði Jóhanna Klara.
„Eitt af því sem vert er að skoða er hversu mikið ungt fólk greiðir í skatta og gjöld, sérstaklega þegar það kaupir sína fyrstu íbúð og hvernig sú þróun hefur verið. Gjaldtaka í tengslum við fasteignaviðskipti er orðin verulegur hluti af þeim kostnaði sem ungt fólk stendur frammi fyrir. Þessi sífellt hækkandi gjaldtaka hefur áhrif á húsnæðisverð og takmarkar þannig aðgengi ungs fólks að því að komast inn á fasteignamarkaðinn enn frekar.
Auk þess hefur þessi þróun áhrif á framboð á nýjum íbúðum. Þegar gatnagerðargjöld, byggingarréttargjöld og önnur gjöld sem leggjast á uppbyggingu hækka hratt, hægir það á byggingaframboði og gerir þróun nýrra hverfa dýrari. Það hækkar fasteignaverð, sem leiðir af sér verri stöðu á húsnæðismarkaði fyrir alla kaupendur, sérstaklega fyrstu kaupendur,“ sagði Jóhanna Klara. En þrýsta aukin umsvif ríkisins á tekjuöflun í formi skattheimtu?
„Já, sérstaklega nú þegar hið opinbera er rekið með halla og stefnt er að því að snúa honum í afgang.“
Erfiðara fyrir ungt fólk
Hvað húsnæðismarkaðinn varðar segir hún það óheillaþróun og skammsýni að leggja svo mikinn kostnað á komandi kynslóðir kaupenda.
„Ef stefnan er að byggja upp íbúðir fyrir ungt fólk, þá gengur þessi aukna gjaldtaka þvert á þau markmið enda hækkar byggingarkostnaður umtalsvert á nýbyggingum við þetta. Endurskoða þarf þessa hugmyndafræði alvarlega. Verið er að hækka gjöld og leggja á ný gjöld til að fjármagna innviði sem allt samfélagið nýtir, ekki bara þeir sem kaupa nýbyggingar – og ekki bara þessi eina kynslóð sem þarf að komast inn á húsnæðismarkaðinn um þessar mundir. Það er einnig umhugsunarvert að kaupendur íbúða, á svæðum þar sem innheimt hafa verið innviðagjöld eða byggingarréttargjöld, hafa í raun engar skýrar leiðir til að krefjast efnda varðandi þá innviði sem þeir eiga réttmæta kröfu til.“