Útsjónarsamur Alfreð Elíasson tók formlega við sem forstjóri Loftleiða í desember 1953. Stuttu síðar byrjaði félagið að auglýsa ódýr fargjöld.
Útsjónarsamur Alfreð Elíasson tók formlega við sem forstjóri Loftleiða í desember 1953. Stuttu síðar byrjaði félagið að auglýsa ódýr fargjöld. — Ljósmynd/Lennart Carlén
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það var auðveld ákvörðun að setja þessa bók saman. Þegar fyrirtækið var að nálgast áttræðisafmælið, í mars 2024, kom Haukur Alfreðsson hjá Sögufélagi Loftleiða að máli við mig og lagði til að ég gerði veglega ljósmyndabók um sögu félagsins, bók sem gerði þessu mikla Loftleiðaævintýri skil

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Það var auðveld ákvörðun að setja þessa bók saman. Þegar fyrirtækið var að nálgast áttræðisafmælið, í mars 2024, kom Haukur Alfreðsson hjá Sögufélagi Loftleiða að máli við mig og lagði til að ég gerði veglega ljósmyndabók um sögu félagsins, bók sem gerði þessu mikla Loftleiðaævintýri skil. Ég hélt það nú og hófst handa,“ segir Sigurgeir Orri Sigurgeirsson inntur eftir því hvað hafi orðið til þess að hann hafi ákveðið að skrásetja sögu Loftleiða og gefa út bókina Loftleiðir sem kom út í fyrra. Segir hann óhætt að fullyrða að mikil rannsóknarvinna hafi legið að baki bókinni.

„Þó ekki beinlínis fyrir bókina sjálfa. Ég bjó að því að hafa gert heimildarmynd um Alfreð Elíasson og Loftleiðir árið 2009. Við gerð myndarinnar vann ég talsverða undirbúningsvinnu sem nýttist mjög vel við gerð bókarinnar. Vinnan fólst í að safna saman ljósmyndum úr sögu félagsins og skanna þær. Aðeins brot af ljósmyndunum sem ég skannaði endaði í myndinni. Textinn í bókinni er byggður á frábærri ævisögu Alfreðs Elíassonar, sem Jakob F. Ásgeirsson skrifaði 1984, og viðtölum sem ég tók við Loftleiðafólk við gerð myndarinnar.“

Einstakt safn ljósmynda

Spurður hvort hann hafi þurft að leita fanga víða segist Sigurgeir Orri hafa fengið ljósmyndir hjá ýmsum starfsmönnum Loftleiða.

„Þar á meðal voru Halldór Sigurjónsson yfirflugvirki, Magnús Guðmundsson flugstjóri, Kristjana Milla Thorsteinsson, eiginkona Alfreðs Elíassonar, Alfreð Olsen flugvélstjóri, Baldur Bjarnasen flugvélstjóri, Jóhannes Markússon flugstjóri, Einar Runólfsson yfirflugvirki og Dagfinnur Stefánsson flugstjóri ásamt fleirum,“ útskýrir hann og bætir því við að Stefán Nikulásson áhugaljósmyndari hafi fest fyrstu ár Loftleiða á filmu. „Safnið hans er einstakt og nýttist vel við gerð bókarinnar sem, og ljósmyndasafn Icelandair. Enn fremur voru Elías Alfreðsson og Eiríkur Líndal safnari mjög hjálplegir með ýmiss konar auglýsingaefni, bæklinga, flugáætlanir og fleira. Sjálfur keypti ég svo nokkuð af auglýsingaefni af síðum sem selja slíkt safnaradót.“

Mesti fengurinn hafi þó verið í safni sænska ljósmyndarans Lennarts Carlén, sem vann fyrir Loftleiðir á árunum 1956 til 1973.

„Við Haukur Alfreðsson heimsóttum ekkju Lennarts, Suzette Reding Carlén, í maí en hún býr í Lúxemborg. Hún var mjög örlát og hjálpsöm og afhenti okkur einar þúsund ljósmyndir úr safni Lennarts. Hún sagði það hafa gert sér gott í sorgarferlinu að fara í gegnum safnið hans og finna myndir tengdar Loftleiðum en hún hafði fram að þessu ekki treyst sér til að líta í safnið hans vegna of margra minninga, trega og sorgar,“ segir hann og nefnir í framhaldinu að Suzy, eins og hún sé ávallt kölluð, hafi setið fyrir á mörgum auglýsingamyndum Lennarts fyrir Loftleiðir.

„Þau kynntust, eins og lög gera ráð fyrir, á Hótel Loftleiðum. Suzy hafði ásamt tveimur öðrum Lúxemborgarmeyjum verið ráðin sem flugfreyja hjá Loftleiðum úr hópi 500 umsækjenda og þær komu til Íslands á námskeið einn vordag 1968. Þær sátu við borð á yfirfullum veitingastaðnum þegar Lennart birtist og spurði hvort hann mætti deila borði með þeim. Suzy varð strax hrifin af þessum ævintýramanni sem ferðaðist um heiminn og tók ljósmyndir. Þótt tuttugu ára aldursmunur væri á þeim áttu þau mjög vel saman, voru bæði flökkufólk í eðli sínu og varð einnar dóttur auðið.“ Bætir hann því við að Lennart hafi verið einstaklega fær ljósmyndari og hrókur alls fagnaðar. „Með góðri nærveru og gamansemi náði hann fram góðri stemmningu í myndum sínum. Hann var þar að auki gríðarlega fær flugvélaljósmyndari, bæði í lofti og á jörðu niðri.“

Stærsta fyrirtæki landsins

Segir Sigurgeir Orri að það hafi ekki síst verið Halldóri Sigurjónssyni að þakka hversu vel hafi verið haldið utan um sögu Loftleiða.

„Hann var óþreytandi við að taka ljósmyndir og fá myndir hjá öðru Loftleiðafólki en sonur hans, Kristinn Halldórsson, heldur utan um safn föður síns í dag. Sjálfur var Alfreð Elíasson mjög duglegur að taka myndir, ekki síst á fyrstu árum félagsins. Ég fékk safn Stefáns Nikulássonar í hendurnar eftir að við auglýstum eftir efni um sögu Loftleiða fyrir heimildarmyndina og maður að nafni Þorsteinn Jónsson afhenti mér heilan skókassa af Hasselblatt-filmum úr safni hans. Þar sem Loftleiðir urðu fljótt eitt stærsta fyrirtæki landsins, og síðar það stærsta, var mikið fjallað um félagið í fjölmiðlum og er tímarit. is mikill fjársjóður hvað varðar sögu þess. Verandi í ferðaþjónustu auglýsti félagið mjög mikið, bæði á Íslandi og í Skandinavíu, Evrópu og Bandaríkjunum en til eru yndislega fallegar landkynningarmyndir frá Loftleiðum sem teknar voru á 16mm filmu.“

Aðspurður í kjölfarið svarar hann því til að hann hafi sjálfur alltaf haft áhuga á flugi og íslenskri flugsögu.

„Ég verð þó að viðurkenna að ég er sérstakur áhugamaður um góðar sögur. Þegar ég las ævisögu Alfreðs áttaði ég mig á því hve gríðarlegt ævintýri þetta var og hvað hann var einstakur. Ég hugsaði því með mér að sagan yrði flott efni í heimildarmynd, svo að í kjölfarið réðst ég í gerð hennar,“ segir hann og nefnir sérstaklega að saga Loftleiða innihaldi ákaflega grípandi þætti. „Sem dæmi má nefna uppgang félagsins frá því að þrír ungir menn komu heim til Íslands eftir flugnám í Kanada með fjögurra sæta flugvél í farteskinu og þar til félagið flutti farþega á risaþotum milli Evrópu og Bandaríkjanna. Þar á milli er mikið drama, eins og Geysisslysið, björgun Jökuls af Vatnajökli, stjórnarbylting, stofnun Cargolux og síðan hráskinnaleikurinn sem sameiningin við Flugfélag Íslands var. Í bókinni er þó eingöngu lögð áhersla á Loftleiðaævintýrið, uppganginn, útsjónarsemina, góða andann og góðu áhrifin sem félagið hafði úti um allt þjóðfélagið og raunar um heim allan.“

„Mamma, sjáðu hvað ég fann!“

Tengist þú sjálfur Loftleiðum eða einhverju í sögu þess persónulega?

„Kynni mín af Loftleiðafólki byrjuðu á frekar neikvæðum nótum. Þegar ég var kornabarn og svaf í vagni fyrir utan heimili mitt gerði einn meðlimur Loftleiðafjölskyldunnar, Kjartan Olsen að nafni, sér lítið fyrir og rændi mér úr vagninum. Hann fór með mig heim til sín og sagði við mömmu sína: „Mamma, sjáðu hvað ég fann!“ Móðir hans, Lilja Olsen, fékk áfall og skilaði mér aftur heim með innilegri afsökunarbeiðni. Kjartan var þá um sjö ára gamall. Ég held að hann hafi viljað fjölga í Loftleiðafjölskyldunni og fundist ég eiga þar heima. Þegar ég óx úr grasi urðum við Kjartan mestu mátar og spiluðum stundum hnífaparís í garðinum heima. Í eitt skiptið vildi ekki betur til en svo að hann kastaði hnífnum óvart í fótinn á mér,“ segir Sigurgeir Orri og tekur fram að hann sé enn með ör við stóru tána þar sem hnífsblaðið sökk í holdið. „Þetta var, að mig minnir, í síðasta skiptið sem ég spilaði hnífaparís við Kjartan. Hann er mikill grallari og húmoristi en pabbi hans var Olav Olsen, flugstjóri hjá Loftleiðum og einn af hinum frægu Olsenbræðrum sem allir voru Loftleiðamenn. Elsti bróðirinn, Kristinn, stofnaði Loftleiðir með Alfreð Elíassyni og Sigurði Ólafssyni en heimili Óla og fjölskyldu hans var skáhallt á móti æskuheimili mínu á Þinghólsbraut í Kópavogi.“

Þá segir hann skrifferli bókarinnar hafa tekið um ár og það sem hafi komið mest og gleðilegast á óvart hafi verið að ljósmyndasafn Lennarts Carlén hafi verið til staðar. „Ýmsir töldu að safn hans væri glatað. Að hann hefði gefið Icelandair safnið og með einhverjum óskiljanlegum hætti hefði það glatast í meðförum fyrirtækisins. Reyndar gaf Lennart Icelandair margar myndir, jafnvel filmur, en þó ekki allt safnið. Ljósmyndasafn Lennarts gerði útslagið með bókina. Hún er svo miklu betri en hún hefði verið án myndanna hans. Að vísu var ég með talsvert af myndum frá Lennart sem ég fékk hjá Icelandair og raunar líka hjá Sveini Sæmundssyni en filmusafnið hans er ómetanlegt.“

Samvinnuverkefni margra

Bætir hann því við að dágóður hópur hafi komið að gerð bókarinnar. „Og þá meina ég hópur, vegna þess að ef mig vantaði nöfn á fólk á myndum brá ég á það ráð að birta þær í Loftleiðahópnum á Facebook. Yfirleitt var búið að nafngreina flesta á örfáum dögum. Ef það vantaði enn nöfn á fólk póstaði ég myndum í hópinn „Gamlar ljósmyndir“ á Facebook, en sá hópur telur tugi þúsunda meðlima svo að það var mjög hjálplegt. Stundum kom það fyrir að ég fékk þessi skilaboð: „Þetta er ég sem er á myndinni!“ Dæmi um það er Anna Þrúður Þorkelsdóttir, sem var flugfreyja hjá Loftleiðum á sjöunda áratugnum. Það var mjög ánægjulegt. Ómar Arason flugstjóri, Pétur P. Johnson, Kristinn Halldórsson, Guðlaug I. Ólafsdóttir, Gun Vidal, Tedd Hope og fleiri voru mjög hjálpleg við að nafngreina fólk. Ég komst hins vegar að því á þessari vegferð að það fennir óþægilega hratt í sporin. Það getur jafnvel verið nokkrum erfiðleikum háð að nafngreina fólk á myndum sem teknar voru á sjötta áratug síðustu aldar.“

Segir hann Hauk og Geirþrúði Alfreðsbörn sem og Jakob F. Ásgeirsson hafa komið með góð ráð og tillögur. „Matthías Arngrímsson flugstjóri svaraði ýmsum spurningum um íðorð tengd flugi og las próförk ásamt Benedikt Axelssyni, Anna Agnarsdóttir prófessor emerita las yfir enska textann og Dayla Lutz yfir hluta enska textans.“

Bókin bæði á íslensku og ensku

Talið berst að ævintýraferð Sigurgeirs Orra til Bahamaeyja í byrjun árs, en þangað fór hann meðal annars til að hitta konur sem koma fram í bókinni. „Við Haukur Alfreðsson hjá Sögufélagi Loftleiða skruppum til Nassau á Bahamaeyjum, ásamt vini mínum Jónasi Frey Harðarsyni, til þess að hitta þær Adelu Osterloh og Margréti Johnson sem báðar störfuðu fyrir International Air Bahama um 1970. Margrét, sem byrjaði sem flugfreyja hjá Loftleiðum árið 1964, hefur búið á Bahamaeyjum alla tíð síðan og Adela var í sérstöku uppáhaldi hjá Lennart Carlén. Hann fékk Adelu til að sitja fyrir á myndum hjá sér, en mynd af henni prýðir heila síðu í bókinni. Ég skil af hverju Lennart var hrifinn af Adelu, því hún er einstaklega heillandi manneskja.“

Spurður að lokum um markhóp bókarinnar, sérstaklega á erlendri grundu, segir hann Loftleiðir hafa verið alþjóðlegt fyrirtæki með starfsmenn úti um allan heim. „Samskipti innan fyrirtækisins fóru mikið fram á ensku. Mér þótti við hæfi að hafa bókina á tveimur tungumálum, íslensku og ensku, og gera þeim sem unnu fyrir fyrirtækið og fyrirtækjum því tengdu um gervalla hnattkúluna kleift að kynna sér sögu þess. Saga Loftleiða er að koma í fyrsta sinn út á öðru tungumáli en íslensku með þessari bók. Flugáhugafólk sem skilur ensku getur því loksins kynnt sér þessa mögnuðu sögu.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir