Einar Freyr Elínarson
Læknaskortur á landsbyggðinni hefur verið viðvarandi vandamál í áraraðir. Þrátt fyrir að það sé á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins að tryggja grunnheilbrigðisþjónustu virðist lítið hafa verið gert til að laða lækna að störfum í dreifðum byggðum og tryggja þjónustu um allt land.
Fyrir stuttu skrifaði ég grein þar sem ég lýsti viljaleysi ríkisins til þess að tryggja íbúum á öllu landinu grunnþjónustu eins og löggæslu og heilbrigðisþjónustu. Í framhaldinu hafði ég samband við heilbrigðisráðuneytið og óskaði eftir svörum við eftirtöldum spurningum:
1. Hvert er hlutfall fastráðinna lækna í stöðugildum á landsbyggðinni?
a. Óskað er eftir að sérstaklega sé líka tilgreint hlutfallið í þeim læknishéruðum þar sem einn læknir sinnir dagvinnu.
2. Hafa heilbrigðisstofnanir getað boðið læknum sem fastráða sig, á svæðum þar sem einungis hafa verið verktakar, einhverjar ívilnanir? Hér er átt við t.d. húsnæðisstuðning eða niðurfellingu námslána.
3. Hefur fastráðnum læknum á þessum svæðum boðist einhvers konar framgangur í starfi samhliða heimilislækningum? T.d. sértæk stjórnunarstörf eða rannsóknarstörf samhliða öðrum störfum.
4. Er markvisst unnið að því að tryggja læknum á þessum svæðum faglegan stuðning, s.s. reglulega teymisfundi, eða eru aðrar leiðir farnar til þess að sporna gegn faglegri einangrun?
5. Eru starfsskilyrði lækna á þessum svæðum þar sem þeir eru fastráðnir og hafa fasta búsetu alla jafna þannig að þeir eru einir um bakvaktir?
Svarið sem ég fékk í fyrstu var stutt og laggott: Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki upplýsingar um það sem spurt er um.
Spurningarnar sem ég lagði fyrir ráðuneytið voru ekki úr lausu lofti gripnar, svo ég útskýri þær aðeins í sömu röð.
1. Mönnun: Læknafélag Íslands tók saman tölfræði um mönnunarstöðu á landsbyggðinni árið 2021. Þá voru níu verktakar og fimm fastráðnir læknar í þeim læknishéruðum þar sem einn læknir sinnir dagvinnu. Ráðuneytið sem er ábyrgt fyrir málaflokknum hefur ekki upplýsingar um stöðu mála í dag.
2. Ívilnanir: Í mörgum löndum, t.d. Kanada, Ástralíu og Noregi, eru boðnar ívilnanir til lækna sem skuldbinda sig til starfa á ákveðnum svæðum. Þetta hefur reynst áhrifaríkt til að laða að heilbrigðisstarfsfólk samhliða öðrum ráðstöfunum.
3. Framgangur í starfi: Rannsóknir sýna að möguleikar til starfsþróunar, s.s. stjórnunarstöður eða rannsóknartækifæri, skipta sköpum í því að læknar velji að setjast að í dreifðum byggðum. Það skiptir máli að starfsferill þeirra geti þróast áfram og að þeir hafi raunveruleg tækifæri til að vaxa innan heilbrigðiskerfisins.
4. Faglegt starf og stuðningur: Til að sporna gegn faglegri einangrun er mikilvægt að læknar á landsbyggðinni hafi aðgang að faglegri símenntun, samstarfi við háskólastofnanir og möguleikum á sérhæfingu. Slíkt getur gert stöðuna eftirsóknarverðari og aukið líkur á að læknar ílengist í dreifðum byggðum.
5. Bakvaktir og álag: Starf læknis sem starfar einn og þarf að sinna endalausum bakvöktum samhliða því er í engu samræmi við þá þróun sem við höfum séð á íslenskum vinnumarkaði. Unnið hefur verið að því að stytta vinnuviku og vinnustaðir hreykja sér sérstaklega af því að vera fjölskylduvænir. Vinnufyrirkomulag þar sem þú ert aldrei almennilega laus frá vinnu er fráhrindandi fyrir marga sem vilja gjarnan geta verið lausir við skyldur starfsins og notið tíma með fjölskyldu í staðinn. Það þurfa einfaldlega að vera að minnsta kosti tveir læknar sem geta unnið á móti hvor öðrum. Skilgreining stórra svæða sem einmenningsumdæmi er arfleifð úreltrar hugsunar og kemur í veg fyrir eðlilega framþróun.
Eftir frekari ítrekun á svörum um það hvort einhverjum ívilnunum væri að skipta af hálfu ríkisins fékk ég að lokum upplýsingar um að heimild væri í lögum frá árinu 2020 um sérstaka tímabundna ívilnun í formi endurgreiðslu námslána. Þrátt fyrir þessa heimild hefur engin slík undanþága verið veitt og er niðurstaða starfshóps á vegum ráðuneytisins frá 2024 sú að frumkvæði að slíku þurfi að koma frá sveitarfélagi. Það þarf síðan að fara til afgreiðslu ráðherra háskólamála, sem þarf þó að fá mat Byggðastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á mikilvægi þess að heimildinni verði beitt.
Þó að því beri auðvitað að fagna að opnað hafi verið á einhverjar lausnir er það hins vegar upplifun undirritaðs að mikill skortur sé á að heilbrigðisráðuneytið sjálft hafi yfirsýn og frumkvæði að því að tryggja viðunandi þjónustu um allt land.
Stefnuleysis ríkisins kemur í veg fyrir að sú mikla uppbygging samfélaga sem er yfirstandandi víða um land verði sjálfbær til lengri tíma. Stefna stanslausrar miðstýringar er úrelt og í engu samræmi við þær breytingar á íslensku samfélagi og efnahagslífi sem við höfum upplifað síðastliðin áratug. Það er tímabært að ríkið hætti að skella skollaeyrum við eðlilegri kröfu um grunnþjónustu, horfist í augu við breytta tíma og komi með alvöru lausnir.
Höfundur er sveitarstjóri Mýrdalshrepps.