Radosław Sikorski
Radosław Sikorski
Þessi ríki þurfa oft á því að halda sem Pólland sárvantaði fyrir 35 árum og sem það hagnast enn á: þau þurfa góða stjórnarhætti, erlendar fjárfestingar án skuldbindinga en umfram allt pólitískan stöðugleika

Radosław Sikorski

Þegar ég var að skoða samfélagsmiðlana1) rakst ég nýlega á kort sem sýnir öll lönd með hærri verga landsframleiðslu á mann2) en Pólland árin 1990 og 2018. Munurinn þar á milli var sláandi. Þótt fjöldi slíkra landa hafi verið töluverður fyrir 35 árum, og þá ekki einungis í Evrópu heldur einnig í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku, hefur þeim fækkað verulega með tímanum. Árið 2018 voru engin ríki frá Suður-Ameríku eða Afríku lengur auðkennd á kortinu.

Fyrir árið 2025 fækkaði þessum ríkjum á listanum enn fremur. Samkvæmt gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var verg landsframleiðsla Póllands árið 1990 aðeins 6.690 dollarar, þ.e. samkvæmt bandarískum gjaldeyri sem er nú í gildi. Fyrir árið 2024 jókst hún næstum áttfalt og jafngilti 51.630 dollurum3). Allt þetta átti sér stað á aðeins þremur áratugum og þá á einni kynslóð. Og sú aukning heldur áfram. Samkvæmt spá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins mun pólska hagkerfið vaxa hraðast af öllum stórum hagkerfum Evrópusambandsins á árunum 2024-2025.4)

En hvernig gerðist þetta? Auk þeirrar miklu vinnu sem borgarar okkar hafa lagt á sig hafa tveir meginþættir stuðlað að þessum efnahagslega árangri eða réttara sagt tvær stofnanir: NATO og Evrópusambandið.

Hið fyrrnefnda, NATO, sem Pólland gekk til liðs við árið 1999, tryggði okkur öryggi og hjálpaði okkur að sigrast á áratugalangri gamalli skiptingu milli Austur- og Vestur-Evrópu. Hið síðarnefnda, Evrópusambandið sem við gengum til liðs við fimm árum síðar, hrinti af stað ferli sem fólst í því að draga úr langvarandi misræmi einu skrefi lengra. Það veitti nýjum aðildarríkjum aðgang að svokölluðum „samheldnisjóðum“, en fyrst og fremst að sameiginlegum evrópskum markaði.

Uppsprettur velgengni

Það sem hélst stöðugt, sama hver var við völd hverju sinni eftir að kommúnismi í Póllandi hafði fallið árið 1989 sem og hin óreiðukenndu lýðræðislegu stjórnmál tóku við að nýju, var ákvörðun Póllands um að ganga í NATO og Evrópusambandið, þrátt fyrir hinar daglegu pólitísku deilur. Hvers vegna?

Við erum frábær þjóð en á sama tíma meðalstórt ríki. Okkur þykir vænt um okkar löngu sögu en í ár eru þúsund ár liðin frá því að fyrsti konungur okkar var krýndur. Samt er íbúafjöldi Póllands mun minni en í Peking og Shanghai samanlögðum. Pólland þarf þá á bandamönnum að halda til að auka möguleika sína á alþjóðavettvangi.

Þær staðreyndir um Pólland, þ.e. að okkar fátæka land komst undan áratuga yfirráðum Rússa og efnahagslegri óstjórn, gætu einnig átt við um fjölda svokallaðra „miðvelda“ í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku sem leita að svigrúmi til að vaxa og dafna.

Þessi ríki þurfa oft á því að halda sem Pólland sárvantaði fyrir 35 árum og sem það hagnast enn á: þau þurfa góða stjórnarhætti, erlendar fjárfestingar án skuldbindinga en umfram allt pólitískan stöðugleika, réttarríki og fyrirsjáanlegt alþjóðlegt umhverfi með nágrönnum sem vilja ekki heyja stríð heldur vinna saman að gagnkvæmum ávinningi. Þessir þættir geta í raun og veru gagnast hverju ríki sem er óháð vergri landsframleiðslu þeirra.

Í dag er skorað á alþjóðaskipan og þá á mörgum vígstöðvum. Það eru þó stundum góðar ástæður fyrir því. Þær stofnanir sem eru áratuga gamlar, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar og Öryggisráð SÞ, eru ekki fulltrúar alþjóðlegs samfélags og ófærar um að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. En það sem er þó þörf á er alls ekki að þeim verði hafnað að öllu leyti heldur að gerðar verði umbætur á þeim.

Blekking heimsvaldasinna

Þeim sem eru örvæntingarfullir gæti þótt breyting sem kemur með valdi aðlaðandi. Það væru þó mistök. Það að yfirgefa vettvang fyrir alþjóðlega umræðu og grípa til ofbeldis kemur okkur ekki langt.

Sem dæmi mætti nefna ástæðulausan yfirgang Rússa gegn Úkraínu. Samkvæmt áróðri Kremlar er um að ræða réttlætanleg viðbrögð við vestrænni heimsvaldastefnu sem talin er ógna öryggi Rússlands. En það sem við sjáum í dag er hins vegar nýlendustríð nútímans gegn úkraínsku þjóðinni sem vill, eins og við Pólverjar fyrir 30 árum, betra líf og þeir gera sér fulla grein fyrir því, eins og við á sínum tíma, að þeir geti aldrei náð þessu markmiði með því að beygja sig aftur undir vald Rússa. Og það er einmitt ástæðan fyrir því að þeim er refsað, þ.e. fyrir tilraun þeirra til að losa sig undan fyrrverandi stórveldi. Yfirgangur Kremlar telst örvæntingarfull barátta misheppnaðs heimsveldis til að endurheimta áhrifasvæði sitt.

Sigur Rússa, sem vonandi verður aldrei að veruleika, myndi ekki koma á réttlátari alþjóðaskipan. Það myndi ekki gagnast ríkjum sem eru óánægð með stöðuna í dag. Það myndi ekki einu sinni leiða til þess að Rússland yrði réttlátara, velmegandi land. Það nægir að nefna að nú eru fleiri pólitískir fangar í Rússlandi en þeir voru á níunda áratugnum þegar Sovétríkin réðust inn í Afganistan. Einnig hefur mannfall aukist verulega í Rússlandi.

Stríð telst varla nokkurn tímann flýtileið til velmegunar. Á síðasta árþúsundi fékk Pólland sinn skerf af innrásum og uppreisnum gegn hernámsliðinu. En það sem loksins færði okkur velmegun var þriggja áratuga friður, fyrirsjáanleiki, alþjóðlegt samstarf og pólitískur stöðugleiki.

Þess vegna var forgangsverkefni Póllands skýrt þegar það tók við formennsku í ráði Evrópusambandsins, þ.e. að það lagði áherslu á öryggi á mörgum sviðum, meðal annars hvað varðar hernað, efnahag og stafrænan veruleika. Það sem getur gagnast ekki aðeins Evrópubúum heldur einnig stærra samfélagi á heimsvísu er Evrópa sem er örugg, velmegandi og opin fyrir viðskiptum. Rétt eins og það kom Póllandi til góða á undanförnum þremur áratugum.

Það kann að hljóma dauflega en það tókst. Það þarf ekki að gera meira en að skoða tölurnar.

1) mbl.is/go/sdcdh

2) Vegna kaupmáttarjöfnuðar

3) Heimild: mbl.is/go/k5ke9

4) mbl.is/go/hindi

Höfundur er utanríkisráðherra Póllands.

Höf.: Radosław Sikorski