Grétar Berg Svavarsson fæddist á Sjúkrahúsinu á Seyðisfirði 12. júlí 1965. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 8. febrúar 2025.

Móðir hans var Sigríður Svavarsdóttir, f. 6. janúar 1945, d. 18. maí 2020.

Systkini Grétars eru Jón Ágúst Berg Jónsson, f. 31. janúar 1968, Kristín Hólmfríður Víðisdóttir, f. 22. október 1969, Hafrún Lilja Víðisdóttir, f. 22. júní 1971 og Helena Hafdís Víðisdóttir, f. 4. nóvember 1974.

Grétar Berg ólst upp hjá Lilju ömmu sinni og Svavari afa og var svo ættleiddur af þeim ungur að aldri. Lilja Hallgrímsdóttir, f. 27. mars 1926, d. 4. maí 2013 og Svavar Bjarnason, f. 12. des. 1915, d. 8. ágúst 1995. Þau ólu hann upp ásamt börnum sínum sem voru sex talsins en þau elstu voru flutt að heiman.

Börn Lilju og Svavars eru: Sigríður, f. 6. janúar 1945, d. 18. maí 2020, Sigmar, f. 14. nóvember 1946, d. 23. desember 2017, Kári, f. 5. október 1949, Margrét Hólmfríður, f. 31. janúar 1952, Rósa Gerða, f. 22. júlí 1953 og Björk, f. 7. október 1957.

Árið 2005 kvæntist Grétar Sigrúnu Hjálmarsdóttur, f. 4. febrúar 1980, en leiðir þeirra skildi árið 2017. Börn þeirra eru Viktor Berg, f. 27. júní 1999, og Karen Birta, f. 8. september 2005. Foreldrar Sigrúnar eru Hjálmar Hlöðversson, f. 3. mars 1952, og Elínborg Pétursdóttir, f. 12. júlí 1953.

Grétar Berg ólst upp á Seyðisfirði þar til hann varð tíu ára gamall. Þá flutti hann með afa sínum og ömmu suður til Reykjavíkur. Þau bjuggu alla tíð í Kópavogi fyrir utan eitt ár sem þau bjuggu í Skerjafirði. Grétar leit alltaf á sig sem Seyðfirðing og hafði miklar taugar austur. Hann var mikið á Seyðisfirði eftir að hann flutti suður enda bjuggu eldri systkini hans þar.

Grétar lauk grunnskólaprófi og fór síðan að vinna eftir það og vann hann við hin ýmsu störf en síðustu árin vann hann hjá Íslyft í Kópavogi.

Grétar hafði einstaklega gaman af því að fylgja börnunum sínum í íþróttum. Karen Birta æfði fótbolta með Fjölni fram á unglingsár og Viktor Berg æfði fótbolta framan af þar til hann skipti yfir í handboltann sem hann stundar enn. Grétar var mikill Fjölnismaður og mætti á alla handboltaleiki meistaraflokks Fjölnis og gladdi það hann mjög að fá að upplifa með þeim drauminn um að komast í Olísdeildina.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 21. febrúar 2025, kl. 13.

Nú er elsku pabbi búinn að kveðja þennan heim. Það er sárt að hugsa til þess að þú sért farinn og að við eigum ekki eftir að hitta þig aftur. Við erum þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman, utanlandsferðirnar, útilegurnar, spilakvöldin, sjónvarpskvöldin, jeppaferðirnar. Þú varst okkar helsti aðdáandi. Þú studdir okkur í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Við áttum margar góðar stundir saman. Síðasta árið barðist þú við veikindi en þú sýndir mikla seiglu og gafst aldrei upp, lést veikindin ekki stoppa þig í að gera það sem þú vildir og við munum taka það með okkur út í lífið.

Elsku pabbi, sorgin og söknuðurinn er mikill en minningarnar lifa áfram í hjörtum okkar.

Ástarkveðja,

Karen Birta og Viktor Berg.

Skarð er hoggið í systkinahópinn, stóri bróðir minn er farinn á vit ævintýranna. Farinn alltof fljótt og átti svo margt eftir að gera. Grétar hefði orðið 60 ára í sumar ef helv… krabbameinið hefði ekki tekið hann frá okkur.

Grétar sem var elstur í systkinahópnum ólst upp hjá afa og ömmu frá þriggja ára aldri. Hann bjó á Seyðisfirði fyrstu árin en við systkini hans vorum hinum megin á landinu, á Vesturlandi. Í þá daga tók ferðalag á milli landshluta langan tíma og því lítið verið að hittast.

Í minningunni man ég voða lítið eftir Grétari þegar hann var minni en man samt að við fórum í ferðalag austur á Seyðisfjörð til að hitta hann, afa og ömmu. Man eftir litla stráknum með svarta hárið eins og mamma og amma voru með og svolítið skakkar tennur. Strák sem sýndi okkur stoltur gulu hænuungana sem voru í hænsnakofa úti í garði heima hjá afa og ömmu.

Það var ekki fyrr en við vorum orðin fullorðin að samskiptin fóru að verða meiri og Grétar varð meira og meira hluti af systkinahópnum sem telur okkur fjögur, Nonna, mig Stínu, Hafrúnu og Helenu. Stutt er á milli okkar allra í aldri og náðum við því vel saman.

Á fullorðinsárum hittumst við oft heima hjá mömmu í kaffi og þá var tekið í fjölskylduspilið dollara og þá var mikið hlegið.

Þegar amma var á lífi mætti hún líka til að spila og þá lenti Grétar í vandræðum með að aðgreina mömmur sínar og kallaði hann þær því alltaf stóru og litlu mömmu. Amma var litla mamma því hún var rétt rúmlega 150 cm á hæð á meðan mamma var stóra mamma enda var hún rétt yfir 160 cm.

Grétar eignaðist síðan gullmolana sína tvo, Viktor Berg og Karen Birtu, með Sigrúnu fyrrverandi konu sinni. Hann sá ekki sólina fyrir þeim. Hann var góður faðir og sinnti þeim vel. Fylgdi þeim landshlutanna á milli í íþróttum eða tók þau með sér í alls kyns ferðalög, hérlendis og erlendis. Maður sá hvað hann var stoltur af þeim og fór ekki á milli mála að hann elskaði þau heitt. Það er því mikið áfall fyrir þau að missa pabba sinn svo ung því það var svo gott samband á milli þeirra og margt sem þau áttu eftir að gera saman.

Grétar var alltaf boðinn og búinn að aðstoða okkur stórfjölskylduna við hvers kyns viðvik. Alltaf var hann fyrstur að bjóða fram aðstoð ef verið var að flytja, redda flutningabíl eða aðstoða okkur Hermund í bústaðnum. Hefði svo viljað hafa meiri tíma með honum, til að kynnast honum betur og jafnvel ferðast svolítið með honum.

Ég minnist Grétars sem góðs vinar, bróður og föður. Minning hans mun alltaf lifa í hjarta mér og ég hugsa hlýtt til þess tíma sem við áttum saman.

Horfinn, farinn héðan,

svo hljótt er allt um stund.

Við horfum öll til himins,

er hinsta sofnum blund.

Þá kvaddur kær er bróðir,

er kvikan alltaf sár,

þú enda varst hér alltaf,

öll hin liðnu ár.

Er bróðir svefns þér býður,

útbreidda himinsæng

og bjartir englar brosa

og blaka svölum væng.

Þeir vagga veikum bróður,

í væran svefn og þá,

þú eigir eilíft ljósið

og athvarf himnum á.

(Sigr. Guðný Jónsdóttir)

Hvíl í friði, elsku stóri bróðir.

Þín

Kristín (Stína).

Við Grétar ólumst ekki upp saman og ég þekkti hann lítið í uppvextinum þar sem hann bjó hjá ömmu og afa en ég vissi alltaf að hann væri bróðir minn. Þegar árin liðu fór hann að vera meira heima hjá mömmu og tókum við meiri þátt í lífi hvort annars. Grétar gifti sig og eignaðist tvö yndisleg börn, Viktor og Karen, sem hann var mjög stoltur af. Þá urðu líka boðin fleiri eins og afmæli, bollukaffi, fermingar, jólakaffi og útskriftir. Eftir að hann skildi eyddi hann jólum eða ármótum með okkur mömmu og var það ómetanlegt að fá að eyða þeim tíma með honum.

Eins og mörgum er kunnugt um flutti mamma frekar oft og var hann alltaf til taks til að hjálpa til og flytja með hana, enn eitt skiptið. Einnig var hann duglegur að aðstoða okkur systkinin þegar þess þurfti. Mér er minnisstætt þegar ég fór til Englands sem au-pair 17 ára gömul að þá hann lánaði mér ferðageislaspilara sem var frekar dýr hlutur þá og fannst honum það sjálfsagt mál. Þegar ég fór að búa þá var svo lítið mál að biðja hann um aðstoð. Sama hvort það var að bora gat í vegg eða leggja parket. Alltaf kom hann að hjálpa litlu systur sinni.

Grétar var ekki aðeins hjálpsamur, heldur einnig skemmtilegur og góður maður. Grétar var mikilvægur hluti af lífi mínu. Ég er þakklát fyrir allar okkar samverustundir, og mun ég varðveita þær góðu minningar sem við áttum.

Grétar var gull af manni og minnist ég hans með hlýju og þakklæti.

Minning mín um þig,

er aðeins ljúf og góð.

Þú varst alltaf svo góður,

gerðir allt fyrir mig.

Þú varst þakklátur,

fyrir allt sem gert var fyrir þig.

Þú varst fyrirmynd mín,

og verður fyrirmyndin alla mína tíð.

Ég á eftir að sakna þín,

hvernig þú brostir, hvernig þú talaðir.

Ég kem svo og heimsæki þig,

þegar minn tími kemur.

(IÝr.)

Hinsta kveðja,

Helena systir.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð Grétar.

Elsku Grétar, þú varst mér sem bróðir, enda komst þú snemma inn í líf mitt, þegar ég var 12 ára gömul. Sem kærasti systur minnar og síðar barnsfaðir hennar og eiginmaður til 20 ára.

Við eigum svo margar góðar minnigar, frá öllum sumarbústaðarferðunum. Sem voru ansi margar. Utanlandsferðum, spila- og pizzakvöldum. Jól og áramót og svo lengi mætti telja.

Við áttum dásamlega utanlandsferð saman sumarið 2022 sem börnin mín tala alltaf um sem okkar allra bestu utanlandsferð. Þar sem við fórum í gokart, tívolí og á Barcelona-leik. Fljótlega eftir þessa ferð skall á dökkt ský þegar þú greindist með ólæknandi krabbamein. Síðan þá hefur verið óraunverulegt að þú munir ekki fylgja okkur alltaf.

Það var erfitt að fylgja þér í gegnum veikindin en líka þvílík forréttindi og ég er þakklát fyrir tímann sem við fengum.

Þú varst mikið með okkur fjölskyldunni, við héldum spilakvöldunum áfram og svo varst þú alltaf mættur að hjálpa okkur í alls konar brasi alveg óumbeðinn, þú bara mættir með bestu ráðin og þegar þér fannst við ekki með réttu tækin mættir þú bara með þau á staðinn. Ég minnist þess með bros á vör þegar við vorum að handmoka garðinn, þá mættir þú bara með dráttarvél og sagðir, hérna, þetta verður aðeins auðveldara svona. Þrátt fyrir stundum litla heilsu vildir þú alltaf koma og vera með í brasinu.

Þú komst mikið á daginn þegar þú varst hættur að vinna vegna veikindanna og þið Danni áttuð gott spjall þegar hann var ekki á sjónum. Ég veit að þetta var ykkur báðum dýrmætt. Þú varst einnig stór hluti af lífi barnanna minna og sýndir þeim alltaf einlægan áhuga í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Þau kveðja með söknuði góðan frænda.

En nú þegar komið er að leiðarlokum okkar þakka ég samfylgdina og minning yndislegs manns mun lifa í huga mínum.

Það er komið að kveðjustund í bili, mín trú er sú að við munum hittast aftur.

Elsku Viktor Berg og Karen Birta.

Guð veri með ykkur og styrki.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir,

þá líður sem leiftur af skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(HJH)

Kristín
Hjálmarsdóttir.

Með sorg í hjarta kveðjum við elsku Grétar okkar. Það er erfitt að hugsa til þess að hitta þig aldrei aftur og fá eitt gott knús.

Vinátta okkar spannar tæplega 30 ár eða allt frá því að þú og Sigrún besta vinkona mín hófuð samvistir. Þú varst minn fyrsti yfirmaður þegar þú réðst mig inn á Domino's Höfðabakka árið 1997 sem var á þeim tíma heitasti vinnustaður landsins. Þú gerðir Domino's án efa að einum skemmtilegasta vinnustað sem ég hef unnið á. Þú varst kröfuharður yfirmaður og þoldir ekki lata einstaklinga, en ávallt var stutt í glensið og gleðina.

Árið 1999 kom svo frumburður þinn og Sigrúnar í heiminn, Viktor, og seinna Karen, þau voru svo sannarlega sólargeislarnir þínir.

Heimilin ykkar voru mín heimili líka og griðastaður og minnist ég þess hversu vel mér leið alltaf hjá ykkur. Um helgar var yfirleitt í boði skinkusalat og súkkulaðikaka en þú varst mjög oft að brasa eitthvað enda varstu einstaklega mikill dugnaðarforkur, laghentur og duglegur til vinnu. Ég man þegar ég kynnti þig fyrir Jósa og þú sagðir við mig: Jesús, Þyrí, hann er alltof hávaxinn fyrir þig. Stutt í brosið og kímnina og þér fannst ég á köflum frekar biluð.

Við áttum margar dýrmætar stundir saman, eins og jeppaferð sem þú fórst með mig og Sigrúnu í, torfærukeppnir og gleðistundir tengdar krökkunum. Þú varst fjölskyldumaður og naust þín vel í utanlandsferðum, útilegum, skíðum og á Fjölnisleikjum. Svo varstu einstakur áhugamaður um bíla og ekki verra ef þeir voru ljótir húsbílar og ekki skánaði áhuginn með árunum.

Hetjuleg barátta þín og þrautseigja síðustu árin var aðdáunarverð. Orðin að gefast upp voru ekki til. Grétar var einstaklega heppinn með tengdafjölskyldu því að þó svo að leiðir hans og Sigrúnar hafi skilið reyndust Ella og Hjalli honum ótrúlega vel og það sama má segja um systkini Sigrúnar.

Grétar var mikill Fjölnismaður og naut sín vel í hlutverkinu sem stuðningsmaður barna sinna í fótbolta og handbolta. Við fengum að upplifa Grafarvogsdrauminn okkar saman þegar Viktor og Fjölnisstrákarnir unnu sér sæti í Olísdeildinni í handbolta. Það var stór og eftirminnileg stund og það verður erfitt að fara á leiki og hitta þig ekki. Við munum halda áfram að hvetja Viktor á hliðarlínunni.

Stundin sem ég og Jósi áttum með þér á aðfangadag þegar við vissum að endalokin væru að nálgast var dýrmæt. Þú ætlaðir að skilja sáttur, Viktor og Lea að hefja sambúð, Karen að brillera í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur, hvort sem það var útskriftin úr MS eða Húsmæðraskólanum. Þér leið vel að vita að þau voru á góðum stað og umkringd fólki sem þú vissir að myndi klífa fjöll fyrir þau. Ég er svo þakklát fyrir allt trúnaðarspjall okkar, sérstaklega síðustu mánuði, samveru og hversu vænt þér þótti um okkur Jósa og krakkana.

Hugur okkar er hjá Viktori og Karen ásamt öðrum ástvinum.

Minning þín, elsku vinur, lifir áfram í hjörtum okkar, ég og Jósi munum alltaf passa upp á og elska Viktor og Karen eins og okkar eigin börn.

Sjáumst í himnaríki, hvíldu í friði, elsku vinur.

Þínir vinir,

Þyrí og
Jóhannes (Jósi).

hinsta kveðja

Elsku Grétar minn.

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Þín veður sárt saknað, stóri bróðir.

Þín systir,

Hafrún Lilja.

Það voru miklar harmafregnir að heyra af andláti Grétars. Við vorum vinnufélagar í nokkur ár hjá Vöku þar sem hann stýrði bíladeildinni og stóð sig mjög vel í því starfi. Ég vissi að hann hefði veikst fyrir nokkru en taldi mig hafa heyrt að hann væri á batavegi. Ég er viss um að ég geti sagt það fyrir hönd margra fyrrverandi starfsmanna Vöku að hans sé sárt saknað. Elsku Viktor og Karen og aðrir aðstandendur Grétars, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðju. Blessuð sé minning Grétars.

Steinar Már Gunnsteinsson.