Fagurrauður Harrison Ford breytist í rauðan beljaka í kvikmyndinni Captain America: Brave New World.
Fagurrauður Harrison Ford breytist í rauðan beljaka í kvikmyndinni Captain America: Brave New World.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin, Laugarásbíó og Smárabíó Captain America: Brave New World ★★··· Leikstjórn: Julius Onah. Handrit: Rob Edwards, Malcolm Spellman, Dalan Musson, Julius Onah og Peter Glanz. Aðalleikarar: Harrison Ford, Anthony Mackie, Danny Ramirez, Shira Haas, Carl Lumbly, Xosha Roquemore, Giancarlo Esposito og Tim Blake Nelson. Bandaríkin, 2025. 118 mín.

kvikmyndir

helgi snær

sigurðsson

Enn syrtir í álinn hjá Marvel, stórveldinu í bandarísku ofurmennadeildinni. Hægt og bítandi hafa kvikmyndir úr þeirri smiðju farið frá því að vera hin besta skemmtun yfir í að vera lítið meira en leiðindi, líkt og sú nýjasta, Captain America: Brave New World, eða Kafteinn Ameríka: Veröld ný og góð. Eins og sjá má af titlinum er hann blygðunarlaust sóttur í heiti þekktrar dystópíu enska höfundarins Aldous Huxley frá árinu 1932. Hvað þessi verk eiga sameiginlegt, bókin og þessi kvikmynd, treysti ég mér ekki til að meta en mig grunar að það sé heldur fátt.

Harrison Ford, sá geðþekki öldungur og reynslubolti í Hollywood, breytist í rauðan og ofsareiðan risa í þessu nýjasta útspili Marvel, risa sem virðist vera rauð útgáfa af hinum græna Hulk. Risinn er þó ekki aldraður eins og Ford, nei hann er töluvert yngri og sprækari og ekki farinn að grána.

Nú hefur maður séð af viðtölum við Ford að hann er frekar jarðbundinn náungi og oftast til í að sprella svolítið fyrir myndavélarnar og blaðamenn. Það er því ekki svo furðulegt að hann hafi slegið til þegar honum bauðst að leika í þessari mynd. „Við ætlum að breyta þér í rauðan beljaka sem rústar öllu!“ gæti leikstjórinn, Julius Ona, hafa sagt og Ford auðvitað svarað: „Já, ég er til í slaginn!“ En hann þarf að leika fyrir kaupinu sínu, nota bene, og gerir bara nokkuð vel þegar litið er til þess hversu mikil della sagan er.

Efni sem ógnar heimsfriði

Í þessari nýjustu ræmu Marvel leikur Ford forseta Bandaríkjanna, Thaddeus Ross, og segir nú af Ameríku kafteini, hetjunni hjartahreinu sem í síðustu þáttum og kvikmyndum hefur verið leikin af hinum vinalega Anthony Mackie. Kafteinninn klæðist búningi í bandarísku fánalitunum, með stjörnum og öllu heila klabbinu, enda persónan og búningurinn táknræn fyrir Bandaríkin og hermátt þeirra. Hann er alltaf með skjöldinn góða sér við hönd, skjöld sem ómögulegt er að beygla eða skemma með nokkrum hætti enda er hann gerður úr málmi nokkrum sem kallaður er víbraníum.

Forsetinn Ross þykist ólmur vilja koma á heimsfriði og telur að Bandaríkin eigi að leiða þá vinnu. Hann býður ofurhermanninum Ameríku kafteini í Hvíta húsið ásamt aðstoðarmanni sínum Fálkanum (Danny Ramirez), fyrrverandi ofurhermanninum Isiah Bradley (Carl Lumbly) ásamt ýmsum fyrirmennum og þjóðarleiðtogum. Í boðinu kynnir forsetinn til sögunnar adamantíum, málm sterkari nokkrum öðrum sem vitað er um og á að hafa fundist undan ströndum Japans. Málmurinn er því í japanskri lögsögu sem flækir málin nokkuð. Forsetinn og kafteinninn virðast nokkuð ósamstiga í hinum ýmsu málum en þurfa að snúa bökum saman og bregðast í sameiningu við þessari ógn við heimsfriðinn, hinum dularfulla málmi adamantíum.

Mesta ógnin reynist svo illmennið dr. Samuel Sterns (Tim Blake Nelson), náungi sem býr yfir ofurmannlegri greind eftir að hafa orðið fyrir geislun. Svo greindur er Sterns að heilinn kemst ekki fyrir í höfuðkúpunni og liggur því einhvern veginn utan á henni. Sjón er sögu ríkari þar! Sterns er að auki fagurgrænn á litinn og afmyndaður í framan. Þegar hann beitir einhvers konar dáleiðslu í formi gamals popplags kemst hann nærri því að myrða forsetann. Þetta hleypir öllu í bál og brand í Hvíta húsinu og undir lokin breytist forsetinn í rauðan Hulk, sem fyrr segir, með tilheyrandi skemmdum á mannvirkjum og farartækjum.

Aldrei spennandi

Það er heldur fátt jákvætt að segja um þetta nýjasta útspil Marvel. Myndin er aldrei spennandi og alltaf fyrirsjáanleg, meira að segja þegar Harrison Ford breytist í rauðan risa því að þeirri uppákomu var klúðrað hressilega með veggspjöldum og stiklum fyrir myndina. Það kemur því lítið sem ekkert á óvart í myndinni og sagan er í heild óskaplega fyrirsjáanleg. Leikarar hafa úr litlu að moða og meira að segja hetjan sjálf, leikin af Anthony Mackie, er litlaus og heldur leiðinleg.

Þeir Giancarlo Esposito og Tim Blake Nelson eiga, sem betur fer, góða takta og lyfta myndinni upp úr mestu leiðindunum. En því miður er Captain America: Brave New World gersneydd öllu skopskyni og töfrum eldri ofurhetjumynda, þ. á m. Iron Man og Spiderman. Í þeim hefur tekist vel að dansa milli gamans, alvöru og fantasíu. Eitthvað þarf að vega á móti hinum miklu barsmíðum og dramatík sem einkennir þessa tegund kvikmynda.

Flottur Koparhaus

Við Íslendingar megum þó gleðjast yfir því að eiga nú okkar fulltrúa í Marvel-heimi, Jóhannes Hauk Jóhannesson sem leikur hér óþokkann Copperhead eða Koparhöfuð. Illmennið kemur við sögu í stutta stund og reynist hetjunni óþægur ljár í þúfu. Jóhannes fær auðvitað að kenna á því, enda að glíma við sjálfan Ameríku kaftein. Gaman hefði verið að fá meira af Jóhannesi og kannski munum við sjá hann í einhverri framhaldsmyndinni, hver veit?

Helsti markhópur þessarar myndar er væntanlega unglingar og börn sem aldur hafa til að sjá hana og skal þess getið að hún er bönnuð börnum undir 12 ára aldri. Eflaust munu ungmennin skemmta sér vel yfir hamaganginum í rauða Hulk og spá lítið í ágalla á hinum tölvugerða myndheimi. Foreldrarnir geta, aftur á móti, hlegið að Harrison Ford í risastórum nærbuxum af rauða Hulk. Hvaða ótrúlega teygjuefni skyldi nú vera í þeim buxum? Það er ekki af þessum heimi, svo mikið er víst.