Baksvið
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Allir sem nota netið kannast við vefkökur, cookies á ensku, litla textaskrá sem er vistuð í tölvum og símum þegar vefsíður eru heimsóttar. Í fjarskiptalögum eru reglur um hvenær og hvernig sé heimilt að nota kerfi og búnað, þ.m.t. vefkökur, til að safna og/eða geyma upplýsingar um athafnir eða samskipti notanda í endabúnaði hans, fylgjast með athöfnum notanda eða veita aðgang að slíkum upplýsingum. Meginreglan er sú að notkun á vefkökum í þessum tilgangi er óheimil nema samkvæmt upplýstu samþykki notanda.
Fjarskiptastofa hefur nú gert úttekt á notkun á vefkökum hjá átta fjölsóttum íslenskum vefþjónustuaðilum sem sérhæfa sig sem milliliðir í vöru- og þjónustuframboði á netinu og reiða sig á samskipti við viðskiptavini um netið varðandi vöru- og þjónustukaup. Segir stofnunin að frumniðurstaða úttektarinnar gefi til kynna að talsverðra úrbóta sé almennt þörf varðandi notkun á vefkökum, t.d. skorti á fullnægjandi fræðslu til notenda og formkröfur um samþykki þeirra, þegar það á við.
„Þessi löggjöf um vefkökur er til staðar og okkur hefur grunað að það sé með ýmsu móti hversu vel fyrirtæki vita af henni og hvernig eigi að framfylgja henni. Það sem okkur gengur til með þessari úttekt er í raun að taka upp ákveðið samtal við markaðinn um að það sé til staðar löggjöf og þetta eru hin faglegu sjónarmið sem liggja til grundvallar og hvort ekki sé hægt að gera þetta betur,“ segir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Fjarskiptastofu.
Stofnunin segir í úttektinni að líkja megi vefkökum við nokkurs konar atburðaskráningu á vefsíðum gagnvart notendum. Vefkökur séu þannig notaðar til að fylgjast með og tryggja virkni á vefsíðum. Vefkökur geti einnig verið notaðar til að afla upplýsinga um atferli einstaklinga á vefsíðum, t.d. með því að kortleggja áhugasvið notenda eða kauphegðun þeirra í markaðslegum tilgangi. Þess háttar vinnsla geti verið ópersónugreinanleg, en geti einnig verið tengd við skráðan reikning einstaklings. Lagalegar kröfur um form geri þó ekki greinarmun á þessu tvennu.
Í skýrslu um úttektina kemur fram að niðurstöðurnar beri með sér að allir þeir vefþjónustuaðilar sem skoðunin náði til komi fyrir vefkökum í endabúnaði notenda sem annaðhvort sé ekki greint frá í veittri fræðslu um vefkökur og/eða áður en notandi hefur veitt upplýst samþykki sitt fyrir slíkum vefkökum og í einhverjum tilvikum eftir að slíkum vefkökum hefur verið sérstaklega hafnað. Því hafði enginn þessara vefþjónustuaðila gengið úr skugga um að valkvæðum vefkökum, þar með talið markaðssetningarvefkökum, sé ekki komið fyrir í endabúnaði notenda áður en notandi hefur samþykkt valkvæðar vefkökur í reynd.
Grænir stórir hnappar
Stofnunin segir í úttektinni að það þekkist að vefþjónustuaðilar beiti ýmsum aðferðum til að þrýsta á notendur til að samþykkja allar vefkökur, þ.m.t. vefkökur sem ekki eru nauðsynlegar, í stað þess að óska eftir samþykki notanda fyrir ólíkum tegundum vefkaka og/eða gefa þeim færi á að hafna öðrum vefkökum en þeim sem eru nauðsynlegar. Algengt sé að hnappur til að samþykkja allar vefkökur sé stór og áberandi, t.d. grænn eða í öðrum áberandi lit, en hnappur sem gerir notanda kleift að hafna vefkökum sé minna áberandi.
Eins sé algengt að notendur þurfi að hafa meira fyrir því að hafna vefkökum, t.d. með því að fara í gegnum röð stillinga á vefsvæði eða í netvafra en möguleiki til að samþykkja allar vefkökur sé strax aðgengilegur. Frjálst og óþvingað samþykki fyrir notkun á vefkökum sé til þess fallið að auka gagnsæi, ánægju og traust neytenda í viðskiptum á netinu og stuðla að reglufylgni við viðeigandi ákvæði fjarskipta- og persónuverndarlaga.
Ekki kemur fram í skýrslunni til hvaða átta fyrirtækja úttektin nær til og Hrafnkell vildi ekki nefna þau en segir að þau muni fá ábendingar um hvað megi betur fara og vonandi taki þau vel í það og færi hlutina til betri vegar hjá sér.
„Við viljum þróa samtalið við markaðinn. Hvert einasta fyrirtæki notar vefkökur. Löggjöfin er sett upp með það í huga að vernda neytendur og gera þeim grein fyrir að vefkökurnar eru til staðar í bakvinnslunni á vafranum þeirra í hvert sinn sem farið er inn á einhverja vefsíðu. Við hvetjum fyrirtæki til að lesa þessar leiðbeiningar, sem eru í þessari ákvörðun, og gera þetta vel og rétt,“ segir Hrafnkell.