Á Grundartanga Kjaradeilurnar eru hjá ríkissáttasemjara.
Á Grundartanga Kjaradeilurnar eru hjá ríkissáttasemjara. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kjaraviðræður stéttarfélaga starfsmanna hjá Norðuráli við SA og Norðurál eru í hnút að því er fram kemur á vef Verkalýðsfélags Akraness. Þar segir að viðræðurnar séu „nú stál í stál“. Þar segir að enn ríki mikil óvissa um framhaldið…

Kjaraviðræður stéttarfélaga starfsmanna hjá Norðuráli við SA og Norðurál eru í hnút að því er fram kemur á vef Verkalýðsfélags Akraness. Þar segir að viðræðurnar séu „nú stál í stál“.

Þar segir að enn ríki mikil óvissa um framhaldið „en ljóst að við fyrsta tækifæri munu stéttarfélögin boða til aðgerða“. Bent er þó á að samkvæmt kjarasamningi sé það ekki hægt fyrr en þremur mánuðum eftir að kjarasamningur rennur út en samningur starfsmanna í álverinu rann úr gildi um seinustu áramót.

Kjaraviðræður hafa staðið yfir frá 14. október og var viðræðunum fyrir nokkru síðan vísað til ríkissáttasemjara. Óvíst er hvenær sáttasemjari boðar til næsta sáttafundar í deilunni.

Í fréttinni á vef VLFA segir að fulltrúar starfsmanna lýsi yfir miklum vonbrigðum með að fyrirtæki sem skili allt að 10% af útflutningstekjum þjóðarinnar „skuli reyna að draga úr þeim launahækkunum sem þegar hafa verið samþykktar á hinum almenna vinnumarkaði.

Það mun þó aldrei verða látið viðgangast að fyrirtæki af þessari stærðargráðu komist upp með að semja um lægri hækkanir en þær sem þegar hafa verið ákveðnar annars staðar á vinnumarkaði,“ segir þar.

Viðræður eru einnig í gangi við Elkem á Grundartanga fyrir hönd starfsmanna í járnblendiverksmiðjunni og kemur fram á vef VFLA að þær séu á viðkvæmum stað. Formaður verkalýðsfélagsins sé hóflega bjartsýnn á að hægt verði að ná niðurstöðu í næstu viku. omfr@mbl.is