Arnór Smárason hefur látið af störfum sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Val. Arnór er að flytja til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni. Hann verður tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Vals og mun halda áfram vinnu við innleiðingu á nýrri stefnu í…

Arnór Smárason hefur látið af störfum sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Val. Arnór er að flytja til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni. Hann verður tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Vals og mun halda áfram vinnu við innleiðingu á nýrri stefnu í samvinnu við sænska ráðgjafarfyrirtækið GoalUnit, að því er fram kemur í tilkynningu Valsmanna.

Luis Rubiales, fyrrverandi forseti spænska knattspyrnusambandsins, var í dag dæmdur fyrir kynferðisofbeldi í garð Jenni Hermoso, leikmanns spænska kvennalandsliðsins, á Spáni. Atvikið átti sér stað á verðlaunaafhendingu heimsmeistaramóts kvenna í Sydney í Ástralíu 20. ágúst árið 2023, en Rubiales smellti þá kossi beint á munninn á Hermoso þegar hann óskaði leikmönnum spænska liðsins til hamingju með sigurinn. Rubiales var sektaður um 11.000 evrur, um 1,6 milljónir íslenskra króna, og þá þarf hann að halda sig í að minnsta kosti 200 metra fjarlægð frá Hermoso næsta árið.

Óvíst er hvort norski framherjinn Erling Haaland getur tekið þátt í leik Manchester City og Liverpool í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta sem fram fer í Manchester á sunnudaginn kemur. Haaland, sem er 24 ára gamall, var ónotaður varamaður þegar City féll úr leik í Meistaradeildinni á miðvikudaginn eftir 3:1-tap gegn Real Madrid í síðari leik liðanna í umspili keppninnar í Madríd, en framherjinn er að glíma við meiðsli í fæti.

Knattspyrnukonan Calliste Brookshire er gengin til liðs við nýliða FHL í Bestu deild kvenna. Brookshire, sem er örvfættur kantmaður, lék áður með UMass Lowell-háskólanum í bandaríska háskólaboltanum. Hún er þriðji erlendi leikmaðurinn sem gengur til liðs við FHL í vikunni en þær Hope Santaniello og Aida Kardovic skrifuðu báðar undir samning við nýliðana á dögunum.