Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
„Tilefnið er að margir hafa fengið nóg af ljótum byggingum sem eru farnar að þrengja að fólki og mannlífi, þar með talið í miðborginni. Að okkar mati er þetta byggða umhverfi ómannvænlegt,“ segir Egill Sæbjörnsson, myndlistarmaður í Berlín, um ákall arkitekta og listamanna um breytt viðhorf til skipulags og húsagerðarlistar.
Krafist er tafarlausra aðgerða „til að stöðva núverandi þróun borgar og bæja hérlendis, þ.e. skipulagningu og uppbyggingu hverfa og húsa sem fyrst og fremst eru mótuð af hagsmunum fjármagnsins fremur en almannaheill“ og getur almenningur lýst yfir stuðningi við ákallið á Island.is.
Ásamt Agli skrifa þau Ásta Logadóttir, Hilmar Þór Björnsson, Hjörleifur Stefánsson, Magnús Skúlason, Margrét Þormar, Ólafur Hjálmarsson, Páll Jakob Líndal, Rafael Pinho og Stefán Thors undir ákallið sem einnig er sagt frá í Heimildinni í dag. Hilmar Þór, Hjörleifur, Magnús, Margrét, Stefán og Rafael eru arkitektar. Ásta og Ólafur eru verkfræðingar en hún er sérfræðingur í birtu og lýsingu í húsum. Páll Jakob er umhverfissálfræðingur.
Verið að eyðileggja borgina
Ákallið er birt í kjölfar mikillar umræðu um skipulagsmál eftir að græna vöruhúsið í Álfabakka komst í hámæli vegna umfjöllunar Óskars Bergssonar í Morgunblaðinu. Má segja að það hafi verið dropinn sem fyllti mælinn. Um líkt leyti birti Morgunblaðið viðtöl við þá Rafael Pinho (4. janúar) og Magnús Skúlason (9. janúar) sem sögðu komið í óefni í skipulagsmálum. Magnús taldi að verið væri að eyðileggja borgina með misráðinni þéttingu byggðar og Rafael sagði hægt að fara betri leiðir til að þétta byggðina.
Er í raun neyðarkall
„Þetta er ákall til almennings, stjórnvalda, hönnuða, verktaka og fjárfesta um að taka höndum saman um að búa til hlýlegra og manneskjulegra umhverfi,“ segir Egill. „Við viljum ekki benda fingri á einstaklinga eða hópa, heldur er þetta í raun neyðarkall eins og þegar rífa átti Bernhöftstorfuna á sínum tíma, byggja í staðinn glerhýsi og rífa Grjótaþorpið og leggja hraðbraut í staðinn,“ segir Egill en hér á opnunni er rifjað upp hvernig rífa átti Bernhöftstorfuna og byggja í staðinn nýtt stjórnarráð. Vekur athygli að margt er líkt með stjórnarráðshúsinu sem byggja átti og mörgum byggingum sem risið hafa á þéttingarreitum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum.
„Það verður einfaldlega að stöðva framgang svona verkefna. Nú læðast að okkur ljótar byggingar úr öllum áttum,“ segir Egill og tiltekur nokkur dæmi.
Það verður hins vegar að samkomulagi milli hans og blaðamanns að tiltaka ekki einstakar byggingar heldur ræða málin á almennum nótum. Þá tekur Egill fram að hinar kaldranalegu og kuldalegu byggingar séu ekki bundnar við Ísland eða höfuðborgarsvæðið.
Vandamál víðar en hér
„Ég hef farið í hverfi í öðrum ríkjum Norðurlandanna sem eru jafn slæm. Íslendingar eru ekki að gera verr en aðrir,“ segir Egill. Hins vegar bæti ekki böl að benda á eitthvað annað.
Þess má geta að arkitektar hafa haft samband við Morgunblaðið og gert athugasemdir við umfjöllun um að hinar og þessar byggingar í borginni muni verða kennileiti. „Heldurðu að nokkur ferðamaður muni taka mynd af þessu og setja á ísskápinn?“ spurði einn þeirra.
Nú er húsagerðarlist sérsvið arkitekta og því spurning hvað listamaður hefur fram að færa í þeirri umræðu. Egill svarar því til að auðvitað geti fólk valið um hvort það taki mark á honum eða ekki. Hann sé hins vegar menntaður myndlistarmaður með áhuga á formi og litum.
„Ég byrjaði að sækja tíma í teikningu átta ára gamall í Myndlistarskóla Reykjavíkur og gekk svo í Myndlista- og handíðaskóla Íslands [nú Listaháskóla Íslands] og [listadeild háskólans] Paris 8 í St. Denis í París. Ég vann fyrir mér sem portrettteiknari í nokkur ár samhliða námi og hef talsverðan bakgrunn í klassískri teikningu, sem er fag sem er jafn gamalt myndlistarsögu og sögu byggingarlistar. Teikningin í húsunum [sem ákallið beinist að] er yfirleitt léleg frá sjónarhóli klassískrar teikniþjálfunar. Því miður virðist ríkja talsverð blinda fyrir þessu í byggingarbransanum í heild. Er almenningur líka blindur á þetta og stendur honum á sama? Það virðist ekki vera, það er búið að rannsaka það. Almenningi finnst þetta ljótt. Af hverju leyfa borgaryfirvöld þá byggingaraðilum og hönnuðum að komast upp með þetta? Er metnaðurinn ekki meiri?“ spyr Egill.
Skelfilegt framlag
Hvað þarf að koma til?
„Málið snýst ekki um að byggja glæsilega og einstaka byggingu, eins og kirkju eða banka, heldur um að byggja fallegar byggingar fyrir almenning. Nú eru svonefndar verktakablokkir ráðandi á Íslandi en þær eru skelfilegt framlag til umhverfis okkar og komandi kynslóða. Ég held að ég hafi rétt á að benda á þetta eins og aðrir en svo ræður fólk hvað það tekur mikið mark á mér,“ segir Egill og ítrekar að gagnrýnin beinist ekki að einstaka persónum. Það komi enda margir að málum þegar tekin er ákvörðun um að reisa hús með tiltekna hönnun.
„Hér bera allir ábyrgð. Stjórnvöld hafa val um að leyfa hluti og þau skrifa reglugerðir og eiga að fylgja þeim eftir. Arkitektar vonast til að geta teiknað falleg hús en fá í fæstum tilvikum að teikna þau, heldur eru vanalega að tryggja að kostnaðaráætlanir muni standast og svo framvegis. Verktakar eru oft í skrúfstykki vegna flöktandi og óstöðugs markaðar og reyna að hafa vaðið fyrir neðan sig. Fjárfestar vilja ávaxta sitt fé. Það er enginn að gera eitthvað af illum hug. Það er hins vegar staðreynd, sem ekki verður horft fram hjá, að umhverfið sem verið er að reisa er ljótt og jaðrar við að vera mannskemmandi. Við vitum vel að svo þarf ekki að vera. Við þurfum fyrirmyndir, einhverja sem fara af stað og byggja fallegar byggingar,“ segir Egill.
Eins og eftir byrjanda
Ekki þurfi að finna upp hjólið í þessum efnum.
„Við eigum 10.000 ára sögu af byggingarlist sem teygir sig aftur til borga sem byggðar voru um 7.500 árum fyrir Krists burð. Við höfum því mikla reynslu af því hvað gengur og hvað gengur ekki. Þessi saga er okkar besta kennslubók og er uppfull af aðferðum við að byggja byggingar sem fólki líður vel í, sem eru byggðar á mörg þúsund ára reynslu, samtölum og skoðanaskiptum um hvernig hús virka best.
Á 20. öldinni komu fram tækninýjungar og ný viðhorf og við þurftum að prófa alls konar nýja hluti. Margt af því er stórfenglegt en alltof margt af því sem er sprottið af þeirri hefð, þar með talið í samtímanum, lítur út eins og eftir byrjanda, einhvern sem er að byrja að læra að teikna. Við getum núna reynt að lækna trámað sem Bauhaus skóp, það viðhorf sem varð allsráðandi meðal arkitekta að klassísk byggingarlist væri púkó. Við getum vel aftur tekið upp fallegu hlutföllin sem endurspegla mannslíkamann. Byggingar eru líkamar, sem við búum í, og þær þurfa að samsvara sig líkama mannsins, það þarf að vera speglun.
Arfleifð Bauhaus mistúlkast
Eitt af því sem nútímabyggingar skortir, og er arfleifð þessarar uppreisnar sem kennd er við Bauhaus, er skortur á smáatriðum við hönnun húsa. Vöntun á því sem ég kalla þriðja stig forma og var oft í formi skreytis í byggingum fyrir 1920,“ segir Egill og tekur fram að hann sé mikill unnandi Bauhaus, þýska skólans í arkitektúr og hönnun sem kenndur er við tímabilið 1919 til 1933, og hafi raunar farið í pílagrímsferð til að skoða hið fræga Bauhaus-hús í Dessau.
„Bauhaus gerði stórfenglega hluti og kom með form og þekkingu sem skóp nýtt myndmál. Bauhaus var viðbragð við þrúgandi raunveruleika þegar ríku stéttirnar áttu allt húsnæði og leigðu lítilli millistétt en millistéttin var að stækka og þurfti nýtt tungumál. Arfleifð Bauhaus hefur mistúlkast, alveg skelfilega, og afleiðingin er dautt og ómanneskjulegt umhverfi. Það á allt að vera svo hreint og einfalt. Með Bauhaus var enda allt skraut bannað og þeir sem höfðu áhuga á eldri byggingarstíl fengu helst ekki vinnu á arkitektastofum.
Hræðilega ljót hverfi
Rætt er um þrjú stig stærða í arkitektúr. Stóra formið, svo glugga og loks minnstu formin sem eru oft listar í gluggum eða skraut sem bætt var við til að brjóta upp útlitið. Þriðja formið þarf hins vegar ekki að vera blómaskraut en nú er því yfirleitt sleppt og fyrir vikið verður hönnunin svo stíf. Fyrir um 10 árum bjó ég til hugtakið „flókið yfirborð“ um þetta, enda snýst málið ekki aðeins um blómaskrautið og gamaldags klassíska skrautið sem virkaði þvingandi á fulltrúa Bauhaus-hreyfingarinnar, sem bjuggu til ótrúlega fallegan listaskóla og um leið nýja stefnu í byggingarlist. Nú þurfum við að gera það sama aftur en með afturhvarfi til fegurðar. Við þurfum að brjótast undan oki hræðilega ljótra hverfa og búa til nýtt tungumál í byggingarlist. Við þurfum að læra af 20. öldinni, velja það besta en skilja hitt eftir og endurvekja fegurðina,“ segir Egill og rifjar upp hið fræga slagorð Bauhaus-skólans að form fylgi notagildi (e. form follows function). Það hafi verið gott slagorð en meira þurfi til að kalla fram fegurð.
Þá væru engir litir
„Ef fegurð væri ekki nauðsynlegur og órjúfanlegur hluti af tilveru okkar á þessari jörð væru ekki til neinir litir. Himinninn væri grár, fuglarnir, blómin og sólin. Þá væri ekki allur þessi margbreytileiki. Það sem ég kalla flókið yfirborð í víðasta skilningi er nauðsynlegt til að fólk geti tengst umhverfi sínu. Ljót verktakablokk er eins og frosinn einstaklingur sem tjáir ekkert. Nútímabyggingar sem eru einfaldar og kaldar í útliti, með engu skrauti og algerlega án tjáningar. Líkt og við þurfum svörun í andlitum þeirra sem við umgöngumst þurfum við byggingar með flóknu yfirborði sem svala fegurðarþrá okkar og forvitni. Það kann að vera dýrara að byggja slík hús en fólk þarf líka að gjalda fyrir niðurdrepandi áhrif ljótra bygginga. Gleymum því ekki heldur að almenningur á rýmið á milli húsanna, ekki sá sem hannar húsið, fjárfestir í húsinu, byggir húsið, eða sá sem setur reglugerðir um hvernig hús eigi að byggja,“ segir Egill Sæbjörnsson listamaður að lokum.