Sú breyting sem lögð er til í frumvarpsdrögum félags- og vinnumarkaðsráðherra að tengja fjárhæðir elli- og örorkulífeyris almannatrygginga við launavísitölu mælist misvel fyrir í umsögnum. Markmiðið er að bæta stöðu þeirra sem fá greiðslur almannantrygginga frá því sem verið hefur en í umsögn ASÍ, sem kveðst styðja markmiðið um að bæta lífskjör og útrýma fátækt, er hins vegar bent á að það að festa lífeyri almannatrygginga við þróun launavísitölu veki upp spurningar, m.a. um hvort sú aðgerð nái markmiðum sínum.
„Í kjarasamningum síðustu ára voru lægstu laun hækkuð sérstaklega. Hækkun lægstu launa er þá umfram hækkanir í samfélaginu í heild sem launavísitala endurspeglar. Að festa almannatryggingar við launavístölu leiðir til þess að bætur almannatrygginga munu dragast aftur úr lágtekjuhópum eins og ASÍ hefur endurtekið vakið athygli á í umsögnum við fjárlög. ASÍ telur óásættanlegt að kjör elli- og örorkulífeyrisþega dragist aftur úr öðrum lágtekjuhópum og mælist til þess að bætur almannatrygginga taki hækkunum til samræmis við lægstu laun á vinnumarkaði,“ segir í umsögn ASÍ.
ÖBÍ-réttindasamtökin fagna áformum ráðherra og benda á hvað þetta atriði varðar að stjórnvöld hafi farið frjálslega með ákvæði núgildandi laga um að miða skuli greiðslurnar við launaþróun. Mikil kjaragliðnun hafi átt sér stað á umliðnum árum sem lífeyristakar hafi þurft að þola, eða um 75,5% frá árinu 1997. Stöðva beri kjaragliðnunina og leggur ÖBÍ áherslu á að ekki verði sett þak á hækkun lífeyris almannatrygginga.
Samtök atvinnulífsins benda m.a. á að þróun launavísitölu hefur sögulega verið langt umfram almennar kjarasamningsbundnar launahækkanir eða kostnaðarmat kjarasamninga. „Launaþróun á Íslandi hefur að jafnaði verið umfram efnahagslegt svigrúm, þannig aukið verðbólguþrýsting og viðhaldið hærri stýrivöxtum en ef laun hefðu þróast með hóflegri hætti. Ef bætur almannatrygginga eru beintengdar við slíka þróun má vera ljóst að verið er að auka verðbólguþrýsting fremur en draga úr honum. Þessi breyting gengi því í berhögg við yfirlýst markmið nýrrar ríkisstjórnar,“ segir SA. omfr@mbl.is