Viðræður Volodomír Selenskí og Keith Kellogg fyrir viðræður þeirra í forsetahöllinni í Kænugarði í gær.
Viðræður Volodomír Selenskí og Keith Kellogg fyrir viðræður þeirra í forsetahöllinni í Kænugarði í gær. — AFP/Sergei Supinsky
Donald Trump Bandaríkjaforseti mun eiga fundi með leiðtogum Frakklands og Bretlands í næstu viku. Karoline Leavitt, talsmaður Hvíta hússins, sagði við blaðamenn að Emmanuel Macron Frakklandsforseti myndi eiga fund með Trump á þriðjudag og á…

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Donald Trump Bandaríkjaforseti mun eiga fundi með leiðtogum Frakklands og Bretlands í næstu viku.

Karoline Leavitt, talsmaður Hvíta hússins, sagði við blaðamenn að Emmanuel Macron Frakklandsforseti myndi eiga fund með Trump á þriðjudag og á fimmtudag myndi forsetinn taka á móti Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands.

Macron sagði þegar hann svaraði spurningum almennings á samfélagsmiðlum í gærkvöldi að hann myndi segja við Trump að hann gæti ekki vægt fyrir Vladimír Pútín, forseta Rússlands.

„Ég ætla að segja við hann: Þú getur ekki látið undan Pútín forseta. Það er ekki þitt vörumerki,“ sagði Macron.

Leiðtogar Evrópuríkja héldu í vikunni neyðarfund þar sem þeir ræddu um viðbrögð við því að bandarískir embættismenn áttu fund með Rússum um mögulegt vopnahlé í Úkraínu.

Kemur heiminum til góða

Volodomír Selenskí forseti Úkraínu átti í gær fund með Keith Kellogg, sérlegum erindreka Trumps í málefnum Úkraínu, og sagði þá að sterk tengsl Úkraínu og Bandaríkjanna kæmu öllum heiminum til góða.

Selenskí sagði að fundurinn með Kellogg hefði verið árangursríkur og þeir hefðu rætt um stöðuna á vígvellinum, hvernig ætti að tryggja lausn úkraínskra stríðsfanga í Rússlandi og raunhæfar tryggingar í öryggismálum.

Sameiginlegum blaðamannafundi, sem átti að halda eftir viðræðurnar, var aflýst og ekki voru gefnar út formlegar yfirlýsingar eftir fundinn. Sagði talsmaður Selenskís að það væri samkvæmt ósk Bandaríkjamanna

Andrii Sybiha utanríkisráðherra Úkraínu sagðist fyrr í gær hafa rætt við Kellogg um leiðir til að ná fram alhliða, réttlátum og varanlegum friði í Úkraínu.

Sybiha sagðist í færslu á X hafa staðfest vilja Úkraínu til að koma á friði með styrkleika og sýn Úkraínumanna á hvaða skref séu nauðsynleg. „Ég ítrekaði einnig að ekki væri hægt að skilja á milli öryggis Úkraínu og ríkja beggja vegna hafsins,“ skrifaði hann.

Selenskí og Trump deildu hart opinberlega fyrr í vikunni. Selenskí sagði Trump fastan í rússneskri upplýsingaóreiðu og Trump sagði að Selenskí væri ein­ræðis­herra sem þyrfti að bregðast skjótt við, ella ætti hann á hættu að tapa Úkraínu.

Michael Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins, sagði í viðtali við Fox News sjónvarpsstöðina í gær að Úkraínustjórn yrði að draga úr gagnrýni sinni á Bandaríkin.

„Þetta er óviðunandi, þeir verða að draga úr gagnrýninni og skoða vandlega og undirrita þetta samkomulag,“ sagði hann. Samkomulagið sem hann vísaði til snýst um að Bandaríkin fái aðgang að sjaldgæfum málmum í jörðu í Úkraínu gegn fjárhagsaðstoð eða sem endurgreiðslu á þeirri fjárhagsaðstoð sem Bandaríkin hafa þegar veitt Úkraínu.

Selenskí hefur opinberlega hafnað þessum hugmyndum og sagt að hann geti ekki selt Úkraínu.

Úkraína er lýðveldi

Evrópusambandið brást í gær við ummælum Trumps á miðvikudag þar sem hann sagði Selenskí vera einræðisherra.

„Úkraína er lýðveldi. Það er Rússland Pútíns ekki,“ sagði Stefan de Keersmaecker, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson