Hrólfur Hreiðarsson fæddist í Reykjavík 17. janúar 1979. Hann lést á heimili sínu, Fléttuvöllum 7 í Hafnarfirði, 7. febrúar 2025.

Foreldrar Hrólfs eru Hreiðar Sigurjónsson, f. 30.12. 1951, og Fríða Ragnarsdóttir, f. 3.7. 1951. Systkini Hrólfs eru 1) María Krista, f. 31.12. 1973, maki Börkur Jónsson, f. 2.11. 1972. Þau eiga þrjú börn; Mekkín, Mána og Nóa, og þrjú barnabörn; Ölmu, Elku og Hugo, 2) Katla, f. 22.3. 1984, maki Haukur Þorkelsson. Saman eiga þau Úlf Hreiðar, Össur Inga og Erp Berg. Börn Hauks frá fyrra sambandi eru Snæþór Daði og Agla Fanney, 3) Knútur, f. 22.7. 1992, maki Theódóra Ingibergsdóttir, í Klettabæ, f. 25.7. 1993. Þeirra börn eru Klara, Kiljan og Valberg.

Eiginkona Hrólfs er Erna Sigríður Böðvarsdóttir, f. 30.3. 1980. Þau gengu í hjónaband 7.8. 2020. Foreldrar Ernu eru Böðvar Árnason, f. 23.8. 1946, og Alda Sigurðardóttir, f. 30.4. 1942. Systkini Ernu eru 1) Árni, f. 18.2. 1972, d. 3.11. 2020. Sonur Árna er Dagur og móðir Dags er Sonja Gísladóttir, bæði búsett í Danmörku, 2) Elvar Bjarki, f. 18.12. 1980, kvæntur Mary Sif Walderhaug og eiga þau tvo drengi, Viktor Bjarka og Aron Braga. Hrólfur og Erna eiga þrjú börn, Hróar, f. 20.10. 2005, Emmu, f. 20.12. 2008, og Öldu, f. 27.9. 2014. Unnusta Hróars er Árný Lind Jóns­dóttir, f. 13.3. 2005.

Hrólfur ólst upp á Langeyrarvegi í Hafnarfirði, gekk í Víðistaðaskóla og nam síðan húsasmíði við Iðnskóla Hafnarfjarðar. Hann starfaði með föður sínum framan af en stofnaði síðan eigið fyrirtæki, Iðjuna ehf., sem hann rak til dauðadags.

Upp úr 2000 hófu Hrólfur og Erna búskap á Ölduslóð 46, en 2007 byggðu þau einbýlishús að Fléttuvöllum 7 í Hafnarfirði. Hrólfur var mikill áhugamaður um tónlist, fór fyrst í Gítarskóla Ólafs Gauks og síðan í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hvers kyns hönnun, listir, kvikmyndir, eilífðarmálin, uppfinningar, garðrækt, íhugun og ótal margt fleira átti einnig hug hans í réttu hlutfalli við daglegt brauðstrit og skemmtilega, kærleiksríka og þolinmóða nærveru við fjölskyldu og vini.

Útför Hrólfs fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 21. febrúar 2025, klukkan 15. Stytt slóð á streymi:
https://www.mbl.is/go/rte5f/

Rúmri 46 ára þroskasögu yndislegs einstaklings í þessari jarðvist er lokið.

Elsku Hrólfur okkar er farinn í aðra vídd, umvafinn ljósi af sömu rót og hann nýtti til að lýsa samferðafólki sínu. „Farinn heim“ eins og við skátarnir köllum það. Falleg meining, en svo óumræðilega sárt fyrir okkur, eigingjarna eftirlifendur sem eftir erum, með flóð minninga og söknuð í hjörtum.

Minningar um heilsteyptan og hugprúðan dreng sem kenndi okkur svo ótal margt með breytni sinni og lífssýn.

Honum var afar margt gefið í upphafi, og tókst, þrátt fyrir þrjósku og stífni í bernsku, að þroska þá eiginleika í að verða „fastur fyrir og fylginn sér“. Alla tíð var Hrólfur opinn fyrir alls konar áhugamálum og dægurdellum; hann lærði Michael Jackson-spor, sem nýttust honum á dansgólfinu, klassískan gítarleik, æfði töfrabrögð og spilagaldra, fór á hraðlestrarnámskeið, lærði minnistækni, stundaði skíðaíþróttina um sinn, lærði og ástundaði innhverfa íhugun, gekk til liðs við Björgunarsveitina Fiskaklett um tíma, flutti inn flugdreka, sér til ánægju og einhvers ábata, safnaði vasahnífum, verkfærum, hljóðfærum og hljómtækjum, hannaði og smíðaði allt sem honum datt í hug og vann óborganleg vídeóverk í þágu steggja-, gæsa- og afmælispartía svo fátt eitt sé talið, enda launfyndinn.

Þrátt fyrir hlédrægni og jafnvel feimni var hann framarlega í mótmælagöngum og undirbúningi í covid-andspyrnunni, því þar helgaði tilgangurinn meðalið og vissan um réttan málstað varð öllu yfirsterkari. Þar eigum við honum allt að þakka.

Áður en meinið greindist hafði Hrólfur látið telja sig á að fylgja Emmu dóttur sinni og vinkonum hennar Gabiju og Maríu til München, til að hlusta á Adele.

Og þrátt fyrir nýafstaðna fjölskylduferð til sólarlanda sl. sumar, þar sem þau Erna tóku þátt í and- og líkamlega uppbyggilegu námskeiði lækna og annarra fagaðila, í bland við aðra upplifun með okkur hinum, í blíðunni, lét hann það ekki aftra sér og fór með skvísunum í tónleikaferð. Maður orða sinna.

Eftir tæplega árslanga glímu við erfitt krabbamein, sem hann tókst á við með sömu seiglu og staðfestu og allt annað; breyttu mataræði, óhefðbundnum lyfjum, bætiefnum, göngu- og bílferðum með ástvinum, þar sem var spjallað, hlustað á útvarp, tónlist, íhugað eða þagað, seig á ógæfuhliðina. Að lokum varð ljóst að plan A varð að víkja fyrir plani B, sem lengst af var nú ekki í boði, og glímunni lauk með fallegri kveðjustund á Fléttuvöllum, í æðrulausri sátt við Guð og menn.

Ekki er nógsamlega hægt að dásama Heru, Heimahjúkrun og aðbúnað og starfsfólk á líknardeildinni, sem allt reyndist frábærlega á þessari vegferð, auk fjölmargra annarra sem lögðu honum lið.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Ástarkveðjur.

Mamma.

Elsku besti sonur minn og vinur, nú þegar komið er að kveðjustund er svo óendanlega sárt en ljúft í bland að rifja upp öll verðmætu ár sem við áttum saman, endalaus uppátæki þín frá barnæsku, allar uppfinningarnar, viðskiptahugmyndirnar og framkvæmdagleðina við allt sem þér datt í hug, ekkert var þér ómögulegt.

Hugur þinn stefndi til að læra rafeindavirkjun enda alltaf liðtækur í allri þeirri tækni, atvikin höguðu því þó þannig að þú varðst fyrsti lærlingurinn minn í trésmíði með vini þínum, Valgeiri Sigurðssyni. Því var það mín gæfa í lífinu að hafa þig mér við hlið í vinnunni líka, mín besta stoð og stytta á góðum og erfiðum tímum. Alls staðar varð þér vel til vina og hjálpsemi og samkennd prýddu þig. Eftir að þú stofnaðir þitt eigið fyrirtæki Iðjuna ehf. og varst kominn með þína eigin viðskiptavini urðu þeir jafnframt persónulegir vinir þínir, með ráðleggingum og hughreystingu fram á rauðanótt. Áhugamálin voru mörg, t.d. hönnun hvers konar, sem fékk útrás þegar þú byggðir einbýlishús með Ernu þinni að Fléttuvöllum 7 í Hafnarfirði. Það átti að vera barnvænt, hlýlegt og öðruvísi og sannarlega tókst það fullkomlega, enda húsið alltaf fullt af börnum, ykkar og annarra, sem og fullorðnum. Bíórýmið og fín hljómtæki voru sérlega vinsæl. Þrátt fyrir mikið daglegt amstur var þó alltaf tími til að vera með börnunum þínum í bílskúrnum sem var uppáhaldsstaðurinn þinn, að brasa og hlusta á góða tónlist. Vitnisburð um þá góðu tíma má sjá á mörgum korktöflum sem geyma föndur, kort og ýmislegt sem komið var með úr skólanum, allt skemmtilega sett upp og yljar um ókomna framtíð. Þú lærðir snemma á gítar og nýttir það með börnunum þínum m.a. við að senda lög í jólalagasamkeppni útvarpsins með góðum árangri. Jólagjafirnar þínar voru engu líkar, t.d. diskar með eigin tónlist og samsettum myndböndum af fjölskyldum okkar, og ekkert til sparað í tíma og fyrirhöfn við að gera þetta sem allra best, eins voru afmælin þín ógleymanleg. Ekki má gleyma allri hjálpinni við hönnun og smíði í fyrirtækjum systkina þinna.

Þú varst mikill baráttumaður fyrir réttlæti og tilbúinn að færa miklar fórnir fyrir það sem þér fannst rétt, því lést þú til þín taka í baráttunni gegn umdeildum covid-sprautum, og leiðbeindir okkur mörgum á rétta braut í þeim efnum, fyrir það erum við endalaust þakklát.

Í veikindum þínum síðastliðið ár komu allir þínir bestu kostir saman, þrautseigja, raunsæi og að lokum mikið æðruleysi sem kenndi okkur allri fjölskyldunni svo ótal margt. Ekkert nema fallegar minningar skilur þú eftir handa okkur, sem eftir lifum, þakklæti fyrir allt og mikla eftirsjá. Mér koma í hug vísdómsorð vinar míns Jóhannesar lögreglumanns: Þegar upp er staðið skiptir engu máli hvernig bíl þú áttir, heldur hvernig maður þú varst.

En eins og við töluðum oft um, Hrólfur minn, þá hittumst við aftur í einhverri vídd síðar, elskan mín.

Þinn pabbi og vinur,

Hreiðar Sigurjónsson.

Elsku besti Hrólli bró!

Það er auðvelt að tala um óréttláta veröld sem veitti okkur alltof stuttan tíma með þér, en sumir fá miklu lengri tíma hér á jörð án þess að skilja mikið eftir sig. Í sannleika sagt væri það heldur ekki í þínum anda að leyfa reiðinni að taka yfir. Svo þó það sé erfitt, mun ég gera mitt besta og gleðjast yfir ógrynni uppátækja og frábærra minninga sem hlýja þó sorgin sé óskaplega sár.

Það sem ég leit alltaf upp til þín! Stóri brósinn minn; sætastur og mega töff, þú kunnir að dansa Michael Jackson, spilaðir öfgavel á gítar, kunnir endalaust af spilagöldrum og fannst upp á allskonar snilldaruppfinningum, s.s djúshræru, lygamæli, naglatínu og þjófavörn á herbergið þitt sem var sérhönnuð með mig í huga. Þú fluttir inn flugdreka og komst í blöðin, smíðaðir allt sem þér datt í hug og kunnir á allar heimsins græjur.

Ég man að þú bjóst til bíósal í herberginu þínu þar sem þú tengdir fjarstýringuna við afruglarann sem var tveimur hæðum ofar og við horfðum saman á upptekna Friends-þætti á VHS, en þú horfðir á Baywatch í einrúmi enda ástfanginn af Pamelu … Þú gerðir geggjaðan mat úr mjög spes samsetningum og þegar við vorum ein heima lékstu ímyndaða flugu sem þú reyndir að slá í með morgunblaði eða söngst frumsamin lög um mig sem fékk mig til að pissa á mig af hlátri: bókstaflega!

Við slógumst í fótaslag, spiluðum Abalone og kleppara og þú kenndir mér stærðfræði með ótrúlegri þolinmæði. Föstudagspizzunni misstir þú aldrei af þó það væru böll eða unglingarnir einhvers staðar að hanga, frekar horfðirðu með okkur á X-files eða Indiana Jones og reifst við mig um síðustu Rískubbana.

Svo fór ég erlendis í nám, þú bjóst til fjölskyldu og leiðir skildi um stund. Þegar ég flutti aftur heim tókum við upp þráðinn að nýju og sameiginlegt bras hófst. Þú hannaðir og smíðaðir með mér innréttingar fyrir verslunina og saumastofuna mína. Þú áttir heiðurinn af veislusalnum mínum Hæðinni og öllu því ævintýri og við unnum það svo vel saman að hugmyndir um hönnunarstúdíó voru reglulega til umræðu. Við bjuggum saman til ættarmótsspilið „Hróarann“ sem fékk einróma lof! Við fórum saman á þrjú söngnámskeið hjá Siggu Beinteins og þrátt fyrir mörg æfingakvöld í karókí þá toppaði Knútur, litla ólærða gerpið, okkur alltaf og við öfunduðumst „aldrei“.

Það sem þú nenntir að pæla og hugsa út í allan fjárann með mér, stúdera í heimspekilegum pælingum og þú kunnir að hlusta líka. Þú varst gaurinn sem var með öll græjumál á tæru: alltaf! og þú varst ein aðalsprautan í brúðkaupi okkar Hauks og dróst ekki úr neinu brasi heldur ýttir frekar undir það, enda erum við lík þar! Þú hvattir okkur til að kaupa Mávahraunið og við ræddum margar hugmyndir sem við munum láta verða af með þig í huga – ég lofa!

Húmoristi, ljúfur og metnaðarfullur, með ó svo hlýtt hjarta og stórkostlega frjóan heila. Ég finn fyrir þér hérna með okkur og ég hlakka til að knúsa þig fast hinum megin. Love love, elsku brósi, ég sakna þín meira en orð fá lýst!

Takk fyrir allt! Þín litla sys,

Katla Hreiðarsdóttir.

Elsku Hrólfur bróðir. Á sama tíma og ég set upp sálmaskrána þína reyni ég að koma orðum saman í þessa minningargrein, sem er jafn fjarstæðukennt, enda áttir þú að eyða með mér ellinni í að mæra barnabörn hvort annars, spila á gítar á næstu ættarmótum, halda saman fjölskylduboð og rækta nýja garðinn ykkar svo við gætum skipst á græðlingum, enda höfðum við bæði smitast af blómabakteríu foreldra okkar. Síðustu páska breyttist allt og nú verður lífið aldrei eins án þín.

Í barnæsku vorum við aðal í góða stund, fyrsta og annað barn foreldra okkar, og fyrstu barnabörnin. Við fengum að eiga sviðið ein þar til tveir yngri senuþjófarnir mættu á svæðið með krúttheitum og dulítið meiri athyglissýki. Og talandi um svið þá áttum við það sameiginlegt að líða best bak við tjöldin, græja og gera fyrir aðra en ekki mikið fyrir að vera miðpunkturinn. Þér tókst reyndar alltaf að ræna athyglinni á mjög svo hógværan hátt með listilega vel gerðum búningum, frumsömdum textum, vídeóum og frumlegum gjöfum. Svo varstu flottastur í tauinu, ægilega úrættis, hár og grannur snyrtipinni og eins og klipptur út úr tískublaði, hvaðan kom það?

Við tvö gátum alveg rifist eins og öll systkin og voru sumir þrjóskari en aðrir, ég nefni engin nöfn! Ég held að ég megi þó fullyrða að við jarðbundnu steingeiturnar höfum fundið styrk frá hvort öðru í gegnum lífið og þó að við hefðum ekki alltaf verið í jafn miklu sambandi og við systur þá tengdumst við órjúfanlegum böndum.

Þú kenndir mér margt í gegnum tíðina, kenndir mér t.d. að spila á bassa fyrir brúðkaup Kötlu og Hauks og hafðir einhverja óbilandi trú á mér hvort sem það var í viðskiptum, húsabrasi eða hönnun. Meira að segja þegar þú dvaldir á líknardeild komstu með hugmynd að heilsu- og matarnámskeiði sem ég ætti að halda heima á Brúsó og myndi pottþétt slá í gegn.

Auk þess að vera frábær leiðbeinandi sýndir þú fólki einstaka þolinmæði og ljúfmennsku alla tíð og hefðir orðið frábær kennari ef húsasmíðin hefði orðið leiðigjörn. Magnaður hugmyndasmiður sem þú varst allt frá barnæsku, úrræðagóður og með eindæmum einbeittur í að gera vel og auðvitað var allt gert rúmlega vel.

Við vissum nokkurn veginn í hvað stefndi síðustu vikurnar eftir hetjulega baráttu við ljótan sjúkdóm en það er aldrei hægt að vita hversu sárt það er þegar að stundinni kemur og upplifa síðan tómið.

Að sjá ástvini sína berjast af öllum kröftum er hræðilega erfitt og þegar litla bróður líður illa þá er vont að kyngja þeirri staðreynd að nú sé mál að linni og það þurfi að láta undan. Þér tókst að ljúka þinni jarðvist með mikilli reisn. Það sem þú kenndir okkur með þínu einstaka æðruleysi og hugrekki gleymist aldrei og voru síðustu mánuðir með þér mikill skóli fyrir okkur öll.

Ég hef fulla trú á því að þér líði vel núna þótt við sem eftir sitjum syrgjum og söknum þín alveg hræðilega mikið. Við sjáumst hinum megin við regnbogann þegar minn tími kemur og ég trúi að þetta sé mögnuð upplifun og frelsi. Hrolli, ég elska þig, þú ert að eilífu bestur.

Þín

María Krista.

Elsku Hrólfur, veit ekki hvernig ég á að byrja minningargrein um þig. Að skrifa minningargrein um einhvern á svipuðum aldri er eitthvað svo ósanngjarnt. Fjölskyldumaður á besta aldri, vá hvað lífið getur verið ósanngjarnt. En ég trúi því að þér hafi verið ætlað eitthvað annað og meira. Ég veit ekki einu sinni hvað ég á að kalla þig, þú varst svo margt fyrir mér, stóri frændi, vinur, besti vinur mannsins míns, guðfaðir dóttur minnar, pabbi vina barnanna minna og nágranni.

Minningarnar flæða um hugann þegar maður hugsar til baka. Stundirnar hjá ömmu Böggu á Merkurgötunni, tíminn með börnunum okkar, matarboðin, fylleríin og allt brasið sem við höfum gert saman í gegnum tíðina. Í minningunni varstu svakalega þrjóskt barn, neitaðir t.d. iðulega að vera á myndum sem verið var að taka. Amma var alltaf að taka myndir af hópnum og það þurfti að dekstra þig til að vera með, sem náðist þó ekki alltaf. Þegar þú varst eldri varstu svo oft á tíðum með miðjuputtann uppi á mynd, bara til að mótmæla. Þegar við fórum til Mallorca vildu foreldrar okkar endilega taka myndir af kaffibrúnu börnunum sínum með hvíta rassa eftir þriggja vikna sól. Þú neitaðir að taka þátt í því rugli, sem eftir á að hyggja var kannski mjög gáfulegt hjá þér. Virkilega sérstakar myndir af frændsystkinum sem stillt var upp í röð og teknar myndir af hvítum rössum og brúnu baki.

Þegar ég var yngri varstu alltaf stóri og mest kúl frændinn. Ég leit ekkert smá upp til þín og allt sem þú og þínir vinir gerðuð var mjög töff. Svo var ég svo heppin að ég kynntist og síðar meir giftist einum af þínum bestu vinum og komst inn í þinn vinahóp. Mikið gæfuspor fyrir mig og eru það allt mínir bestu vinir í dag. Við vorum nokkuð samferða í barneignum en náðum samt aldrei að verða alveg samstiga en þó nógu nálægt til að börnin okkar hafa verið heimagangar á víxl í gegnum tíðina. Það að börnin okkar hafa öll verið bestu vinir á einhverjum tímapunkti er mér afar dýrmætt. Og nú eru það Alda og Yrsa sem leika saman.

Það var mikil gleði þegar við keyptum húsið við hliðina á þér og Ernu á Fléttuvöllunum og fórum að byggja. Þú varst alltaf tilbúinn í að aðstoða, sama hvort það var að gefa ráð, lána verkfæri eða aðstoða við smíði. Ómetanlegt að eiga svona góða nágranna sem hægt er að leita til. Við erum búin að eiga margar góðar stundir saman í gegnum árin og þær eru það sem hugurinn leitar í nú á erfiðum tímum. Skrítið að hugsa að það er ekki nema ár síðan við dönsuðum saman á þorrablóti. Elsku Hrólfur, bless í bili, bið að heilsa ömmu.

Blundaðu, ljúflingur, láttu þig dreyma,

leiðirnar björtu í unaðarheima.

Legg aftur augun þín yndið mitt besta,

aldrei skal myrkrið sín tök á þér festa.

(Helgi Hálfdánarson)

Elska þig. Þín litla frænka,

Dröfn.

Nú er komið að kveðjustund. Æðruleysi fékk miklu meiri og dýpri merkingu í mínum huga síðustu vikur. Hvernig má það vera að maður í blóma lífsins sé kallaður til annarra verka? Hrifsaður frá fjölskyldu og börnum sem elskuðu hann svo heitt. Mann setur hljóðan en á sama tíma fyllist maður þakklæti fyrir að hafa kynnst Hrólfi og hans sýn á lífið.

Það var aðdáunarvert að fylgjast með þeim hjónum og fjölskyldunni allri síðustu vikur. Þvílíkt æðruleysi og fegurð sem var yfir öllu. Samheldnin og æðruleysið lýsti upp þessa dimmu og erfiðu daga. Innilega faðmlagið sem ég fékk á aðfangadag gleymist seint. Ég hélt að það yrði það síðasta en svo var nú aldeilis ekki. Stundirnar áttu eftir að verða fleiri og svo ótrúlega dýrmætar.

Hrólfur var enginn venjulegur maður, hann var sannkallaður þúsundþjalasmiður. Þúsundþjalasmiður er ekki einu sinni nógu yfirgripsmikið orð yfir þá hæfileika sem Hrólfur bjó yfir. Hann var endalaus uppspretta hugmynda sem hann hrinti í framkvæmd. Okkur hjónum þykir endalaust vænt um vídeóið sem hann klippti til og þau hjónin færðu okkur á brúðkaupsdaginn okkar fyrir tæpum 20 árum.

Það lék hreinlega allt í höndunum á honum. Hann fór sínar eigin leiðir og gafst aldrei upp. Það munum við taka með okkur og minna okkur á að lífið er of stutt fyrir leiðindi. Þangað til okkar tími kemur þá stóla ég á að hann sé að byggja eitthvert geggjað „partíplace“. Við munum gera okkar besta að taka utan um elsku Ernu og fallegu börnin þeirra.

Sandra og Helgi Tómas.

Ég sest niður með kaffibolla og verkefnið er að skrifa minningargrein um einn af mínum bestu vinum. Tárin renna og sorgin bítur. Allt of fljótt þurftir þú að kveðja og þín verður sárt saknað.

Ég kynntist Hrólfi 13 ára gamall þegar ég byrjaði í unglingadeild í Víðistaðaskóla. Áður hafði ég verið í Engidalsskóla þar sem Fríða mamma Hrólfs var einn af kennurum mínum. Í Víðó sátum við oft saman í tímum hlið við hlið, eitthvað lært en mikið spjallað og grínast. Eftir grunnskólann var för okkar heitið í Iðnskólann í Hafnarfirði. Ég, þú og Eiríkur gengum saman hlið við hlið og stefnan var tekin á rafeindavirkjun, því við ætluðum sko ekki að verða pípari, smiður eða múrari eins og pabbar okkar. Eftir að hafa reynt að vera eitthvað annað enduðum ég og þú á því að gera eins og pabbi. Ég varð pípari og þú smiður. Við vorum ekki þeir einu af vinunum sem fóru í iðnnám. Árni og Valli urðu smiðir og Þorsteinn pípari. Kosturinn við þetta var að oft unnum við saman þó svo að við værum hver í sínu faginu. Stundum þurfti að leysa úr flóknum verkefnum en með útsjónarsemi, frjórri hugsun, þrjósku, dassi af gríni og miklum hlátri, stóðum við allir saman hlið við hlið og ekkert verkefni var of flókið.

Í unglingadeild Björgúlfs vorum við allir vinirnir saman, ég, þú, Árni, Eiríkur, Valli og Þorsteinn. Fáránlega ólíkir einstaklingar sem mynda ótrúlega sterka heild. Þarna vorum við allir saman hlið við hlið, studdum hver annan og klifum inn í Björgunarsveit Fiskakletts. Í Björgúlfi var lítil hnáta sem síðar fór í Hjálparsveit skáta. Litla frænka þín var þarna með okkur og fengum við skýr fyrirmæli frá þér: „Strákar, þið látið hana vera.“ En þegar við vorum tvítugir brustu allar varnir og loforð var svikið. Ég gerði hosur mínar grænar fyrir Dröfn þvert á þín fyrirmæli en sem betur fer gekk það svona ljómandi vel að í dag erum við búin að vera saman í 25 ár og gift í 18 með þrjú börn og hund.

Fyrir þína tilstuðlan keyptum við Dröfn „húsið“ við hliðina á ykkur Ernu. Höfum við því búið hlið við hlið í um 10 ár. Við höfum getað hjálpað hvor öðrum, börnin okkar hafa getað leikið sér saman, spjallað, hlegið og sungið saman eða ég söng þú spilaðir á gítar. Já, við höfum brallað margt saman, verið í hljómsveit, farið í útilegur, veiði, farið til útlanda, smíðað misgáfulegar gjafir fyrir vinina og alltaf hlið við hlið.

Við vinirnir ákváðum að gera saman eina gjöf í viðbót. Ég hannaði tákn um eilífa vináttu. Táknið myndar ægishjálm, með rúnaletri eru upphafsstafir okkar allra og textinn lífið er núna, í miðjunni er merki óendanleika og vinahnútur. Saman stóðum við vinirnir hlið við hlið og skárum merkið út í sedrusvið þar sem hver og einn skar út sína upphafsstafi og sáu Knútur og Hróar um þína stafi. Skjöldurinn mun svo fá að fylgja þér.

Ég finn fyrir þér við hlið mér þannig að áfram verðum við hlið við hlið.

Takk fyrir allt, Hrólfur, ég elska þig og sakna þín.

Þinn vinur,

Jóhann Gunnar (Jói).

Í dag kveðjum við æskuvin okkar hann Hrólf, allt allt allt of snemma. Þetta eru búnir að vera skrýtnir síðustu mánuðir eftir að þú komst með þessar hræðilegu fréttir að þú hefðir greinst með 4. stigs krabbamein. Lífið spólast aftur á bak og áfram við svona fréttir, mikið getur þetta verið ósanngjarnt allt saman.

Í gegnum lífið fannst mér þú vera snillingurinn. Í öllu sem þú komst nærri þurfti alltaf að vera dass af geggjaðri hugmynd, dass af föndri, dass af brasi og útkoman var alltaf einhver snilld. Skipti ekki máli hvort það var búningurinn á öskudaginn sem krakkar, klifur í björgunarsveitinni eða undirbúningur og framkvæmd afmælisgjafa okkar vinanna, alltaf varst þú fremstur í flokki með eitthvað geggjað. Eins og þegar við fórum með Knút á Snæfellsnesið að veiða og ég sat á skítugri sandhrúgu að hvíla þreyttar lappir, þá kemur þú labbandi með bakpoka með áföstum stól og fékkst þér mjög heiðarlegt sæti við hliðina á mér. Ég man að ég hugsaði þarna að auðvitað var Hrólfur með einhverja geggjaða veiðitösku með stól og hátalara. Mig langaði að vera meira eins og Hrólfur. Allt mjög einfalt en svo mikið Hrólfur.

Hrólfur, ég lofa að drekka Coke Zero og halda áfram að taka breikdanssporin okkar í gegnum lífið, því það á alltaf að vera gaman. Lífið er núna.

Kæra Erna, Hróar, Emma, Alda og fjölskylda, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

Ykkar vinir,

Þorsteinn og Vala.