Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
M/V Lista, leiguskip Smyril Line Cargo, er nú í reglulegum siglingum til og frá Þorlákshöfn og er þar skv. áætlun á föstudögum. Að utan kemur skipið frá Rotterdam í Hollandi með viðkomu í Færeyjum. Þetta er stærsta skip sem nokkru sinni hefur komið inn til Þorlákshafnar, en þar er flutningafyrirtækið með aðsetur sitt.
Í desember 2023 bætti Smyril Line Cargo við flota sinn skipinu M/V Glyvursnes, sem nú er í vélarupptekt. Því er M/V Lista tekið inn tímabundið; 193 metra langt ekjuskip sem einnig tekur gáma. Flutningsgeta þess er tvöföld á við önnur skip félagsins, sem eru Mykines og Akranes.
Smyril Line Cargo hefur verið í miklum og hröðum vexti á undanförnum árum og Þorlákshöfn er með því orðin ein helsta inn- og útflutningshöfn landsins. Fyrirtækið horfir einnig til framtíðar með smíði tveggja nýrra og umhverfisvænna ekjuskipa sem verða afhent um mitt næsta ár.
„Nýju skipin verða ein þau stærstu í áætlunarflutningum til Íslands og munu styðja við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins,“ segir Óskar Sveinn Friðriksson framkvæmdastjóri.