Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði var stofnað 22. febrúar 1925 og verður því 100 ára á morgun. Tímamótanna verður þá minnst með sérstakri hátíðardagskrá í skátaheimilinu Hraunbyrgi, Hjallabraut 51, klukkan 14:00-17:00. „Við ætlum að halda upp á afmælið allt árið og blásum til sérstakrar afmælishátíðar sumardaginn fyrsta,“ segir Bjarni Freyr Þórðarson, félagsforingi Hraunbúa. Önnur starfsemi félagsins á árinu verði síðan með afmælisívafi.
Herforinginn Robert Baden-Powell (22. febrúar 1857–8. janúar 1941) lagði grunninn að skátahreyfingunni um víðan heim með sýnikennslu árið 1907 og opinberri stofnun Bresku skátahreyfingarinnar árið 1910. Ingvar Helgason kynntist starfsemi skáta í Danmörku og stofnaði fyrsta íslenska skátaflokkinn árið 1911. Skátafélag Reykjavíkur var stofnað undir forystu Sigurjóns Péturssonar á Álafossi 2. nóvember 1912 og starfið breiddist síðan hægt og sígandi um landið, fyrst eingöngu fyrir drengi en einnig fljótlega fyrir stúlkur. Kvenskátafélag Reykjavíkur var fyrsta kvenskátafélagið, stofnað 7. júlí 1922. Bandalag íslenskra skáta og Kvenskátasamband Íslands voru sameinuð í Bandalag íslenskra skáta 1944.
Samstarf
Stofnun Hraunbúa má rekja til þess að nokkrir hafnfirskir drengir vildu verða skátar og sækja skátastarfið í Reykjavík. Bjarni Freyr segir að úr hafi orðið að skátaforingjar í Reykjavík hafi komið til Hafnarfjarðar og Jón Oddgeir Jónsson, stofnandi félagsins, hafi haldið fyrsta skátafundinn með níu Hafnfirðingum 6. febrúar 1925. „Í framhaldi af honum var Skátafélag Hafnarfjarðar stofnað á afmælisdegi Baden-Powells 22. febrúar,“ segir Bjarni Freyr. Kvenskátafélagið Lilja var stofnað í Hafnarfirði skömmu síðar en starfsemin lognaðist út af sama ár.
Frá stofnun til 1937 var Skátafélag Hafnarfjarðar í miklu samstarfi við Skátafélagið Væringja í Reykjavík, sem séra Friðrik stofnaði, og var hluti af KFUM. 1938 var ákveðið að félagið sliti sig frá KFUM og yrði meðlimur í Bandalagi íslenskra skáta í staðinn. Þá hætti félagið að starfa sem deild og varð formlega sjálfstætt skátafélag, að sögn Bjarna Freys. Félagið starfaði áfram af fullum krafti sem drengjafélag til 1946, þegar ákveðið var að stofna kvennadeild. „Þá var nafninu breytt í Skátafélagið Hraunbúar,“ segir Bjarni Freyr og vekur athygli á því að Hraunbúar hafi verið fyrsta skátafélagið ásamt Skátafélaginu Heiðabúum til að sameina undir einu þaki karla- og kvennadeildir. „Við erum eina félagið á landinu sem heldur enn skátamót á hverju ári þar sem öllum skátum landsins er boðin þátttaka en 83. mótið verður í sumar.“
Bjarni Freyr leggur áherslu á að Hraunbúar hafi ætíð átt í góðu samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og m.a. rekið tjaldsvæði á Víðistaðatúni fyrir bæinn í rúm 30 ár. Hraunbúar skipuleggi stóran hluta hátíðarhalda sumardagsins fyrsta í bænum og leiði þá skrúðgöngu eins og 17. júní.
Yfir 150 manns undir 18 ára eru félagar í Hraunbúum. „Við höfum alla tíð verið frekar leiðandi í skátastarfinu og erum fjölmennasta skátafélag landsins,“ segir Bjarni Freyr. Hann hefur verið stjórnarmaður í yfir áratug og þar af félagsforingi undanfarin sex ár.
Bjarni Freyr segir að margir skátar hafi ekki fundið sig í íþróttum og því gengið í skátahreyfinguna. Hann sé einn þeirra. „Þegar ég var að ljúka grunnskóla hafði ég prófað margar íþróttir, nánast allar sem voru í boði í Hafnarfirði, en eftir að mér bauðst að fara á skátafund varð ekki aftur snúið og ég hef mætt hérna vikulega á fund síðan.“