Tryggvi Hjaltason
Ég hef gaman af því að ræða pólitík og á blessunarlega góða vini í öllum flokkum. Það er þó áberandi algengast að finna fyrir feimni frá fólki sem styður Sjálfstæðisflokkinn. Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt fólk segja mér frá því að það vilji t.a.m. ekki að fólk á vinnustað sínum viti að það styðji Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er vont fyrir sálina að finna sig í þeirri stöðu. Þegar Áslaug Arna fór að vera númer í flokknum þá fann ég sjálfur að það er alltaf hægt að leiða í samtöl, að hún sé ástæða fyrir því að maður tekur Sjálfstæðisflokkinn alvarlega og „venjulegt fólk“ skilur það vel og heillast með.
Að tala ekki niður til annarra
Ég hef verið vinur Áslaugar í áratug og ég hef aldrei heyrt hana tala niðrandi um andstæðing, aldrei. Ég veit að þetta er aukaatriði hjá mörgum og margir vilja jafnvel sjá sína leiðtoga tala illa um andstæðinga, en ég tel þetta styrk sem mun til lengri tíma einfalda samstarf, laða fleiri að flokknum og styrkja grunnstoðirnar.
Að virkja fólk til stjórnmálaþátttöku
Ég hafði fyrir nokkrum árum áhyggjur af því að mér fannst stjórnmálaþátttaka og áhugi ungs fólks í mínum heimabæ ekki vera upp á marga fiska. Ég spurði Áslaugu hvort hún myndi vera til í að stökkva á fjarfund og hjálpa. „Ekkert mál,“ sagði Áslaug. Þegar unga fólkið frétti að það gæti fengið stund með henni var ekki erfitt að ná í hóp. Það endaði á nær þriggja tíma kvöldstund þar sem Áslaug fékk erfiðar en djúpar spurningar um stjórnmál, eðli lífsins, sanngirni og frelsismál. Í kjölfarið varð til hópur af ungu fólki sem tók virkan þátt í stjórnmálaumræðu og starfi í bæjarfélaginu. Það þurfti bara eina kvöldstund með Áslaugu.
Grunnstefna í framkvæmd
Margir eru þreyttir á að tala sífellt um meira frelsi, einstaklingsframtakið og minna bákn þegar frelsi minnkar, skrifræði eykst og báknið stækkar á valdatímum flokksins. Hvernig lítur framkvæmd á þessum gildum út?
Áslaug var eini ráðherrann í síðustu ríkisstjórn sem setti enga nýja starfshópa eða nefndir í gang. Áslaug setti þá vinnu í gang að einfalda regluverkið og einfalda ráðningar á sérfræðingum. Áslaug fækkaði sjóðum og nefndum en hélt slagkraftinum. Áslaug setti upp hvatakerfi svo íhaldssöm ríkiskerfi gætu betur notið góðs af framþróun frumkvöðla til að auka þjónustu og minnka kostnað ríkisins. Útflutningstekjur hugverkaiðnaðarins og nýsköpun hjá ríkisstofnunum jukust í kjölfarið og það varð einfaldara að vera frumkvöðull á Íslandi. Svona lítur grunnstefnan út í framkvæmd.
Uppgangur Íslands
Þegar Áslaug varð nýsköpunarráðherra áttaði hún sig strax á því að hún væri komin í ráðuneyti þar sem væri gríðarleg sóknartækifæri fyrir Ísland. Eftir kortlagningu með atvinnulífinu, sérfræðingum úr vísindasamfélaginu og frumkvöðlum var sett skýrt markmið. „Hugverk verða helsta útflutningsstoð þjóðarinnar.“ Þetta hljómaði sem fjarlægt markmið. En á hennar kjörtímabili sem nýsköpunarráðherra styrktist hugverkastoðin svo hratt að hún fór yfir 300 milljarða í útflutningstekjum og stefnir nú m.v. vaxtarspár í að verða stærsta útflutningsstoðin innan fimm ára. Áslaug lagði margvíslegan grunn að þessum vexti sem mun halda áfram að gefa og varð samhliða eftirsóttur fyrirlesari í nýsköpunarsenunni. Á sama tíma ýtti hún undir nýsköpun í öðrum geirum og opinberum kerfum til að nýta þau merkilegu vaxtartækifæri sem eru fram undan svo hægt sé að fjölga hálaunastörfum, auka þjónustu og útflutningstekjur og efla fjárfestingu á Íslandi.
SameinIng landsbyggðar og borgarinnar í vél sem virkar
Landsbyggðarfólk lýsir reglulega upplifun af sinnuleysi stjórnmálaleiðtoga í sinn garð. Áslaug hefur sem leiðtogi af höfuðborgarsvæðinu sinnt sínu hlutverki á hátt sem hefur sjaldan sést. Þegar hún varð ritari flokksins þá lagði hún mikla áherslu á að ferðast um allt landið og „færa raddir landsbyggðarinnar heim í Valhöll til jafns við raddir borgarinnar“. Þegar hún varð ráðherra færði hún skrifstofu sína sem ráðherra líka út á landsbyggðina. Áslaug er t.a.m. fyrsti ráðherrann sem ég veit um sem var með virka skrifstofu í mínum heimabæ og hún gerði það oftar en einu sinni. Fleiri ráðherrar hafa fylgt eftir. Þetta gerði hún út um allt land. Þetta er töff og ég veit til þess að þetta virkjaði ýmis jákvæð verkefni í byggðum víða um land í kjölfarið og færði landsbyggðarfólk betur inn í heildina.
Framtíð flokksins verður björt
Það liggur enginn silfurkúla á borðinu til að stórbæta framtíðarhorfur Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur tapað fylgi fjórar kosningar í röð, starfar í sífellt flóknara landslagi fjölgandi flokka og er að einhverju leyti í ímyndarkreppu. Þess vegna verða næstu fjögur ár mikilvæg til að sameina flokksmenn, gera sjálfstæðisstefnuna töff, virkja fólk til stjórnmálaþátttöku, gefa öllum hlutverk sem vilja og tilgang til að byggja betra Ísland. Þetta verður gert með aðgerðum, en ekki einungis orðum. Það er enginn líklegri til að raungera þessa mynd sem formaður flokksins en Áslaug Arna. Kannski er silfurkúlan fundin?
Höfundur er Eyjamaður, framkvæmdastjóri og vinur.