Guðmundur Sveinsson, Gummi, eins og hann var alltaf kallaður, var fæddur 25. ágúst 1943 á Vopnafirði. Hann lést 16. febrúar 2025.

Hann var sonur hjónanna Sveins Guðmundssonar frá Borgarfirði, f. 18. maí 1899, d. 1978, og Ragnhildar Jónsdóttur frá Hreðavatni, f. 5. september 1903, d. 1972.

Gummi var yngstur sjö systkina, þau eru Þórhalla f. 1931, d. 2019, Bjarni, f. 1932, Jón f. 1933, d. 2009, Árni Björgvin f. 1934, d. 2012, Ásdís f. 1936, d. 2020, og Sveinhildur, f. 1940.

Árið 1974 kynntist Gummi Sólbjörtu Hilmarsdóttur, f. 1959 frá Reykjavík, og þau hefja síðan sambúð á Borgarfirði 1975 og gifta sig 1976. Saman eignast þau fjögur börn.

Þau eru Snæbjörg, f. 1976, hún býr í Suðursveit og er í sambúð með Friðriki Hrafni og saman eiga þau drengina Guðmund Reyni og Friðrik Snæ. Snæbjörg átti fyrir Selmu Björt og á hún dótturina Snærúnu Olgu. Friðrik á soninn Kristján Júníus.

Guðrún Heiða, f. 1977, hún býr í Keflavík og er gift Smára og saman eiga þau börnin Rannveigu Ósk og Þröst Inga.

Sveinn, f. 1979, hann býr í Reykjavík, er giftur Aðalbjörgu og saman eiga þau Hrefnu Rán, Telmu Sól og Gylfa Frey.

Helgi Rafn, f. 1986, býr í Keflavík og er í sambúð með Dagbjörtu Sunnu. Helgi á börnin Heiðu Dís og Vigni Nóa.

Sólbjört og Gummi skilja árið 1989.

Árið 1993 tekur Gummi saman við Susanne Neumann, f. 1968, frá Þýskalandi. Þau eignast saman börnin Söru Rós f. 1998, hún býr í Reykjavík. Jörgen Fífill, f. 2000, hann býr í Hörgársveit og á synina Birki Þór og Rökkva Dag.

Yngstur er svo Jónatan Smári f. 2006, hann býr í Hörgársveit og er í sambandi með Elínu Rós.

Súsanna og Gummi skilja árið 2013.

Gummi bjó alla sína tíð á Borgarfirði fyrir utan allra síðustu árin þar sem hann dvaldi á Höfn, fyrst hjá Snæbjörgu dóttur sinni og síðan á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði þar sem hann lést.

Guðmundur verður jarðsunginn frá Bakkagerðiskirkju á Borgarfirði eystra í dag, 22. febrúar 2025,
klukkan 11.

Elsku pabbi

Síðustu dagar hafa verið frekar krefjandi og einhvern veginn ekki fundist tími til að setjast niður með sjálfri mér, hugsa til þín og reyna að koma einhverjum hugsunum á blað.

Ég er í raun búin að vera að kveðja þig smátt og smátt í ansi mörg ár, og þó ég beri það ekki á borð þá hefur það verið mjög erfitt, horfa á þig hverfa smátt og smátt og velta því alltaf fyrir mér hvort þú í raun munir enn eftir mér … og okkur öllum.

Ég er þakklát að hafa náð austur og getað knúsað þig í síðasta sinn, horfa í augu þín og fá smá bros. Ég veit að þér þótti ég fyndin, það skiptir mig máli.

Ég er þakklát fyrir að eiga minningar, mjög margar af þér fyrir veikindin. Það var gott að fá að vera unglingur hjá þér, það var svo sem ekkert verið að eyða allt of miklu í að ala mann upp, en að fá að vera maður sjálfur, fá að gera mistök eftir mistök og vonandi læra af þeim, alltaf máttu vinirnir koma og vera, heimilið var oft eins og besta félagsmiðstöð.

Þú varst svo skemmtilegur, líka þrjóskur og þver en fyrst og síðast svo skemmtilegur.

Mér finnst gaman að hafa deilt með þér Bubbaáhuganum, þó að þú hafir skemmt allar plöturnar mínar með klaufaskapnum.

Ég er sem betur fer þannig gerð að ég reyni alltaf að dvelja stutt við það sem miður fer en halda frekar í það góða, ég ætla bara að halda í góðu minningarnar. Ég ætla að tala um þig, ég ætla að hlæja að þér, þannig mun ég muna þig.

Góða ferð elsku pabbi og takk fyrir allt.

Ég lofa að passa upp á hópinn þinn, systkini mín. Ég veit svo vel hversu montinn þú varst af okkur öllum.

Þín dóttir

Heiða.