Pistill
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Nú hefur landinn þreyjað þorrann, en hann kveður okkur um helgina og við tekur góan með meiri birtu og yl, vonandi. Fjölmargir hafa lyft sér upp að fornum sið og mætt á þorrablót og skemmt sér vel yfir „úldnum“ mat, eins og sumir kalla hann. Þar hefur fólk úðað í sig sviðasultu, hangiketi, rófustöppu, selshreifum, lundaböggum, blóðmör, lifrarpylsu, súrum hrútspungum og kæstum hákarli af bestu lyst. Matur sem undirrituð hefur litlar mætur á og forðast eins og heitan eldinn, enda alin upp í bandarískri stórborg þar sem slíkan mat var ekki að finna.
Ekki entist gleðin lengi hjá hundruðum manna sem fengu heiftarlega í magann eftir blótin, en í þremur þorrablótssamkomum kom upp hópsýking. Sem er ansi sérstakt ef horft er til þess að þessi matur er „hannaður“ til að endast lengi án þess að þurfa frysti eða ísskáp.
Fleira hefur ratað í fréttirnar nýlega, en ef ég skauta framhjá beinhörðum fréttum hafa fréttir af klæðaburði ráðamanna þjóðarinnar ratað í miðlana. Oft eru þessar fréttir þær sem eru langmest lesnar; fá flestu „klikkin“. Í sjálfu sér eru þetta alls ekki fréttir; frekar mætti kalla þær dægurmál eða umfjöllun um hina ríku og frægu. Fréttir af málum sem skipta þjóðina meira máli þurfa stundum að lúta í lægra haldi fyrir frásögnum af áhrifavöldum að skíra börn sín eða af fræga fólkinu að bera upp bónorð í skíðabrekkum eða á sólarströnd á Balí. Fasteignafréttir eru oft líka ofarlega á lista yfir mest lesið. Hinir þekktu selja og kaupa og almenningur fær að fylgjast með og er alveg ljóst að þjóðin hefur gífurlegan áhuga. Svo svalar það auðvitað forvitni manna að sjá hvernig aðrir búa og enn aðrir hafa mikinn áhuga á innanhúshönnun og slíkum pælingum.
Þar sem konur stjórna nú landinu er enn meira fjallað um föt ráðamanna en áður og því eru tískufréttir að slá í gegn. Enda er lítið gaman að fjalla um jakkaföt karlanna, sem eru oft keimlík. Nú eru fréttir skrifaðar um Kristrúnu í rándýrum merkjakjól eða Höllu Tómas í íslenskri hönnun. Svo fylgir með verð flíkanna, sem fer ákaflega í taugarnar á mörgum. En greinilegt er samt að þjóðin vill lesa um kjóla og skó; því verður ekki neitað. Það er kannski ágætis tilbreyting að fá að hvíla hugann frá fréttum af Trump, af stríðum sem virðast engan endi taka, af flugslysum og öðrum áföllum. Þótt nauðsynlegt sé að fylgjast með þurfum við líka léttmeti og það er skemmtilegra að tala um kjólinn hennar Kristrúnar í kaffitímanum en stríðið í Úkraínu eða hörmungarnar á Gasa. Allt er gott í bland!