Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Málið sem ég mun leggja fram og var kynnt á blaðamannafundi forystumanna ríkisstjórnarinnar fyrir nokkru, og ég kynnti fyrir allsherjarnefnd á miðvikudag, lýtur að því að sameina sýslumannsembættin í eitt,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Framlagning stjórnarfrumvarps þess efnis hefur verið boðað í mars, en fyrr í vikunni bar það til tíðinda að Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, lagði fram frumvarp sama efnis á Alþingi. Það frumvarp var samið þegar hann gegndi embætti dómsmálaráðherra en var ekki lagt fram á þingi. Guðrún Hafsteinsdóttir, sem tók við af Jóni í ráðuneytinu, kaus að leggja málið ekki fram í sinni ráðherratíð.
Kerfið á undan löggjafanum
Þorbjörg Sigríður bendir á að sýslumannsembættin séu níu talsins og starfandi sýslumenn í landinu séu sex.
„Kerfið er þannig að því leytinu til aðeins á undan löggjafanum. Ég sé þetta fyrir mér sem tæki til að efla embættið, störfin á landsbyggðinni og síðast en ekki síst er þetta einfalt og gott hagræðingarmál,“ segir hún.
Væntir stuðnings Jóns
„Ég sá að Jón var að leggja fram þetta frumvarp sjálfur og vissi til þess að hann hefði verið með þessa vinnu í gangi í ráðuneytinu. Þetta er kannski enn eitt dæmið um það að síðasta ríkisstjórn var í grunninn óstjórntæk. Þarna voru mál sem aldrei komust neitt áfram, en ég gladdist auðvitað yfir því að sjá þetta mál og geng út frá því að Sjálfstæðisflokkurinn, að minnsta kosti, styðji þetta stjórnarfrumvarp mitt. Mér finnst mjög gleðilegt að sjá að Jón ætli að styðja ríkisstjórnina í þessari vegferð,“ segir Þorbjörg Sigríður.
Aðspurð segir hún málin ekki að öllu leyti eins. T.a.m. geri frumvarp Jóns ráð fyrir að embætti sýslumanns verði staðsett á Húsavík og sitthvað fleira sé frábrugðið.
„En hugmyndafræðin er sú sama og ég hlakka til að sjá Jón berjast fyrir þessu máli með mér í þinginu,“ segir hún.
Sýslumenn tjá sig ekki
Í samtali við Morgunblaðið segir Svavar Pálsson, formaður Sýslumannafélags Íslands og sýslumaður á Norðaustur- og Austurlandi, að núverandi dómsmálaráðherra hafi með bréfi sl. miðvikudag tilkynnt öllu starfsfólki sýslumannsembættanna að ríkisstjórnin ætli að sameina embættin úr níu í eitt í byrjun árs 2026 og boðað stjórnarfrumvarp þess efnis. Sýslumenn hafi ekki fjallað um málið í sínum röðum og kvað hann ekki tímabært að tjá sig frekar um málið að svo stöddu.