Tvíburabræðurnir Jóhannes og Ásvaldur Kristjánssynir opna fyrstu samsýningu sína, sem ber yfirskriftina Tvísýn, í dag, laugardaginn 22. febrúar, klukkan 14 í Gallerí Göngum í Háteigskirkju.
Segir í tilkynningu að tilefnið sé 60 ára afmæli bræðranna þann 24. febrúar. Þá hafi þeir mjög svipaðan málarastíl, hafi málað af og til í mörg ár og tekið þátt í ýmsum sýningum en þó aldrei saman.
„Þeir ólust upp í Múla í Aðaldal við fjölbreytt sveitastörf. Áhugamálin hafa legið á sviði hljóðs og myndar en báðir eru þeir rafeindavirkjar að mennt.“ Sýningin, sem stendur til 16. mars, er opin þriðjudaga til fimmtudaga kl. 10-16 og á föstudögum kl. 10-15.