Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Búi Baldvinsson, eigandi og kvikmyndaframleiðandi hjá Hero Productions á Íslandi, segir samstarf við kínversk kvikmyndafyrirtæki bjóða upp á mikil tækifæri. Hann vinni markvisst að því að efla þau tengsl.
Búi ræddi þessi tækifæri í fyrirlestri í Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur á dögunum. Viðburðurinn var hluti af fyrirlestraröðinni Snarl og spjall um Kína sem Konfúsíusarstofnunin Norðurljós stendur að í samvinnu við Kínversk-íslenska menningarfélagið, KÍM.
Fram kom í kynningarefni vegna viðburðarins að Hero Productions sérhæfir sig í stuðningi við leiknar kvikmyndir, sjónvarpsþætti, auglýsingar, tónlistarmyndbönd, heimildarmyndir og myndatökur.
„Með áralanga reynslu og glæsilega ferilskrá hefur fyrirtækið orðið traustur samstarfsaðili fyrir alþjóðlega viðskiptavini, þar á meðal nokkur af mest áberandi nöfnum í kínverskum afþreyingar- og auglýsingaiðnaði. Verkefnamappa þeirra inniheldur athyglisverð verkefni eins og hasar- og grínmyndina Kung Fu Yoga, með hinum goðsagnakennda bardagalistamanni Jackie Chan í aðalhlutverki.
Auglýsing fyrir Huawei
Annað áberandi verkefni er auglýsing fyrir Huawei P20 Pro, sem sýndi háþróaða myndavélatækni snjallsímans með töfrandi náttúru Íslands í forgrunni. Að auki vann Hero Productions að hinni vinsælu kínversku sjónvarpsþáttaröð King of Blaze, með Chen Bolin og Tian Jing,“ sagði þar jafnframt.
Búi sagði í fyrirlestri sínum að kínverskir kvikmyndaframleiðendur væru meðal þeirra sem hann helst sækist eftir samstarfi við enda ríkur og gagnkvæmur áhugi á samvinnu.
Þá vék hann að stéttleysi á Íslandi og hvernig það getur komið erlendum kvikmyndagerðarmönnum á óvart þegar þeir starfa með Íslendingum. Erlendis sé kvikmyndagerð oftlega lagskiptari iðnaður.
„Við hjá Hero Productions rekum fyrirtækið þannig að allir eru jafnir. Það skiptir ekki máli hvort þú ert leikstjóri, framleiðandi, aðstoðarmaður, sendill eða byrjandi. Komið er eins fram við alla. Mörgum bregður við að upplifa þetta en það leiðir oft til áhugaverðra samræðna. Eftir að við hefjum framleiðslu, og ég ætla að það eigi við í 99% tilvika, kemur fólk til mín og segist aldrei hafa upplifað svo gott samstarf,“ sagði Búi sem ávarpaði salinn á ensku.
Auglýsing fyrir Musk
„Eins og ég gat um erum við hér saman komin vegna tengsla við Kína. Kínverjar eru að efla kvikmyndagerð sína. Við gerum okkar besta til að fjölga störfum í kvikmyndagerð á Íslandi, ekki síst með samvinnu við Kínverja,“ sagði Búi og gantaðist svo með að hann vildi gjarnan að Hero Productions gerði auglýsingu fyrir M-Hero, rafbíl Donfeng, en fyrirtæki hans hafi einmitt tekið upp auglýsingu á Íslandi fyrir Tesla Cybertruck, rafjeppa Elon Musk. Þetta sé í vinnslu.
Svo rifjaði Búi upp samstarf sitt við Jackie Chan við gerð myndarinnar Kung Fu Yoga.
„Ég naut þeirra forréttinda að fá að kenna honum að keyra pallbíl á ísilögðu vatni við Svínafellsjökul,“ sagði Búi. Það kom þannig til að hann sá einhvern keyra bílinn án leyfis. Þegar hann opnaði bílhurðina sá hann að þar sat Jackie Chan (helsti hasarleikari í sögu asískrar kvikmyndagerðar). „Ég vildi bara prófa að keyra á ís,“ hafði Búi eftir Chan en það hafi verið sér sönn ánægja að fá að kenna Chan að spóla (drifta).
Tvífarar stjarnanna
Búi sagði frá tökum á auglýsingu fyrir kínverska tæknirisann Huawei, vegna snjallsímans Huawei Mate20, með ísraelsku leikkonunni Gal Gadot, sem þeysti um á sportbíl í íslenskri náttúru en kom í raun aldrei til Íslands. Tvífari Gadot hafi komið í staðinn og átta manna teymi gert auglýsinguna. „Þeim mun færri sem eru í hópnum því betra enda bindumst við nánari böndum og allir fá að hjálpast að,“ sagði Búi. Svo sagði hann frá gerð auglýsingar fyrir Dior vegna rakspírans Sauvage en leikarinn Johnny Depp var andlit ilmsins. Líkt og í auglýsingunni fyrir Huawei hafi verið notast við tvífara Depps en slíkt sé ekki óalgengt.
Google slaufaði herferð
Fram kom í máli Búa að stórfyrirtækin kosti oft miklu í slíkar auglýsingaherferðir.
Ein dæmisagan var samstarf Hero Productions við tæknirisann Google um upptökur á efni sem nota átti sem skjámyndir. Google greiddi Hero Productions 160 milljónir fyrir verkið en tökur stóðu yfir í sex daga. Fyrirtækið tók upp efni við vita við strendur víðsvegar um landið og fékk meðal annars erlenda leikara til landsins. Ætlunin var að sýna sólarganginn eftir tíma dagsins. Að sögn Búa kostaði Google alls 700 milljónum króna í gerð þessarar auglýsingar en þegar á hólminn var komið ákvað fyrirtækið að hætta við birtingu hennar enda hefði keppinauturinn Apple gert sambærilega auglýsingu.
„Við gerðum líka auglýsingu fyrir Air China á Íslandi sem var ekki sýnd af því að það hentaði ekki flugfélaginu. Það er mikið áfall þegar maður hefur lagt svo mikla ástríðu í hluti og þeim er svo eytt,“ sagði Búi.
Loks sagði hann frá því þegar kínverskt kvikmyndagerðarfólk tók með hans milligöngu upp efni í sjóböðunum í Hvammsvík. Hins vegar hafi snurða hlaupið á þráðinn og Skúli Mogensen, stofnandi baðanna, verið ósáttur við framkomu Kínverjanna og farið fram á að efnið yrði ekki notað í viðkomandi sjónvarpsþáttum. Svo hafi komið á daginn að það hafi verið notað og vakið athygli á Hvammsvík. Skúli hafi verið sáttur enda margar pantanir borist.