Enginn er lengur maður með mönnum nema að hann sé byrjaður með hlaðvarp. Ann Wilson, söngkona rokkbandsins ólseiga Heart, lætur ekki sitt eftir liggja og á dögunum hrinti hún af stokkunum hlaðvarpsþætti sínum After Dinner Thinks With Ann Wilson. Þar hyggst hún ræða um vinnuna, heimilislífið, alheiminn, kvikmyndir, stjórnmál, tónlist, hunda, galdra og allt þarna á milli.
Ef marka má fyrsta þáttinn, þar sem gestur var maður að nafni Criss Cain, mun Wilson þó fara varlega í pólitíkina enda þótt hún viðurkenni að erfitt geti verið að bíta í vörina á sér í öllum þeim hávaða og glundroða sem ríki nú um stundir, ekki síst heima í Bandaríkjunum, þar sem sjálfur sannleikurinn sé oftar en ekki fórnarlambið. „Hafandi flutt frá Seattle í Washington, suður á bóginn, eins og ég gerði fyrir tíu árum, tók það mig tíma að læra þessa lexíu,“ segir hún í þættinum. „Þarna er fullt af dásamlegu fólki en maður vill ekki ræða pólitík. Það er eins og jarðsprengjusvæði. Og það snýr afstöðu manns til fólks, fær mann til að hugsa það versta um það, sé ágreiningurinn það djúpstæður. Og flókið getur verið að koma böndum á þær tilfinningar.“