Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna (BN), segir áformað að hefja jarðvinnu við ný fjölbýlishús félagsins í Arnarbakka í Breiðholti í vor. Niðurrif eldri mannvirkja sé þegar hafið.
Félagið byggir 70 íbúðir í tveimur fjölbýlishúsum í Arnarbakkanum en jafnframt verður leikskóli á jarðhæð annars hússins.
Alverk byggir húsin, sem eru teiknuð af Grímu arkitektum og Tendra arkitektúr. Þá sér verkfræðistofan Dynja um byggingarstjórn og eftirlit með framkvæmdum.
Margra ára undirbúningur
Böðvar segir undirbúning verkefnisins hafa staðið í tæp fimm ár. Að jafnaði liggi fyrir 200-300 umsóknir eftir íbúðum hjá félaginu og muni framkvæmdin hjálpa til við að vinna á þeim biðlista. Á honum séu bæði einstaklingar og fjölskyldur.
Kostnaður við uppbygginguna er rúmlega fjórir milljarðar króna og er verksamningurinn í alverktöku.
Verslunarhúsnæði víkur
Við uppbygginguna víkur verslunarhúsnæði í Arnarbakka 2 og 4, en þar var meðal annars matvöruverslunin Iceland á tímabili. Þá hafði Rauði krossinn afnot af hluta húsnæðisins. Byggingarnar sem víkja voru á einni hæð og nýtist byggingarlandið, sem er í grónu hverfi í Reykjavík, því betur en áður.
Um helmingur stúdíóíbúðir
Gert er ráð fyrir að um helmingur íbúðanna verði stúdíóíbúðir sem ætlaðar eru fyrir einstaklinga og að um helmingur verði fjölskylduíbúðir, þ.e. tveggja og þriggja herbergja íbúðir. Á neðri hluta annarrar byggingarinnar verða félags-, tómstunda- og lærdómsrými fyrir íbúa ásamt tilheyrandi þjónusturýmum, svo sem hjólageymslum og þvottahúsi. Þá verður leikskóli á jarðhæð hinnar byggingarinnar, sem áður segir.
„Við eigum og rekum 875 íbúðir. Þar af á félagið sjálft um 630 íbúðir auk þess sem við rekum Háskólagarða Háskólans í Reykjavík þar sem eru um 250 íbúðir,“ segir Böðvar.
Fyrsta eign félagsins var keypt árið 1992 en það var stofnað árið 1989.