Ólöf Arnalds „Mér finnst hásumarið erfiðara en dimmasti tími ársins, hins vegar tek ég birtunni fagnandi.“
Ólöf Arnalds „Mér finnst hásumarið erfiðara en dimmasti tími ársins, hins vegar tek ég birtunni fagnandi.“ — Ljósmynd/Oliver Devaney
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég ætla að fara mjög djúpt inn í ástina og ég valdi konudaginn til að flytja þessa tónlist, þó svo að hann sé ekki sérstakur ástardagur, en ég hugsaði þetta út frá hinu kvenlega, hinni mjúku og gefandi orku,“ segir tónlistarkonan Ólöf…

Viðtal

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Ég ætla að fara mjög djúpt inn í ástina og ég valdi konudaginn til að flytja þessa tónlist, þó svo að hann sé ekki sérstakur ástardagur, en ég hugsaði þetta út frá hinu kvenlega, hinni mjúku og gefandi orku,“ segir tónlistarkonan Ólöf Arnalds um tónleika sem hún blæs til í Kornhlöðunni á morgun sunnudag, en þar ætlar hún að töfra fram seið af hjartnæmum ástarlögum úr eigin ranni, sem og eftir aðra höfunda.

„Ég ætla meðal annars að bjóða upp á lög sem verða á næstu plötu minni sem kemur út hjá Bella Union útgáfu, en sú heitir Spíra, og sum laganna á henni eru einmitt helguð ástinni. Titill þessarar væntanlegu plötu vísar til fræs eða annars sem spírar, lifnar við, en þó að platan komi ekki út fyrr en í desember verður notalegt að hugsa á þeim árstíma til vorsins og lífsins sem þá kviknar,“ segir Ólöf og tekur fram að eitt af lögunum á nýju plötunni fjalli um skammdegið og hversu vel henni líði í skammdeginu.

„Mér finnst hásumarið erfiðara en dimmasti tími ársins, hins vegar tek ég birtunni fagnandi þegar hún byrjar að koma aftur til okkar. Á morgun byrjar góan, sem er frjó og opin, og þess vegna finnst mér alveg tilvalið að fagna henni á tónleikunum og vaxandi birtu. Þó að konudagur sé vissulega fyrsti dagur í góu eru tónleikarnir í mínum huga kannski frekar góuhátíð en konudags. Góa er fimmti mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og upphaf góu markast af konudeginum, sem var dagur húsfreyjunnar, eins og fyrsti dagur þorra var dagur húsbóndans. Kannski er það hluti af eðli okkar sem búum hér á norðurhjara að leggjast í híði í kuldanum og njóta þess að láta myrkrið umvefja okkur, ég kann alla vega vel að meta myrkrið. Ég gæti aldrei hugsað mér að búa þar sem væru engar árstíðir, þetta heldur manni svo á tánum og fær mann til að hugsa allt upp á nýtt, aftur og aftur, í gegnum veðrið. Maður bregst við umhverfi sínu hverju sinni og tilbreyting árstíðanna gerir okkur eflaust að fjölbreyttari manneskjum, með sálarlíf í fleiri en einum lit. Mér finnst tími til kominn að lyfta skammdeginu og þess vegna samdi ég lag um það, en ég hugsa líka um þessa daga sem voru vísindi fyrri tíma og takturinn í lífi fólksins, hvort sem það er kristna dagatalið eða hið heiðna. Mér finnst til dæmis fallegt að vera með dag eins og Jónsmessu, svona nálægt sumarsólstöðum, og kannski er þriðja dagatalið hið vísindalega, því allt tengist þetta gangi náttúrunnar og himintunglanna.“

Tilbúin og komin aftur af stað

Ný væntanleg plata Ólafar, Spíra, verður hennar fimmta breiðskífa, en áratugur er síðan hún sendi síðast frá sér plötu. Þegar hún er spurð að því hvað hafi orðið til þess að hún ákvað loks að fara af stað og gefa út nýja plötu segist hún hafa verið farin að sitja á svo miklu.

„Ég þurfti að fá einhverja útrás fyrir það, en ég tók mér hlé af því að það var mikilvægt fyrir mig að gera það. Ég þurfti að sinna öðru um tíma, en ég finn núna að ég er ótrúlega tilbúin og ég ætla helst að nýta þennan tíma meðan ég er að bíða eftir að nýja platan komi út, sem er tilbúin, til að búa til aðra plötu, sem kæmi þá út sem fyrst. Ég er komin af stað, þetta sem ég sit á, öll þessi tónlist, er eins og einhver vínsekkur sem þarf að hleypa af.“

Myndbönd tekin innandyra

Ólöf vinnur nú að myndböndum við lögin á nýju plötunni, þar sem hver upptökustaður er hugsaður út frá texta hvers lags.

„Ég geri þessi myndbönd í samstarfi við gott fólk. Ég hef verið að vinna með Hildigunni Sverrisdóttur, sem er með mjög djúpa sýn á bæði innandyra og utandyra arkitektúr. Ég fékk þessa hugmynd að mig langaði til að fanga hvert og eitt lag á plötunni í einhvers konar innandyra kringumstæðum á Íslandi, sem er skemmtilegur snúningur, af því að ef maður er listamaður með alþjóðlegan feril, eins og raunin er með mig, þá væri svo augljóst að hugsa um náttúruna. Þannig fæddist þessi hugmynd að finna hverju lagi á plötunni einhvern stað innandyra á Íslandi og í myndböndunum tek ég bæði mið af rýminu sjálfu og stemningunni,“ segir Ólöf og bætir við að hún sé búin að taka upp fyrsta myndbandið, sem muni vonandi koma út í vor eða sumar.

„Það myndband er tekið inni í leikmyndinni af leikritinu Saknaðarilmi, því ég og maðurinn minn, Skúli Sverrisson, gerðum tónlistina við leikritið. Eitt af númerunum í því leikriti er lag sem verður á plötunni minni. Þetta verður því víðfeðmt og mjög spennandi og fallegt verkefni, að hugsa rými fyrir ólík lög, fara í gegnum þessi hugrenningatengsl sem tengjast rýmum. Oliver Devaney, ungur myndlistarmaður, hefur verið að hjálpa mér að gera öll þessi myndbönd og þegar við vorum komin með allar tillögurnar frá Hildigunni settumst við þrjú niður og fórum alveg „grundigt“ í gegnum það og gerðum kosningu. Við kusum hvaða lag ætti heima í hvaða rými. Við vorum iðulega sammála, svo það er mikill samhljómur í hugsun okkar, sem mér finnst mjög fallegt.“

Tónleikar Ólafar verða á morgun sunnudaginn 23. febrúar kl. 20 í Kornhlöðunni Bankastræti 2 í Reykjavík.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir