Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík 11. febrúar sl., 94 ára að aldri.
Dóra fæddist í Reykjavík 21. nóvember 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Dalmannsson gullsmiður og Jóhanna Margrét Samúelsdóttir húsmóðir.
Dóra stundaði nám í Kvennaskólanum í Reykjavík en hugur hennar stóð snemma til þess að læra gullsmíði. Hún lærði fyrst hjá föður sínum en um tvítugt hóf hún nám í gullsmíði við Kunstfackskólann í Stokkhólmi eftir ársdvöl í lýðháskólanum Tärna í Svíþjóð. Samhliða gullsmíðanáminu nam hún leturgröft á verkstæði í Stokkhólmi, var í lýðháskóla í Lunden í Norður-Þýskalandi 1953-54 og stundaði framhaldsnám í gullsmíði við Vereinigte Gold und Werkschule í Pforzheim í Þýskalandi 1954.
Dóra starfaði að námi loknu á verkstæði föður síns og tók við rekstrinum árið 1970 þegar hann lést. Árið 1976 fékk verkstæðið nafnið Gullkistan, þá með aðsetur að Frakkastíg 10 þar sem það er enn.
Dóra sérhæfði sig í smíði á íslensku skarti á þjóðbúninga, beltispörum og beltisdoppum, brjóstnælum, skúfhólkum og ermahnöppum ásamt öðru búningaskarti. „Gömlu munstrin hafa alltaf heillað mig og þau tengjast þjóðbúningunum svo mikið, sem ég hafði líka áhuga á. Allt í einu kom einhver köllun. Mér fannst ég þyrfti að gera þetta,“ sagði Dóra í samtali við Morgunblaðið árið 2011.
Hún var formaður Þjóðdansafélags Reykjavíkur um tíma. Einnig var hún formaður Félags íslenskra gullsmiða og varð fyrst kvenna á Norðurlöndum til að vera formaður fagfélags gullsmiða.
Dóra hlaut þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri árið 2011 fyrir að hafa smíðað mörg af dýrustu djásnum íslenskra kvenna og örlæti hennar við að miðla öðrum af þekkingu sinni. Sama ár var hún sæmd riddarakrossi fyrir framlag til þjóðlegrar gull- og silfursmíði og Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík útnefndi Dóru Guðbjörtu Iðnaðarmann ársins 2011 fyrir ómetanlegt starf í þágu gullsmíðagreinarinnar.
Sonur Dóru er Jón Jóhann Jóhannsson, kvæntur Ingibjörgu R. Þengilsdóttur. Barnabörnin eru 5.