Tungutak
Þórhallur Eyþórsson
tolli@hi.is
Eins og frægt er úr Fóstbræðrasögu og fleiri heimildum barðist Þormóður Kolbrúnarskáld með Ólafi digra (síðar helga) Haraldssyni, Noregskonungi, í orrustunni á Stiklastöðum árið 1030. Þar féllu þeir báðir, konungurinn og skáldið. Sagt er að hátt hafi látið í holsárum manna eftir bardagann „sem náttúra er til sáranna“. Í grein um lækningar í Íslendingasögum giskar Óttar Guðmundsson geðlæknir á að átt sé við blásturshljóð sem berast frá brjóstkassa eftir mikil sár. Nú gerist það að bóndi nokkur kemur inn í kornhlöðu þar sem þeir sem særðust í orrustunni leituðu skjóls, þeirra á meðal Þormóður. Bóndinn hefur hávær hljóðin í holsárunum í flimtingum og brigslar hinum sáru um hugleysi. Þormóður hefur enga vafninga á en heggur af karli þjóhnappana – „en sá kvað við hátt með miklum skræk og þreif til þjóhnappanna báðum höndum“. Þormóður dregur dár að bónda: „þú bræktir sem geit blæsma [þ.e. ‘eðlunarfús’] og veinar sem meri þó að þú hafir eina vöðvaskeinu litla.“
Þormóður var sjálfur með sár á síðunni og kippti burt ör sem var föst í því. Á örinni voru tágar af hjartanu, „sumar rauðar en sumar hvítar, gular og grænar“. Þá varð Þormóði á vörum víkingamottó allra tíma: „Vel hefir konungurinn alið oss, hvítt er þessum karli um hjartarætur.“
Spurður hví hann sé svo fölur kastar Þormóður fram vísu en nær þó ekki að ljúka henni áður hann andast standandi. Síðustu orðin eru „Dagshríðar spor“, sem merkir sár eftir orrustu – en svo vantar niðurlagið. Ekki minni maður en Haraldur konungur harðráði, hálfbróðir Ólafs helga, fyllti í eyðuna: „Dagshríðar spor svíða,“ sagði konungur, „svo mundi skáldið vilja kveðið hafa.“
Þormóði auðnaðist ekki að ljúka vísunni áður en hann gaf upp öndina. Í Njáls sögu greinir hins vegar frá atviki þar sem maður lýkur máli sínu þótt höfuðið hafi verið höggvið af honum. Á ferð um Bretland rekst Kári Sölmundarson óforvarindis á einn þeirra sem höfðu brennt Njál á Bergþórshvoli og fólk hans inni. Sá hét Kolur Þorsteinsson og hafði mest hæðiyrði við af brennumönnum. Kári kemur að honum í búð einni að telja silfur og hleypur að honum með sverðið Fjörsváfni. Kári hjó á hálsinn þegar Kolur taldi silfrið og nefndi höfuðið „tíu“ er það fauk af bolnum.
Í ritinu Um sannleiksgildi Íslendingasagna frá sjónarhóli kjötiðnaðarmannsins segir höfundurinn, Snorri Freyr Hilmarsson leikmyndahönnuður m.m.: „Það að höfuð brennumanns segir „tíu“ í loftinu segir aðeins hve snöggt er höggvið … Ekki er „tíu“ langt orð. Hefði höfuð brennumanns hins vegar farið með höfuðlausnardrápu þarna í loftinu væri ástæða til að efast; því ekki gefa raddböndin tungunni tón laus frá lungunum.“ Það er með öðrum orðum engin sérstök ástæða til að rengja þá frásögn Njálu að höfuðið á Koli brennumanni hafi klárað að telja upp á tíu eftir að það hafði verið skilið frá búknum.