„Við viljum að Sinfóníuhljómsveitin sé í fararbroddi á Norðurlöndum,“ segir Guðni.
„Við viljum að Sinfóníuhljómsveitin sé í fararbroddi á Norðurlöndum,“ segir Guðni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ég er á því að umgengni við listir og menningu geti hjálpað til við mannrækt kynslóðanna. Manneskja sem nýtur listar er heilsteyptari manneskja.

Sinfóníuhljómsveit Íslands er komin á virðulegan aldur, en í marsmánuði 1950 hélt hún sína fyrstu tónleika í Austurbæjarbíói. Í tilefni 75 ára afmælisins verður mikið um dýrðir í Hörpu.

Guðni Tómasson var nýlega ráðinn framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hann er sannarlega ekki ókunnur störfum hljómsveitarinnar, var um tíma stjórnarformaður, sat í stjórn Hörpu og var formaður listráðs Hörpu. Hann er þekktur fyrir störf sín hjá Ríkisútvarpinu, þar sem hann sá um tónlistar- og menningarþætti á Rás 1 og kynnti útsendingar Sinfóníuhljómsveitarinnar um árabil, þar á meðal í hinum vinsælu sjónvarpsútsendingum Klassíkin okkar, ásamt Höllu Oddnýju Magnúsdóttur.

Spurður hvenær áhugi hans á klassískri tónlist hafi vaknað segir Guðni að það hafi verið á unglingsárum. „Foreldrar mínir áttu dálítinn slatta af plötum. Ég man eftir að hafa sem krakki tekið úr hillu fimm diska safn með völdum köflum úr meistaraverkum tónlistarsögunnar og sett í geislaspilarann. Ég hreifst til dæmis af blómavalsinum eftir Tsjajkovskíj – sem mér þótti opinn, bjartur og fallegur. Seinna fór ég að kaupa plötur sjálfur, man til dæmis vel eftir að hafa verið á ferðalagi á unglingsárum í Salzburg þar sem keypti ég mína fyrstu klassísku geisladiska í heillandi plötubúð.

Þegar ég var við nám í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ var boðið upp á hlustunaráfanga þar sem nemendur hlustuðu á plötur og fóru á tónleika og áttu síðan að mynda sér skoðun á tónlistinni og skrifa litla skýrslu eða greinargerð. Þetta þótti mér frábært nám, á meðan sumir samnemendanna lögðu sig.

Ég var mjög áhugasamur um tónlist, fjárfesti í góðum græjum og hóf að safna plötum og fara á tónleika eftir megni. Ég held að ég hafi verið 18 ára þegar ég fór að kaupa fyrstu áskriftir á sinfóníutónleika í Háskólabíói og ég safnaði efnisskránum í möppu og reyndi að mynda mér skoðun á tónlistinni. Öll þessi upplifun er í dag vitanlega allt önnur, Harpa býður upp á bestu aðstæður og að mínu viti er magnað að sitja í góðum tónleikasal og hlusta á góða hljómsveit, það eru svo miklir töfrar í því. Og hversu góðar sem steríógræjurnar eru er hljómurinn allt annar í góðum sal, hann umvefur þig.“

Sjostakovitsj var uppgötvun

Þrátt fyrir tónlistaráhugann hefur Guðni aldrei lært á hljóðfæri, fyrir uta forskólanám á hristur og blokkflautu. „Á framhaldsskólaárunum smyglaði ég mér inn í tónlistarsögunám í Tónlistarskólanum í Garðabæ án þess að vera að læra á hljóðfæri. Það uppgötvaðist ekki fyrr en í þriðja og síðasta áfanganum að ég væri laumufarþegi, án þess að vera að læra eitthvað meira. En ég fékkst ekki til að læra á hljóðfæri, það kann að hafa verið frammistöðukvíði en mín afstaða var að láta sérfræðingana um að spila. Einhverjir þurfa líka að njóta.

Um tvítugt var ég ráðinn til að selja plötur og geisladiska í Japis og svo slysaðist ég inn í sumarvinnu hjá Ríkisútvarpinu á Rás 1 og fékk þar að sinna helstu áhugamálum mínum, sem eru klassísk tónlist og myndlist, en ég lærði listasögu í St. Andrews-háskólanum í Skotlandi. Allan minn tíma í fjölmiðlum fékk ég að vinna við þessi áhugamál mín og fyrir það er ég þakklátur. Þau tengjast líka söguáhuga mínum, listasagan og tónlistarsagan hafa alltaf heillað mig.“

Hvaða klassíska tónlist hrífur þig mest?

„Þetta er svo stór og víður heimur, maður getur kafað mjög djúpt en svo er alltaf eitthvað sem maður á eftir að kynna sér. Sjostakovitsj var til dæmis uppgötvun í mínu lífi. Hann er góður fyrir unga forvitna hlustendur, í tónlist hans er svo mikil fegurð en um leið er hann módernískur og ágengur. Ég mæli oft með Sjostakovitsj fyrir unglinga sem eru móttækilegir fyrir klassískri tónlist. Svo er Bach alltaf eins og sólin, bráðnauðsynlegur og ég reyni til dæmis yfirleitt að hlusta á tónlist hans á sunnudögum.“

Veglegir afmælistónleikar

Á 75 ára afmæli Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður ýmislegt í boði. „Það má segja að þemað í dagskránni verði að þakka fyrir störf þjóðarhljómsveitarinnar okkar í 75 ár. Þann 26. febrúar verður opið samspil þar sem núverandi meðlimir úr hljómsveitinni, yngra tónlistarfólk og fyrrverandi meðlimir sveitarinnar munu mynda risahljómsveit, líklega þá stærstu sem mynduð hefur verið hérlendis. Við verðum líka með opinn fjölskyldudag 1. mars þar sem boðið verður upp á barnastundir og ævintýrið sívinsæla um Pétur og úlfinn og um leið opnum við netta sýningu í anddyri Hörpu um starfsemina í 75 ár. Síðan erum við að byrja með hlaðvarp sem mun heita Hljómkviðan, sem er gott og gamalt íslenskt nafn yfir sinfóníu. Sigurður Ingvi Snorrason, sem var klarínettuleikari í hljómsveitinni um árabil, ætlar að byrja að ræða þar við eldri félaga sem voru í hljómsveitinni.“

Vitanlega verða veglegir afmælistónleikar, 6. og 7. mars, þeir seinni í beinni útsendingu á RÚV. „Þar spilar heimspíanistinn okkar Víkingur Heiðar Ólafsson fimmta píanókonsert Beethovens, keisarakonsertinn. Á efnisskrá verður einnig stórt og mikið tónaljóð eftir Richard Strauss, Hetjulíf, og nýtt verk eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur sem er samið sérstaklega fyrir tilefnið, stutt og snarpt hljómsveitarverk. Svo verður þar frumflutningur á verki eftir Jón Leifs, Darraðarljóði, sem hefur aldrei heyrst og er gríðarlega krefjandi verk fyrir stóran kór sem kemur til liðs við hljómsveitina.“

Í tengslum við afmælið heimsækir hljómsveitina líka góður gestur, Deborah Borda, sem er einn reyndasti menningarstjórnandi í Bandaríkjunum á undanförnum áratugum. Hún hefur verið forstjóri Fílharmóníusveitanna bæði í New York og Los Angeles. „Deborah heldur opið erindi 7. mars um hlutverk hljómsveita á 21. öld. Það verður áhugavert að fá ráðgjöf hjá henni,“ segir Guðni.

Hann segir starfsemi hljómsveitarinnar vera mjög fjölbreytta og sveigjanlega. „Til viðbótar við okkar hefðbundnu áskriftartónleika bjóðum við til dæmis upp á bíótónleika og barnatónleika og við tökum á móti skólahópum allt árið, förum í stofnanaheimsóknir fyrir jól, stöndum að Ungsveit SÍ og keppni fyrir unga einleikara með Listaháskóla Íslands. Starfsemin er mikil og öflug og við viljum alltaf vera með opinn faðminn gagnvart þeim sem eru forvitin um þennan dásamlega hljóðheim.

Við viljum að Sinfóníuhljómsveitin sé í fararbroddi á Norðurlöndum, sé öflugur samstarfsaðili í íslensku menningarlífi og breiði út fagnaðarerindið um íslenska tónlist með hljóðritunum og flutningi og fari í tónleikaferðir innanlands og utan, svo eitthvað sé nefnt.“

Næsti tónleikavetur 2025-2026 verður síðasta starfsár núverandi aðalhljómsveitarstjóra, hinnar finnsku Eva Ollikainen, sem átt hefur í farsælu og góðu samstarfi við sveitina síðustu ár. Næsti aðalhljómsveitarstjóri tekur síðan við haustið 2026 og það er hin þekkta kanadíska sópransöngkona og hljómsveitarstjóri Barbara Hannigan. „Margir spyrja hvernig hljómsveitinni hafi tekist að næla í hana því hún er eftirsótt víða um heim enda gríðarlega spennandi listamaður. Ég vænti mikils af samstarfi við hana,“ segir Guðni.

Tónlist og skólasamfélag

Sem fyrr segir fékk Guðni áhuga á klassískri tónlist á unglingsaldri og mætti strax þá á sinfóníutónleika. Er ungt fólk duglegt við að mæta á tónleika?

„Það er alltaf einhver endurnýjun í hlustendahópnum. Þeir sem læra á hljóðfæri mæta og metnaðarfullir foreldrar taka börnin með sér. Við erum líka með góð kjör fyrir námsmenn á tónleikadegi og því ekkert til fyrirstöðu að kanna þá starfsemi sem hér er í nánast hverri viku. Mér finnst mikilvægt að tónlistinni sé sinnt í skólakerfinu en ég veit að margir hafa áhyggjur af stöðu tónmenntakennslu. Það að kynnast listum og menningu er þroskandi fyrir hverja manneskju, bæði að leggja stund á listir og njóta þeirra. Það væri áhugavert að reyna að virkja tónlistina meira í skólasamfélaginu. Ég er á því að umgengni við listir og menningu geti hjálpað til við mannrækt kynslóðanna. Manneskja sem nýtur listar er heilsteyptari manneskja.

Krakkar á ákveðnum aldri, í 9.-10. bekk og fyrstu bekkjum framhaldsskóla, eru á góðum aldri til að húkkast á að hlusta á fjölbreytta tónlist og geta auðveldlega leiðst inn í heim klassískrar tónlistar fái þau smá leiðsögn og uppörvun. Það er ekki einungis mikilvægt fyrir stofnun eins og þessa að eignast nýja framtíðargesti heldur snýst þetta líka um þá lífsfyllingu sem felst í því að njóta tónlistarinnar við bestu aðstæður. Að eiga tónlistina að förunaut í lífinu er svo endalaust gefandi.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir