Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Reykjavíkurskákmótið, Reykjavik Open, verður haldið í Hörpu dagana 9. til 15. apríl næstkomandi.
Mótið í ár er afmælismót Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga, sem fagnaði 90 ára afmæli sínu 26. janúar sl.
Friðrik var meðal þátttakenda í fyrsta Reykjavíkurskákmótinu sem fram fór árið 1964. Lenti hann í þriðja sæti á eftir sigurvegaranum Mikail Tal og Svetozar Gligoric.
Reykjavíkurskákmótið er hápunkturinn í skáklífi Íslendinga ár hvert og hefur áhugi innlendra jafnt sem erlendra skákmanna farið vaxandi. Mótið hefur um margra ára skeið verið haldið í Hörpu og hefur reglan verið sú að mótinu ljúki á þriðjudegi fyrir páska. Í fyrra fór mótið fram í mars.
Þátttakan hefur verið mjög góð
Að sögn Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands, virðist þessi tilhögun henta mörgum. Þátttakan hefur verið mjög góð síðustu ár og hefur þurft að takmarka hana við 400 manns. Nú þegar hafa 320 skráð sig til leiks og segir Gunnar að lítill vafi leiki á því að hámarkinu 400 verði náð á næstu vikum.
Mótið verður með hefðbundnu sniði – níu umferðir á sjö dögum. Helsta breytingin er sú að hið vinsæla hraðskákmót, Harpa Blitz, fer fram degi fyrir mót – í stað þess að fara fram í miðju móti.
Alls eru skákmenn frá 39 löndum á keppendalista mótsins eins og er. 47 Íslendingar eru skráðir. Venjulega eru Íslendingar um 80-100 talsins og svo fer töluverður hluti óráðstafaðra sæta til okkar fólks, segir Gunnar.
Jafnmargir Þjóðverjar eru skráðir til leiks en mótið er ávallt mjög vinsælt meðal Þjóðverja. 36 Bandaríkjamenn hafa boðað komu sína og 31 skákmaður frá Frakklandi.
Nú eru 24 stórmeistarar skráðir til leiks og þar á meðal sterkasti skákmaður Íslendinga, Vignir Vatnar Stefánsson. Gunnar segir að þessa dagana sé verið að þétta toppinn. Stigahæstir núna eru stórmeistararnir Alexander Zherebukh (2620) og Vasyl Ivanchuk (2619) en það kann að breytast.
Eins og síðustu ár setja samfélagsstjörnur mark sitt á mótið. Hinar afar vinsælu samfélagsstjörnur, þær kanadísku Botez-systur, Alexandra og Andrea, mæta til leiks sem og Anna Cramling. „Þær hafa allar milljónir fylgjenda og tala afar vel um mótið og Ísland,“ segir Gunnar.
Það er mat Gunnars að hér á landi séu um 450-500 manns erlendis frá á meðan mótið stendur yfir, keppendur og fylgdarfólk. Þetta fólk gisti að meðaltali 10 nætur. „Gistinætur í kringum mótið eru því um 50.000 talsins sem munar væntanlega um fyrir íslenskt þjóðarbú,“ segir Gunnar.
Heimsmeistari tefldi hér
Reykjavík Open hefur verið mjög vinsælt mót meðal ungra og upprennandi skákmanna. Nýbakaður heimsmeistari í skák, Indverjinn Dommaraju Gukesh, hefur tvsivar teflt á mótinu. Fyrst árið 2019, þegar hann var aðeins 12 og aftur árið 2022.
Landi hans, Rameshbabu Praggnanandhaa, sem er 19 ára og nú þegar orðinn einn sterkasti skákmaður heims, tók einnig þátt í Reykjavíkurskákmótinu á barnsaldri.
Mikla athygli vakti þegar hann tefldi við okkar nýjasta stórmeistara Vigni Vatnar á mótinu 2018.