Sviðsljós
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Það var barist um miðana. Sætin fóru fyrst og svo miðar í stæði. Það er greinilegt að fólk hefur þyrst í stórtónleika á Íslandi og þetta gefur okkur byr undir báða vængi varðandi frekara tónleikahald,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live.
Tilkynnt var í síðustu viku að bandaríska rokkhljómsveitin The Smashing Pumpkins væri á leiðinni til Íslands og mun halda tónleika í Laugardalshöllinni 26. ágúst. Óhætt er að segja að þessum tíðindum hafi verið vel tekið og miðar seldust upp á einum degi í lok vikunnar. Miðaverð á tónleikana hefur verið gagnrýnt en samantekt Morgunblaðsins sýnir að miðaverð í stæði er í mörgum tilvikum lægra en tíðkast hefur á stórtónleikum hér á landi þegar tekið er tillit til verðlagsþróunar.
Hærra miðaverð í sæti
Fátt hefur verið um fína drætti í svokölluðum stórtónleikum hér á landi síðustu misseri. Síðustu stórtónleikar voru þegar Backstreet Boys tróðu upp í nýju Laugardalshöllinni í apríl 2023. Fram að því hafði lítið sem ekkert markvert gerst frá því áður en kórónuveirufaraldurinn skall á, aðeins tónleikar sem ítrekað var frestað af völdum samkomutakmarkana. Af þessum sökum mætti halda að tónleikahaldarar hefðu fyrir margt löngu boðað komu stórra listamanna hingað en sú hefur ekki orðið raunin.
Ísleifur segir að hjá Senu Live hafi margt verið skoðað en niðurstaðan hafi oftast verið sú að menn töldu að dæmið gengi ekki upp.
„Það er erfiðara að láta þetta ganga upp nú en áður. Tekjuhliðin er ófyrirsjáanlegri og kostnaðarliðir hafa hækkað mikið. Allur geirinn er að glíma við erfiðari aðstæður. Það er dýrt að koma til Íslands, hvort sem litið er til flugs, hótela eða flutninga. „Við höfum ekki talið að við gætum velt verðhækkunum út í miðaverðið en þarna náðum við að láta þetta ganga upp með Smashing Pumpkins og það sýnir okkur að þetta er hægt.“
Miðaverð á tónleika Smashing Pumpkins hefur verið til umræðu og sitt sýnist hverjum. Gagnrýnt hefur verið að seldir eru sérstakir VIP-pakkar á tónleikana en Ísleifur segir að þeir séu Senu Live óviðkomandi og eru seldir af erlendu viðburðafyrirtæki. Þar fyrir utan hafa heyrst gagnrýnisraddir á miðaverð í sæti. Fjórir verðflokkar voru í boði, frá 25.990 upp í 34.990 í efri stúku og svokölluð Gull sæti á 49.990 í neðri stúku en þá fylgir frír drykkur með og sérinngangur.
Margir til í að borga meira
Ísleifur segir að þetta fyrirkomulag sé hluti af þróun sem sé að verða í tónleikahaldi um allan heim. „Við höfum verið að fjölga svæðunum og breikka verðbilið. Það er ákveðinn hópur sem er til í að borga meira fyrir bestu svæðin og svo er hópur sem er verðviðkvæmari. Augljóslega var vel tekið í þetta á Smashing Pumpkins-miðasölunni.“
Miðaverð í stæði á umrædda tónleika er 19.990 krónur og þó sú tala kunni að stuða marga er kannski rétt að skoða hana í einhverju samhengi. Samantekt Morgunblaðsins, sem sjá má á grafi hér á síðunni, leiðir í ljós að það verð er í fullu samræmi við miðaverð á marga af fyrri stórtónleikum hér. Nokkrir tónleikar voru valdir af handahófi og miðaverð í stæði var uppreiknað í verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands. Í ljós kom að miðaverð á þá tónleika var í sex tilvikum af átta hærra en í tveimur tilvikum lítið eitt lægra en verðið er á Smashing Pumpkins.
Skipuleggja fleiri tónleika
Ísleifur segir að þetta sé athyglisverður samanburður. Ljóst megi vera að færi séu til frekara tónleikahalds hér.
„Þetta sýnir að við erum ennþá eftir á í því að koma verðhækkunum út í miðaverðið ef eitthvað er. Og af því framboðið á stórtónleikum á Íslandi undanfarið hefur verið næstum ekkert þá hafa Íslendingar verið að flykkjast til útlanda til að fara á tónleika síðustu ár. Það sýnir að fólk er alveg til í að eyða peningum í að sjá alvöru stjörnur.“
Hann segir enn fremur að nú vinni Sena Live að því að landa fleiri stórtónleikum. „Já, það er alveg líklegt að það verði eitthvað meira í ár og svo vonandi sprengjur 2026 og 2027. Það eru rosalega mörg samtöl í gangi.
Þessi velgengni með Smashing Pumpkins var það besta sem gat komið fyrir þennan markað og það gefur okkur meira öryggi með framhaldið. Þetta er aftur hægt.“