Rithöfundurinn Jónína með bók sína <strong><em>Konurnar á Eyrarbakka</em></strong> sem kom út 2023.
Rithöfundurinn Jónína með bók sína Konurnar á Eyrarbakka sem kom út 2023.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónína Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík og ólst upp á Bakkastíg í Vesturbænum fyrstu tvö árin. Þá flutti fjölskyldan á Framnesveg 20b. „Húsið er raðhúsalengja, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og þau voru kölluð bankahúsin

Jónína Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík og ólst upp á Bakkastíg í Vesturbænum fyrstu tvö árin. Þá flutti fjölskyldan á Framnesveg 20b. „Húsið er raðhúsalengja, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og þau voru kölluð bankahúsin. Þar átti ég heima til níu ára aldurs og þá fluttum við inn á Otrateig 4, en í hjarta mínu er ég Vesturbæingur.“

Jónína byrjaði í tímakennslu á Ránargötu sex ára og lærði þar að lesa, en hún hafði lært stafina mjög ung. „Síðan var ég í Öldugötuskólanum fyrstu tvö árin hjá Jens Hallgrímssyni, sem var einstakur kennari. Það er ómetanlegt að fá svona gott veganesti,“ segir hún, en þaðan fór hún í Laugalækjarskóla, sem var miklu stærri skóli.

Þegar Jónína var níu ára byrjaði hún í ballett, fyrst hjá Sigríði Ármann og síðan í Þjóðleikhúsinu og var þar alveg til 18 ára aldurs. Þá fór hún í leiklistarskóla SÁL í eitt ár en var á sama tíma að vinna í Peysudeildinni í Miðbæjarmarkaðnum í Aðalstræti 9. „Ég var að vinna frá 9-6, í ballett frá 6-8 og svo í leiklistarskólanum frá 8-11 á kvöldin og um helgar. Þetta var of mikið og ég kannski fullung fyrir leiklistarnámið, sem ég hafði þó mikinn áhuga á,“ segir hún og bætir við að ballettinn hafi einnig verið eitt það skemmtilegasta sem hún gerði. Þótt draumurinn um leiklistarferilinn hafi ekki ræst á þessum tíma fór Jónína samt mörgum árum seinna í leikhópinn Leyndir draumar sem var stofnaður í Kramhúsinu og segir að þar hafi hún náð að uppfylla þann drauminn.

Jónína hefur alltaf haft mikinn áhuga á fólki og hefur marga fjöruna sopið. Hún ákvað ung að læra markvisst af lífinu sjálfu. Hún fór að vinna við höfnina í vöruskemmu í Faxaskála hjá Eimskip, þar sem nú er Harpan, og var þar lengst af eina stelpan, en segir vinnufélagana á höfninni hafa verið einstaklega notalega. Síðan fór hún í Togaraafgreiðsluna að vinna á bryggjunni við löndun úr togurunum. „Á þessum tíma var ég virk í verkalýðsbaráttunni og seldi blaðið Stéttabaráttuna við höfnina og hefði gjarnan viljað vera einhvers konar Sólveig Anna þeirra tíma,“ segir hún hress. „Ég var sjómannsdóttir og þekkti þetta líf og langaði að skapa réttlátara samfélag og leit mikið upp til Aðalheiðar Bjarnheiðardóttur og fleira baráttufólks.“

Eftir vinnuna á höfninni fór Jónína að vinna í Arnarholti á Kjalarnesi, sem var geðdeild frá Landspítalanum. „Það var mjög mikil lífsreynsla og þar kynntist ég svolítið gamla tímanum í geðmeðferð og aðbúnaður vistmanna var fremur forneskjulegur,“ segir hún en bætir við að þar hafi unnið margt gott fólk úr ýmsum áttum. Frá árinu 1977 vann hún á Kleppsspítala, fyrst á krónískri deild í Hátúninu en síðan á Kleppsspítala við Sund. „Á spítalanum var ég á móttökudeild og þar var stór hópur af áhugaverðu fólki með geðsjúkdóma og hver hafði sinn sjarma og starfsfólkið var fjölskrúðugt. Á þessum tíma voru geðsjúkdómar felusjúkdómar og maður sá hvað þetta gat oft verið erfitt fyrir sjúklingana og aðstandendur þeirra. Sem betur fer hefur viðhorfið talsvert breyst.“

Jónína eignaðist fjögur börn og næstu árin var hún að sinna sinna barnauppeldi að mestu og seinna meðfram námi og öðrum störfum. „Nú er ég svo heppin að hafa eignast fimm yndisleg ömmubörn.”

Jónína fór í öldungadeild MH þegar hún varð þrítug og síðan í Fóstruskólann og lauk honum 1992. Var þá leikskólakennari í tíu ár, byrjaði í fyrsta Hjallaskólanum sem Margrét Pála stofnaði í Hafnarfirði og var síðan fimm ár á Hagaborg. „Það hafði alltaf verið einn af mínum draumum að vinna á bókasafni, svo að ég sló til og sótti um starf á aðalsafninu í Tryggvagötu þegar safnið flutti þangað árið 2000. Ég byrjaði þar í barnastarfinu í Grófarhúsi en síðan sem almennur bókavörður.“ Síðan færði hún sig í safnið uppi í Árbæ þar sem hún mun starfa fram á vor. Hún bætti við sig MA-námi í menningarmiðlun og ritlist og hefur staðið fyrir mörgum skemmtilegum viðburðum á safninu, m.a. bæði námskeiðum í ritlist, ljóðagöngum og verið með leshring sl. fjórtán ár. „Ég er með lítinn kofa í Skammadal, þar er mín paradís.“

Jónína hefur alltaf verið bókelsk og hafði áhuga á ljóðum og kunni gömlu Skólaljóðin utan að sem barn. „Ég hafði alltaf gengið með þann leynda draum að skrifa bók og sá draumur varð að veruleika þegar ég gaf sjálf út viðtalsbókina Konurnar á Eyrarbakka árið 2023. Ég var búin að vinna að henni um tíu ára skeið og er mjög ánægð með útkomuna. Mig langaði að draga fram venjulegt líf alþýðukvenna og konurnar í bókinni eru fæddar á tæplega 100 ára tímabili. Ég tileinka móður minni bókina, en hún var mikil sögukona og kveikti með mér áhugann á lífi kvennanna á Eyrarbakka.“

Fjölskylda

Jónína var í sambúð með Magnúsi Þorgrímssyni sálfræðingi, f. 21.3. 1952, d. 25.2. 2019. Þau slitu samvistum. Hún var gift Gísla Fannberg, sérfræðingi hjá HÍ, f. 8.7. 1954. Þau skildu.

Börn Jónínu eru: 1) Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, hönnuður, f. 9.7. 1979. Guðfinna á soninn Unnar Ugga Huginsson, f. 4.4. 2014. Faðir hans er Huginn Þór Arason. 2) Óskar Gíslason, starfsmaður á sambýli, f. 27.4. 1984. 3) Sirí Gísladóttir, ráðgjafi hjá Barnavernd, f. 1.3. 1986. Sirí á börnin Úlf Líndal, f. 15.1. 2007; Ara Líndal, f. 13.1. 2010; og Örvar Líndal, f. 4.5. 2012, með fv. eiginmanni sínum, Ásgeiri Jósafat Líndal, f. 25.4. 1983. 4) Árni Jón Gíslason, flugmaður, f. 8.2. 1988, í sambúð með Erlu Hrönn Gylfadóttur, tannlækni, f. 15.5. 1995, og þau eiga dótturina Katrínu Evu Fannberg, f. 6.1. 2025.

Systkini Jónínu eru 1) Vilhjálmur, forstjóri og eigandi Gjörva, f. 1.10. 1952, d. 2.6. 2021; 2) Guðfinnur, sjómaður, f. 20.4. 1958, d. 1.12. 1978; 3) Ólafur, trillusjómaður í Noregi, f. 20.4. 1958, og 4) Rannveig, framkvæmdastjóri, f. 24.1. 1961.

Foreldrar Jónínu voru hjónin Hallveig Ólafsdóttir, húsmóðir og fræðari, f. 27.10. 1925, d. 27.6. 2019, og Óskar Guðfinnson, sjómaður, f. 16.1. 1918, d. 19.5. 1984. Þau voru bæði frá Eyrarbakka. Hófu þau búskap í gamla Vesturbænum en bjuggu lengst af á Otrateigi 4 í Reykjavík.