Kaitlyn Dever sýnir stórleik sem hin brenglaða Belle Gibson í nýjum Netflix-þætti.
Kaitlyn Dever sýnir stórleik sem hin brenglaða Belle Gibson í nýjum Netflix-þætti. — Netflix
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hin ástralska Gibson tilkynnti á spjallsíðum og síðar samfélagsmiðlum að hún hefði greinst með ólæknandi heilakrabba og að læknarnir gæfu henni „sex vikur; fjóra mánuði í mesta lagi“.

Sagan af Belle Gibson er lyginni líkust, enda sjaldgæft að fólk leggist svo lágt að ljúga til um krabbamein í heila til þess að öðlast frægð, fá athygli og þéna peninga. Hin ástralska Gibson tilkynnti á spjallsíðum og síðar samfélagsmiðlum að hún hefði greinst með ólæknandi heilakrabba og að læknarnir gæfu henni „sex vikur; fjóra mánuði í mesta lagi“, eins og hún orðaði það. Hún þóttist hafa læknað sig sjálfa með hollu fæði og í árdaga Instagram birti hún ljósmyndir af sjálfri sér ásamt myndum af mat og uppskriftum. Fylgjendum fór sífjölgandi og gaf það fjölmörgum raunverulegum krabbameinssjúklingum falsvonir – og mætti því ætla að hún ætti jafnvel þátt í dauða þeirra sem fylgdu hennar fordæmi að afþakka nútímalækningar. Á Netflix má nú finna seríuna Apple Cider Vinegar, um sögu Gibson, en það er Kaitlyn Dever sem leikur hana snilldarlega.

Dó á skurðarborðinu

En hver er svikakvendið Belle Gibson? Saga hennar er rakin í breska blaðinu The Independent og er stuðst við þá grein hér. Hún er fædd árið 1991 í Tasmaníu en laug ítrekað að hún væri fædd 1988. Hún þekkti ekki pabba sinn en ólst upp hjá móður sinni í Ástralíu en segir sjálf að hún hafi flutt að heiman tólf ára. Gamall kærasti segir hana sífellt hafa verið að skálda upp sögur og var hún strax í grunnskóla álitin sjúklegur lygari. En það var á netinu að lygasögur hennar náðu hámarki, en árið 2005 hóf hún að birta færslur á spjallsíðum þar sem hún tilkynnti að hún væri með heilakrabba, þá aðeins fjórtán ára. Á spjallsíðum fyrir hjólabrettafólk póstaði hún að hún hefði farið í stóra aðgerð vegna krabbans og hefði dáið í nokkrar mínútur á skurðarborðinu.

Nítján ára eignaðist hún soninn Oli og fann þá samúð hjá mæðrum á netinu, enn að halda fram krabbameini. Árið 2012 fann hún sinn stað á Instagram, sem var þá tiltölulega nýr miðill. Á svipuðum tíma hóf hún sambúð með sér tuttugu árum eldri manni að nafni Clive og stofnaði þá reikninginn „Healing Belle“ á Instagram, þar sem hún lýsti því hvernig hún læknaði krabbann með óhefðbundnum lækningaaðferðum og heilsumat. Stíliseraðar myndir af henni, geislandi af heilbrigði, og fallegar matarmyndir af hollum mat vöktu athygli og áður en varði var hún komin með 200.000 fylgjendur, sem þótti mjög mikið á þessum árum. Fólk kallaði hana baráttukonu og engil og sagði hana veita sér von og innblástur.

Matarappið sló í gegn

Árið 2013 stofnaði hún fyrirtækið The Whole Pantry, sem sérhæfði sig í heilsuuppskriftum, en app sem var þróað sló í gegn á einni nóttu og var valið af Apple besta matarapp ársins og annað besta iPhone-app heims. Fljótlega landaði hún bókasamningi hjá Penguin og bókin hennar The Whole Pantry seldist í sextán þúsund eintökum árið 2014. Í formála segir hún frá krabbameinsvegferð sinni. Einn hængur var á sögunni; ekki var til nein sönnun fyrir því að hún hefði nokkru sinni verið með krabbamein.

Í þáttunum er fylgst með Gibson spinna sinn lygavef og virðist hún svífast einskis til að ná sínum markmiðum. Söfnun sem hún stendur fyrir, fyrir ungan dreng sem þarf á aðgerð að halda vegna heilakrabba, er meira að segja svikamylla og fjölskylda drengsins sá aldrei krónu.

Í Apple Cider Vinegar tvinnast inn í söguna átakanlegar sögur tveggja kvenna sem raunverulega þjást af krabbameini og baráttu þeirra, en báðar kjósa þær óhefðbundnar lækningar. Önnur þeirra, Jess Ainscough, sem heitir Millie í þáttunum, laut í lægra haldi fyrir krabbanum og lést aðeins 29 ára.

Hataðasta kona Ástralíu?

Upp komast svik um síðir og lygar og svik Gibson voru að lokum afhjúpuð af blaðamönnum sem komust að hinu sanna. Penguin afturkallaði bókina og Apple lokaði appinu, en í blaðaviðtali og sjónvarpsviðtali hélt hún því fram að hún hefði aldrei logið, heldur að mögulega hefði hún verið ranglega greind með krabbamein. Hún hefur aldrei beðist afsökunar.

Árið 2017 var hún dæmd sek um svik og fékk sekt upp á 410.000 $ en ekkert fékkst upp í þá sekt. Sagt er að Gibson sé skilin og búi í úthverfi Melbourne. Í Vanity Fair er því haldið fram að hvorki vinir né fjölskylda tali við þessa mest hötuðu konu í Ástralíu.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir