Stykkishólmur Frystihús Sigurðar Ágústssonar og Kaupfélags Stykkishólms voru burðarásar í atvinnulífi Hólmara í tugi ára. Hlutverki þeirra er lokið.
Stykkishólmur Frystihús Sigurðar Ágústssonar og Kaupfélags Stykkishólms voru burðarásar í atvinnulífi Hólmara í tugi ára. Hlutverki þeirra er lokið. — Morgunblaðið/Gunnlaugur A. Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agustson-reitur í gamla hluta Stykkishólms tekur miklum breytingum ef tillögur að nýrri uppbyggingu á svæðinu verða samþykktar. Tillögurnar gera ráð fyrir mikilli og glæsilegri uppbyggingu en verkefnið er á forræði lóðarhafa

Úr bæjarlífinu

Gunnlaugur A. Árnason

Stykkishólmi

Agustson-reitur í gamla hluta Stykkishólms tekur miklum breytingum ef tillögur að nýrri uppbyggingu á svæðinu verða samþykktar. Tillögurnar gera ráð fyrir mikilli og glæsilegri uppbyggingu en verkefnið er á forræði lóðarhafa. Augljós metnaður er fyrir verkefninu og verður áhugavert að fylgjast með framvindu málsins. Markmiðið er að þetta mikilvæga svæði í hjarta Stykkishólms verði styrkt frá því sem nú er og reynt eftir bestu getu að laga uppbygginguna að næsta umhverfi.

Reiturinn tekur til þriggja lóða; Aðalgötu 1, Austurgötu 1 og Austurgötu 2. Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir hóteli með samkomu- og ráðstefnusal, verslunar- og þjónusturýmum og bílastæðakjallara á Austurgötu 1, einnig íbúðabyggingu með verslun og þjónustu á neðri hæð á Austurgötu 2. Tang og Riis-húsið er friðuð bygging við Aðalgötu 1 og verður óbreytt.

Opið hús vegna vinnslutillagnanna verður haldið í Amtbókasafninu í Stykkishólmi miðvikudaginn 26. febrúar næstkomandi kl. 16-18.

Ferjan Baldur og rekstur hennar er í óvissu frá og með 1. júní nk. Tilboð í reksturinn til næstu þriggja ára voru opnuð hjá Vegagerðinni í byrjun desember. Þrjú tilboð bárust og var núverandi rekstraraðili með langhæsta tilboðið. Útboðið var kært til kærunefndar útboðsmála í byrjun árs og er málið þar enn óafgreitt. Á meðan er ekki hægt að taka afstöðu til tilboðanna og tíminn líður.

Samningurinn við Sæferðir ehf. hefur verið lengdur til 1. júní nk. Það vekur athygli mína að undanfarna mánuði sést varla að flutningabílar sem eru á leið til og frá Vestfjörðum noti ferðir Baldurs. Hvernig sem á því stendur? Aðaltilgangur með rekstri ferjunnar er einmitt að þjóna þeim og öðrum yfir vetrartímann.

ISEA ehf. er fyrirtæki sem stofnað var fyrir nokkrum árum. Tilgangur félagsins er þangöflun, þurrkun og fullvinnsla verðmætra efna úr þangi. Líkt og þekkist í frumkvöðlaverkefnum þá ganga sumir hlutir vel en það blés líka oft á móti og félagið missti t.d. byggingarleyfi sem félagið, ISEA, hafði fengið til nýbyggingar á þörungavinnslu. Þessi misserin er ISEA að taka fyrstu skrefin að uppbyggingu fullvinnsluframleiðslu í húsnæði við Hamraenda 1, þar sem áður var fisk-, skel- og hrognavinnsla.

Félagið hefur náð samningum við spænskan aðila um þátttöku í uppbyggingunni sem og að styðja við tækniuppbyggingu og mikilvægum markaðsaðgangi fyrir þörungaafurðir. ISEA ehf. stefnir að því að hafa opið hús fyrir bæjarbúa í lok apríl þegar stefnt er að fyrsti áfangi þörungavinnslunnar verði tilbúinn.

Vigraholt ehf. hefur keypt 135 hektara spildu við Vigrafjörð úr landi Saura í Helgafellssveit. Félagið hefur skipulagt landið og eru miklar framkvæmdir fram undan á næstu árum. Gert er ráð fyrir 33 frístundalóðum sem leyfa gestahús, 10 lóðir fyrir íbúðabyggð og heilsutengdu hóteli með 60 herbergjum, veitingahúsi, baðlóni og brugghúsi. Þegar uppbyggingunni lýkur er áætlað að verkefnið skapi 40 ný heilsársstörf.

Hræðileg helgi í Stykkishólmi er ekki uppörvandi sem fyrirsögn. Helgin var ekki svo slæm þegar á reyndi. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá sem fjallaði um glæpi og drauga. Gestir gátu m.a. spreytt sig á morðgátu. Heimafólk hafði lagt mikið púður í að útbúa morðgátu og sviðsetja vettvang glæps á Höfðaborg, gömlu heimavistinni í Stykkishólmi. Þar gátu áhugasamir rannsakendur spókað sig um og leitað vísbendinga til að upplýsa málið.

Júlíana, hátíð sögu og bóka, fer fram dagana 20.- 22. mars. Hátíðin var fyrst haldin árið 2013 og er nú orðin rótgróinn liður í lista- og menningarlífi Hólmara. Sem fyrr verður metnaðarfull dagskrá þar sem rithöfundar, ljóðskáld og fleiri listamenn stíga á stokk. Í ár verður hátíðin haldin í tólfta sinn. Frítt er á alla viðburði hátíðarinnar.

Brák íbúðarfélag sveitarfélaga hefur samið um byggingu 16 íbúða í Stykkishólmi. Íbúðirnar munu rísa í Víkurhverfi og mun Brák kaupa 12 íbúðir. Því til viðbótar verða byggðar fjórar íbúðir sem seldar verða á almennum markaði. Með þessu verkefni er sveitarfélagið að sýna í verki að það sé þátttakandi í sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga um stóraukið framboð fjölbreyttra íbúðakosta. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í sumar.

Fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækir Hólminn á þessum árstíma kemur frá Kína og öðrum löndum Austur-Asíu. Svo virðist sem margir þeirra séu í pílagrímsferð til að upplifa staðinn þar sem kvikmyndin The Secret Life of Walter Mitty með leikaranum Ben Stiller var tekin. Ferðamennirnir taka á sprett frá Gamla apótekinu niður að höfn og hoppa upp í loftið eins Ben Stiller gerði í myndinni þegar hann lagði á flótta með þyrlu. Kvikmyndatakan fór fram haustið 2012, eða fyrir 13 árum, og sýnir hvað áhrif myndarinnar lifa lengi.

Höf.: Gunnlaugur A. Árnason