Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Gervigreind er orðin mál málanna í framhaldsskólum. Góð reynsla þykir hafa fengist í þessu með starfi þverfaglegs hóps í Tækniskólanum sem kennir á K2 Tækni- og vísindaleið, stúdentsbraut í bekkjakerfi. Áfangi um gervigreind var í fyrsta skipti kenndur á haustönn í fyrra og er aftur á dagskrá næsta haust. Kennarar skólans þróuðu áfangann frá grunni, meðal annars með það í huga að í gervigreind gerast hlutir nú hratt og markverðar nýjungar koma reglulega inn.
Byltingin er hröð
„Byltingin er hröð og öll erum við farin daglega að nota gervigreind. Nemendur eru ótrúlega fljótir að setja sig inn í málin, mun fljótari en við sem eldri erum. Því er mikilvægt að tryggja stöðuga fræðslu og þjálfun fyrir okkur sem störfum í skólunum, því ella missum við af lestinni,“ segir Úlfar Harri Elíasson, kennari og fagstjóri raungreina í Tækniskólanum. Tölvuver í húsi skólans við Háteigsveg í Reykjavík fangar athyglina; tæki og skjáir sem gætu minnt á geimskip. Hér er greinilega eitthvað mikið í gangi!
Önnur, auk Úlfars, sem komu að þróun og kennslu í þessum námsáfanga eru Sigríður H. Pálsdóttir, brautarstjóri K2 og kennari í ensku og frumkvöðlafræði, Katrín Jóna Svavarsdóttir, fagstjóri í íslensku, og Gunnar Marel Hinriksson, kennari í vísindasögu, umhverfisfræði og tölvuleikjafræði.
Valdefling og frumkvæði
„Eitt sem við skoðuðum við hönnun áfangans var hvort skólasamfélagið væri tilbúið fyrir gervigreindarbyltinguna. Einnig hvað við, sem fagfólk í kennslu, gætum gert til að búa nemendur undir tækifæri og áskoranir. Okkur fannst áríðandi að kynna nemendum leiðir til að vinna markvisst með tæknina svo að úr yrðu raunveruleg verðmæti, ekki fálmkennt og óábyrgt forskot,“ segir Sigríður.
Gervigreindaráfanginn nýtur atfylgis starfsþróunarsjóðs Tækniskólans og í umsókn þangað var tiltekið mikilvægi þess að nemendur fyndu að kraftur nýrrar tækni fæli í sér tækifæri, ekki ógnir. Einnig að námið valdefldi, styddi við frumkvöðlahugsun, tilraunir og samstarf þvert á deildir. Þetta segir Sigríður að hafi gefið góða raun. Með samstarfi kennara þvert á námsgreinar sé gerlegt að skoða gervigreind út frá ólíkum sjónarhornum. Þar megi nefna í fyrsta lagi verkefni þar sem siðferðileg álitamál, svo sem framgangur spunagreindar og hlutdrægnin í kerfinu, hafa verið rædd. Eins er fjallað um þá feykimiklu orku sem þarf til að knýja bæði þjálfun gervigreindarmódela og daglega notkun þeirra.
Annar þáttur í áfanganum er afl tækninnar; hvernig gervigreind getur létt vinnu og gefið ráð. Praktíkin í paradísinni er yfirskrift enn eins hlutans, en þar er tekin fyrir nýsköpun í skólastofunni sem þessu fylgir; óþrjótandi tækifæri og áskoranir sem fylgja. Gervigreindaráfanginn er opinn öllum nemendum Tækniskólans og sóttu hann alls 31 nemandi á haustönn; nemendur af K2, sem og nemendur í ljósmyndun, grafískri miðlun, hönnun og af tölvubraut.
Hvatt til skapandi lausna
„Fólk á aldrinum 16-33 ára er fætt inn í snjalltækjabyltinguna; fyrir því er tæknin nánast sem móðurmál. Þessir nemendur eru fljótir að tileinka sér nýja tækni og notkun verkfæra eins og gervigreind. Ég hef af því áhyggjur að til verði einhvers konar stafræn gjá milli nemenda og kennara. Að við sem sinnum kennslunni náum ekki að halda í við tæknina, skilja hana og tileinka okkur hana á markvissan hátt í starfinu. Kennarar ættu þó að vera í góðri stöðu til að miðla mikilvægri þekkingu til nemenda, benda á dýpra samhengi og gagnrýna nálgun á viðfangsefnið,“ segir Sigríður og heldur áfram:
„Námsmatið í áfanganum er fjölbreytt og við hvetjum til skapandi lausna. Gervigreind snýst ekki bara um að læra hvernig tæknin virkar, heldur líka hvernig hún er notuð. Með því að blanda saman fyrirlestrum, verklegum æfingum, skapandi verkefnum og umræðum um siðferðileg álitaefni geta nemendur okkar þróað með sér hæfni sem gagnast þeim vonandi bæði í námi og starfi. Gervigreind breytir heiminum nú á áður óþekktum hraða,“ segir Sigríður og talar í þessu sambandi um drifkraft nútímans.
„Ég segi nemendum strax í upphafi að gervigreindartækni sé nýtt valdakerfi okkar tíma. Því er eðlilegt að hún veki bæði ótta og von. Það gerir það enn mikilvægara að kennarar efli gagnrýna hugsun nemenda, ræði opinskátt um hlutdrægni og áhrif tækninnar á menntun. Kenni mikilvægi samvinnu, ábyrgðar og siðferðislegra gilda. Hér er mikið í húfi.“
Gervigreindin er góð en nemarnir vita af hættunni
Órjúfanlegur hlutur af lífinu
Úlfar Harri Elíasson segir áhugavert að sjá á hve ólíkum forsendum nemendur nálgast gervigreind. Allir noti þeir mállíkön eins og ChatGPT í náminu, bæði þar sem þarf að vinna með texta eða reikna dæmi. Sumir láta gervigreindina gera fyrir sig útdrætti úr texta og glósur. Þá hafi nemendur greint frá reynslu sinni af því að nota gervigreind við tónsmíðar, skipuleggja fyrir sig íþróttaæfingar, mataræði og fleira.
„Að sjá hve mikilvægur og í raun órjúfanlegur hluti af lífi nemenda gervigreindin er þegar orðin er mjög upplýsandi. Nemendurnir eru allir meðvitaðir um hættur sem felast í því að láta gervigreindina taka yfir, í stað þess að hafa hana til stuðnings í því að öðlast betri skilning á hlutunum. En hér þarf allt að fylgjast að. Gervigreindin getur þegar gert mjög góðar ritgerðir og reiknað og útskýrt flest dæmi á menntaskólastigi, sem er frábært, þetta er eins og að hafa einkakennara. Draumur um einstaklingsmiðað nám er loks að verða að veruleika,“ segir Úlfar Harri að síðustu.
„Fyrir skólakerfið tekur alltaf sinn tíma að aðlagast breytingum. Það kom vel fram hjá nemendunum að enn er viss freistnivandi til staðar ef námsmat býður upp á að stytta sér leið með því að láta gervigreindina gera heilu verkefnin fyrir sig en ekki nýta hana til að öðlast betri skilning. Því þarf að aðlaga nám og námsmat og það þarf að gerast hratt. Nemendur sjálfir eru nefnilega mjög meðvitaðir um þetta og vilja auðvitað fá innihaldsríka menntun og forðast slíka notkun gervigreindar. Þau viðhorf eru mjög uppörvandi.“