Guðrún Angantýsdóttir fæddist þann 3. febrúar 1940 á Mallandi í Skagafirði. Hún lést á HSN Blönduósi 28. janúar 2025.
Hún var dóttir hjónanna Jóhönnu Jónasdóttur, f. 15.10. 1917, d. 7.8. 2020, og Angantýs Jónssonar, f. 11.5. 1910, d. 28.7. 1983. Þau skildu.
Systkini hennar eru Sigurbjörg Angantýsdóttir, f. 3.2. 1940, d. 10.9. 1997, hennar maður var Sigmar Jóhannesson, f. 20.3. 1936, d. 20.4. 2000; Bylgja Angantýsdóttir, f. 15.6. 1944, maður hennar er Halldór Einarsson, f. 20.6. 1944; Dagný Björk Hannesdóttir, f. 15.11. 1946, maður hennar var Karl Guðmundsson, f. 10.5. 1933, d. 11.12. 2011; Gísli Snorrason, f. 7.8. 1960, hans kona er Steinunn Berndsen, f. 9.5. 1963.
Guðrún gekk í hjónaband 30. maí 1958 með Indriða Stefáns Hjaltasyni, f. 13.8. 1930 á Siglufirði, d. 2.4. 2006 á Blönduósi.
Börn þeirra eru 1) Sigurbjörg Árdís, f. 1.1. 1959, maður hennar er Björn Ingi Óskarsson, f. 25.1. 1963. Þeirra synir eru a) Davíð Bragi, f. 30.4. 1981, faðir hans er Björgvin Ingvi Hrafnsson, f. 21.3. 1961. b) Þórður Indriði, f. 26.8. 1992, kona hans er Hrafnhildur Ýr Jóhannsdóttir, f. 30.3. 1993, dóttir þeirra er Bríet Björk, f. 10.6. 2020. c) Þórir Óskar, f. 26.8. 1992, kona hans er Matthildur Sigurðaróttir, f. 14.5. 1994, og dóttir þeirra er Viktoría, f. 1.9. 2023. 2) Hjalti Hólmar, f. 20.1. 1964, d. 17.11. 2020, hans kona var Cristina Siloud Yecyec, f. 14.4. 1971, þau skildu. Sonur þeirra er Indriði Theodór, f. 20.5. 1995. 3) Jón Hilmar, f. 15.8. 1968, kona hans er Kristín Theodóra Hreinsdóttir, f. 18.8. 1968. Börn þeirra eru a) Hilda Guðrún, f 1.11. 1999. b) Stefán Tumi, f. 21.11. 2002. c) Daníel Máni, f. 7.5. 2013. 4) Jóhannes Heiðmar, f. 18.11. 1977, kona hans er Margrét Björk Magnúsdóttir, f. 22.11. 1982. Börn þeirra eru a) Magnús Dagur, f. 16.2. 2000. b) Alexander Tristan, f. 23.7. 2001. c) Guðbjörg Eva, f. 15.1. 2006.
Guðrún, ásamt tvíburasystur sinni Sigurbjörgu, ólst upp á Skagaströnd hjá móðurömmu sinni Sigurbjörgu Jónasdóttur eftir skilnað foreldra sinna. Hún var fyrst og fremst húsmóðir og hafði unun af því. Hún vann sem barnapía fyrst eftir fermingu ásamt tvíburasystur sinni. Síðar vann hún við fiskvinnslu og í sláturhúsi, og í mörg ár vann hún í Rækjuvinnslunni á Skagaströnd.
Hún elskaði að sauma út og prjóna. Hún hafði unun af því að ferðast og ferðuðust þau hjón mikið um landið sitt. Seinni árin fór hún töluvert í ferðir til útlanda með eldri börnum sínum.
Útför hennar fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag, 22. febrúar 2025, kl. 14.
Mamma mín var stórbrotin manneskja. Oftast í góðu skapi og í jafnvægi. En hún gat líka verið reið og í ójafnvægi. Mamma fór með okkur fjölskyldunni í fjölmargar sumarbústaðaferðir og seinni árin fór hún mikið erlendis með mér og mínum manni. Einnig var elsti bróðir minn mikið í för með okkur og mömmu. Við fórum til Norðurlandanna og keyrðum þar mikið um. Fórum til Berlínar í nokkur skipti. Fórum oft til Svíþjóðar þar sem miðjusonur hennar býr. Fórum til Tromsö í nokkur skipti saman til að heimsækja elsta barnabarnið hennar. Hún fór í bændaferð með Dagnýju systur sinni eitt árið og heimsótti nokkur lönd í Suður-Evrópu. Hún var líka búin að koma til Grænlands og Færeyja.
Mamma minnist oft á æsku sína þar sem hún bjó ásamt ömmu sinni og tvíburasystur í pínulitlu húsi við fjöruna í litla þorpinu Skagaströnd. Það var yndislegt að hlusta á hana segja frá lífinu þar og öllu fólkinu sem bjó í nágrenninu. Mamma var sífellt að gera eitthvað og var mikil hannyrðakona og einnig mikið fyrir að elda mat og baka. Það kunnu margir að meta því að sífellt voru einhverjir í kaffi og með því hjá henni.
Mamma elskaði barnabörnin sín mjög mikið og saknaði þess þegar þau öll voru farin frá Skagaströnd. Sama með börnin hennar en þau fóru burtu eitt af öðru og hófu líf á nýjum stöðum. Hún var því orðin svo til ein eftir ef undan er skilin systir hennar og vinkonur í kringum hana. Mamma var svo lánsöm að eiga mömmu á lífi þar til hún sjálf var orðin 80 ára.
Á hverjum morgni í mörg ár fóru hún og Dagný systir hennar að heimsækja mömmu sína og spjalla við hana. Fyrst á heimili hennar og síðar á Dvalarheimilinu. Þegar þessu tímabili lauk tóku þær systur upp þann sið að hringja hvor í aðra á hverjum morgni til að spjalla aðeins. Mamma varð fyrir mikilli sorg þegar tvíburasystir hennar veiktist og lést árið 1997. Einnig varð hún fyrir þeirri sorg að missa elsta son sinn árið 2020. Það var mjög þungbært henni því að hann var henni ætíð svo umhyggjusamur. Undanfarin ár var mamma oft lasin. Hún fékk að vera á Sæborg dvalarheimili aldraðra í tvö skipti í hvíldarinnlögn en vildi ekki vera þar til frambúðar því hún var allt of sjálfstæð til að hætta að hugsa um sig sjálf. Því fór hún heim að lokinni hvíldarinnlögn og hélt áfram að sjá um sig. Því miður var það oft andlega heilsa hennar sem bugaði hana og því var það að núna þegar hún veiktist er hugsanlegt að það hafi verið einblínt á þau veikindi en ekki það sem í raun og veru var að. Ég sjálf hélt að svo væri og var ekkert að hafa miklar áhyggjur af henni. Hún hafði oft áður glímt við þannig veikindi og risið upp en ekki núna. Núna var þetta líkamlegt og varð orsök þess að hún dó þann 28. janúar sl. Ég sagði oft við mömmu þegar ég hafði vit til að ég gæti ekki bakkað tímanum. Það var þegar ég var ekki eins og hún hefði kosið. Núna segi ég aftur að ég get ekki bakkað tímanum og verið þér betri og tekið meiri mark á því að þú værir í raun og veru mjög veik.
Árdís Indriðadóttir.