Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Nýskipuð Íslandsdeild NATO-þingsins sótti febrúarfundi þingsins í Brussel í vikunni, en þar áttu þingmenn kost á því að kynna sér starf þingsins og fara yfir stöðu alþjóðamála með embættismönnum og herforingjum Atlantshafsbandalagsins. Aðalmenn eru að þessu sinni þau Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Sjálfstæðisflokki, og Sigmar Guðmundsson úr Viðreisn.
Dagur, sem jafnframt er formaður deildarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi sóst eftir því að leiða sendinefnd Íslands gagnvart NATO-þinginu þar sem nú séu gríðarlega miklar breytingar fram undan og margt í húfi í varnar- og öryggismálum Íslands. „Og eftir að kjörið var í alþjóðanefndir Alþingis hefur atburðarásin verið á fleygiferð,“ segir Dagur.
NATO-þingið var stofnað árið 1955 og fagnar því nú 70 ára afmæli sínu á þessu ári. Dagur segir það óneitanlega hafa verið sérstaka tilfinningu að sækja fund hjá slíkri stofnun með jafnlanga sögu og þá tengingu við Atlantshafsbandalagið sem NATO-þingið hefur.
Dagur segir að ljóst sé að Bandaríkin hafi verið lykilríki í bandalaginu frá upphafi, og að ríki Evrópu hafi að vissu leyti hvílt í trausti þess að Bandaríkin væru kjölfestan í viðbúnaði og vörnum Evrópu. Þannig hafi allur almenningur talið eftir fall Berlínarmúrsins að nú væru komnir varanlegir friðartímar í Evrópu og því hægt að verja fjármunum sínum í aðra hluti en varnarmál.
„Mín kynslóð og margar fleiri töldu langlíklegast eftir fall múrsins að Rússar myndu aldrei efna til ófriðar gegn Evrópu, en nágrannar þeirra í Eystrasaltsríkjunum og í Úkraínu höfðu annað stöðumat,“ segir Dagur. Innrás Rússa árið 2014 opnaði augu margra og innrásin 2022 opnaði augu nær allra fyrir því að nú væru breyttir tímar. „Þá auðvitað sögðu Eystrasaltsríkin, við sögðum ykkur þetta, og innrásin var endanlega til marks um að Evrópa þyrfti að hugsa sinn gang, enda hefur stöðumatið breyst og framlög til varnarmála aukist mjög síðan.“
„Stóra breytingin núna er að ýmsar yfirlýsingar ráðamanna nýrrar Bandaríkjastjórnar má skilja í þá veru að þetta sameiginlega hættumat, að mesta hættan stafi af Rússum, gildi ekki lengur,“ segir Dagur og vísar m.a. í ummæli Bandaríkjaforseta um að Úkraína hafi átt upptökin að innrás Rússa, sem og orðræðu um að nú þurfi ríki Evrópu að sjá um sig.
„Þetta er auðvitað allt annar tónn frá því sem var,“ segir Dagur og bendir á að á 75 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins hafi verið haldinn stór leiðtogafundur í Washington, þar sem gefnar voru út mjög skýrar og sameiginlegar yfirlýsingar, bæði um að lykilhættan væri af hendi Rússa, sem og eindreginn stuðningur við Úkraínu og fullveldi þeirra, sem og að stefnt væri að aðild Úkraínu að NATO.
„Þannig að það eru spurningarmerki við marga lykilþætti og rykið ekki alveg sest, en viðbrögð Evrópuríkja hafa verið að þétta raðirnar og tala saman, og ekki bara þau, heldur einnig ríki á borð við Kanada, sem er í NATO en ekki í Evrópu eða Evrópusambandinu.“
NATO hefur byggt á samstöðu
Dagur segir aðspurður að umræða um þessi mál hafi vitanlega borið á góma á fundi NATO-þingsins í vikunni. „Það tala auðvitað allir varlega, því NATO hefur verið byggt á samstöðu alla tíð, en það sem hefur vakið gríðarlega sterk viðbrögð og áhyggjur er orð sem hafa verið látin falla sem í raun vega að fullveldi nánustu bandamanna Bandaríkjanna,“ segir Dagur og vísar þar í orðræðu Trumps um að gera Kanada að 51. ríki Bandaríkjanna og að Bandaríkin fái full yfirráð yfir Grænlandi.
„Það vakti auðvitað sérstaka athygli að forsætisráðherra Danmerkur fór í kjölfarið á fund stærstu bandalagsþjóðanna innan Evrópu og fékk stuðning frá þeim, og nú á þessum fundum sem Macron Frakklandsforseti hefur verið að halda um stöðu Evrópu eru Kanadamenn hafðir með. Þannig að fólk er að ráða ráðum sínum og bregðast mjög hratt við.“
Ríkir einhver óvissa meðal NATO-þingmanna um hvernig framhaldið geti þróast?
„Ég held að mjög margir deili áhyggjum af viðræðum um frið í Úkraínu. Auðvitað vilja allir frið í Úkraínu, en einfaldasta leiðin til þess er að Rússar dragi herlið sitt til baka frá Úkraínu,“ segir Dagur og bætir við að friðarferlið sem nú sé komið af stað veki spurningar um hvort um stefnubreytingu sé að ræða.
„Ég held að augu mjög margra séu á leiðtogafundi NATO sem verður í Haag í byrjun sumars og hvort þar verði rætt um formlega stefnubreytingu á þeim samþykktum sem NATO hefur gert, því að þeir sem tala róandi inn í ástandið núna minna á að í raun hafi ekkert formlegt breyst. Aðrir benda á að í raun sé ekki hægt að skilja orðin og yfirlýsingarnar öðruvísi en að grundvallarviðhorfsbreyting sé í farvatninu í Bandaríkjunum og að ríki Evrópu þurfi að taka það alvarlega og endurmeta stöðuna.“
Spurður hvort líklegt sé að ríkin muni þar samþykkja hækkun á hinu svonefnda 2%-marki segir Dagur stöðuna hafa þróast mjög hratt. „Það eru ekki mörg ár síðan það voru bara 2-3 lönd sem náðu þessum 2% en nú eru 2/3 allra NATO-þjóða komnar í það mark, og þau lönd sem eru næst Rússlandi eru sum komin fast að 5% eins og Pólverjar. Mér kæmi því ekki á óvart að markið yrði sett hærra.“
Dagur bendir á að innganga Svía og Finna í NATO sýni að hlutir geti gerst mjög hratt þegar hættumatið breytist. „Það var auðvitað risastórt skref sem þær þjóðir tóku þegar þær gengu í NATO þvert á langvarandi hlutleysisstefnu sína og afstöðu til Rússlands. Þessi breyting var í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Ísland og önnur Evrópuríki þurfa nú að meta breytta stöðu frá öllum hliðum, þótt það sé ekki nýtt að Bandaríkjamenn þrýsti á um aukin framlög til varnarmála.“
Engin ósk eftir íslenskum her
En hvernig er staða Íslands á þessum tímum? Verður óskað eftir því að við hækkum okkar framlag líka?
„Við erum sannarlega hluti af NATO og verðum áfram, við erum hluti af Evrópu og verðum áfram. Við verðum að fylgjast með og taka virkan þátt í umræðunni og henni, bæði innan NATO og, líkt og Norðmenn gera, innan Evrópu.“
Dagur bendir á að ný ríkisstjórn ætli sér að setja varnarstefnu fyrir Ísland ofan á þá þjóðaröryggisstefnu sem nú er. „Í því felst auðvitað að uppfæra hættumat og mat á því hvaða aðstaða þurfi að vera hér,“ segir Dagur.
„Það er enginn að kalla eftir stofnun íslensks hers, ég spurði sérstaklega um það, en það er vilji frekar til þess að við leggjum til aðstöðu og byggjum upp okkar borgaralegu innviði svo að við getum sinnt okkar hlutverki sem bandalagsríki og við höfum sjálfstæðan metnað til að tryggja hagsmuni Íslands og bæta eigin innviði í hvívetna.“