Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
Kennarar gengu í gær fyrirvaralaust út úr skólum víða í kjölfar þess að ríki og sveitarfélög höfnuðu innanhústillögu ríkissáttasemjara.
Í fyrrakvöld samþykktu kennarar innanhústillögu Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara. Tillagan sjálf er umdeild að ýmsu leyti en þó ekki síst vegna þess að Ástráður sagði að hún hefði verið lögð fram með samþykki allra aðila. Í tilkynningu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) er því hins vegar vísað á bug.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var Heiðu Björgu Hilmisdóttur, formanni SÍS, mjög annt um að fá tillöguna fram þrátt fyrir lítinn sem engan stuðning stjórnar SÍS. Heiða segir í samtali við Morgunblaðið að hún hefði sjálf kosið með tillögunni en hún komst ekki á fund stjórnarinnar.
Maður hefur heyrt að þú hafir gefið ríkissáttasemjara vilyrði fyrir því að sambandið myndi samþykkja miðlunartillöguna en stjórnin hafi svo ekki verið sammála því?
„Nei, það er einhver misskilningur. En það hefur ekki farið framhjá neinum að ég hefði samþykkt tillöguna,“ segir Heiða.
Eins og áður sagði sótti Heiða ekki fund stjórnar SÍS þar sem tillagan var tekin fyrir. Hún kveðst hafa óskað eftir því að fá símtal þegar til atkvæðagreiðslu kæmi en það hafi hins vegar aldrei komið.
„Ég var búin að bóka mig á annan fund í gærkvöldi [fyrrakvöld] þegar þau ræddu þetta en ég bað um að það yrði hringt í mig þegar til atkvæðagreiðslu kæmi, en það var ekki gert,“ segir hún. Heiða tók við sem borgarstjóri í gær í Ráðhúsi Reykjavíkur í kjölfar þess að meirihluti Samfylkingar, Flokks fólksins, Pírata, Sósíalista og Vinstri grænna var kynntur. Kennarar fjölmenntu á fyrsta borgarstjórnarfund meirihlutans.