Alþingi Vilhjálmur Árnason er ritari Sjálfstæðisflokksins.
Alþingi Vilhjálmur Árnason er ritari Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, hafnar því alfarið að Sjálfstæðisflokknum beri að endurgreiða nokkuð af þeim styrkjum sem flokkurinn hefur fengið á undanförnum árum. Guðrún Hafsteinsdóttir, sem er formannsframbjóðandi á landsfundi…

Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, hafnar því alfarið að Sjálfstæðisflokknum beri að endurgreiða nokkuð af þeim styrkjum sem flokkurinn hefur fengið á undanförnum árum.

Guðrún Hafsteinsdóttir, sem er formannsframbjóðandi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um aðra helgi, lét það sjónarmið í ljós í viðtali í Spursmálum sem sýnd voru í gær. Hún telur rétt að endurgreiða styrki fyrir árið 2022, en þeir námu rúmum 160 milljónum króna.

„Við erum búin að fara vel yfir málið, við gerðum ekkert rangt, gerðum þvert á móti allt rétt og á tilsettum tíma. Svo ég átta mig ekki á því á hvaða forsendum henni finnst að við eigum að gera þetta einhvern veginn öðru vísi,“ segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að farið hafi verið vendilega yfir málið á undanförnum dögum, niðurstaðan hafi verið skýr og staðfest jafnt af lögfræðingum, fjölmiðlum og hinu opinbera. Um það hafi verið gefin yfirlýsing, sem ekki hafi verið ágreiningur um til þessa.

„Hún verður náttúrlega að svara fyrir það ef henni finnst yfir­lýsing flokksins ekki nógu skýr. Og eins ef þetta er kosningaloforð hennar, verði hún kjörin formaður flokksins, að endurgreiða þessi framlög í ríkissjóð. En það er ekki afstaða flokksins, núverandi forystu hans eða þingflokksins,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn gangist fyrir öflugu starfi um land allt en sé sniðinn þröngur stakkur í fjáröflun. Meðal svo sé hafi flokkurinn enga burði til að greiða slíka fjármuni þótt flokksmenn vildu.