Vandað var til verka þegar Bókastofan var innréttuð árið 1984.
Vandað var til verka þegar Bókastofan var innréttuð árið 1984. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mín afstaða frá upphafi hefur verið að virða algjörlega það sem foreldrar mínir gerðu og halda í þeirra stíl.

Haustið 1984, þegar prentarar voru í verkfalli og enginn Moggi kom út í nokkrar vikur, notuðu blaðamenn tímann til að safna í sarpinn. Þannig lagði Sigtryggur Sigtryggsson fréttastjóri, sem alla jafna stýrði aðgerðum á ritstjórninni, leið sína á Hótel Holt, þar sem gagngerum breytingum og endurbótum var nýlega lokið. Fékk hann að skoða hótelið í krók og kima í fylgd Skúla Þorvaldssonar hótelstjóra. Greinin birtist svo í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins 18. nóvember 1984, þegar verkfallinu var lokið, undir fyrirsögninni Allt endurnýjað nema viðmótið.

Grípum aðeins niður í grein Sigtryggs. „Í sumar var tekið í notkun á götuhæð nýtt bókaherbergi, sem nýtur mjög mikilla vinsælda. Bókaherbergið er ætlað öllum gestum hótelsins. Þar geta menn setið í næði og rabbað saman, lesið, unnið við skriftir og fengið framreitt kaffi eða aðra drykki að loknum málsverði. Bókaherbergið er afar vel búið, veggir og bókaskápur úr dökku mahogany. Í bókahillum eru verðmætar bækur, sem hótelið hefur eignast. Húsgögnin eru þægileg leðurhúsgögn, valin af Skúla. Hann hefur leitað lengi að réttum húsgögnum og fann þau loks hjá verksmiðju einni á Ítalíu. Slík húsgögn, ásamt glæsilegum listaverkum, eru eins konar vörumerki hótelsins, og eru gott dæmi um þá nákvæmni sem ríkir þegar ákvarðanir eru teknar um búnað og útlit Hótels Holts.“

Í byrjun þessa árs birtist í Morgunblaðinu viðtal við Björn Jörund Friðbjörnsson og Daníel Ágúst Haraldsson vegna útgáfu á nýrri breiðskífu hljómsveitarinnar sívinsælu Nýdönsk og á mynd sem fylgdi með sátu þeir fóstbræður ansi hreint makindalegir í téðum leðursófum á Holtinu. Það fór ekki framhjá Sigtryggi, sem enn vinnur á blaðinu, og hann hugsaði með sér: „Þetta eru nákvæmlega sömu leðursófarnir og voru þegar ég heimsótti Holtið fyrir rúmum 40 árum og allt virðist óbreytt í Bókaherberginu.“

Þetta varð til þess að Sigtryggur gerði sér ferð yfir salinn hér í Hádegismóum til að heimsækja sunnudagsritstjórnina. Var honum vel tekið, sem endranær. Niðurstaða þess fundar varð sú að greinarhöfundur og Árni Sæberg ljósmyndari tóku að sér að heimsækja Holtið og fá þetta á hreint.

Ekkert hefur breyst

Fyrir svörum varð eigandinn sjálfur, Geirlaug Þorvaldsdóttir, sem átt hefur Hótel Holt í 21 ár, en hún er jafnframt systir Skúla sem tók á móti Sigtryggi fyrir rúmum 40 árum. Þau eru vitaskuld börn stofnenda hótelsins, Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur.

„Ég held ég megi fullyrða að ekkert hafi breyst frá því þessi stofa var tekin í notkun; ég hef alla vega ekki breytt neinu frá því að ég tók við,“ upplýsir Geirlaug. „Mín afstaða frá upphafi hefur verið að virða algjörlega það sem foreldrar mínir gerðu og halda í þeirra stíl. Það var Gunnar Magnússon sem var hönnuður hótelsins frá upphafi, í samvinnu við foreldra mína.“

Hún telur mjög líklegt að sömu málverk séu á veggjum og 1984 en sem kunnugt er þá er þriðja hlutann af málverkasafni foreldra hennar að finna á Holtinu, Listasafn Íslands varðveitir tvo þriðju.

Ég læt fara vel um mig í leðrinu og Geirlaug segir engin áform um að skipta því út. „Þetta eru mjög vandaðar mublur sem ætla bara ekki að slitna. Þess utan er klassískur bragur á þeim. Það stendur ekki til að breyta einu eða neinu hérna. Bókastofan verður svona áfram – alla vega meðan húsgögnin endast og ég fæ einhverju um það ráðið. En maður veit aldrei hvað verður eftir sinn dag. Ég er með mjög góðan hótelstjóra núna sem ber virðingu fyrir þessari sýn. Pétur Ármannsson hjá Minjastofnun hefur heimsótt okkur og er mjög ánægður með þetta viðhorf.“

Eins og við þekkjum þá fer tískan í tóma hringi og flest sem dettur úr tísku kemst á endanum aftur inn í hlýjuna. „Fyrir vikið getur verið varasamt að breyta,“ segir Geirlaug og skellir upp úr.

Þess má geta að hún er nýbúin að láta fara yfir hvað sé friðað í húsinu og þar á meðal er allt naglfast á fyrstu hæðinni.

Búðin áður á sama stað

Eins og margir muna þá hafði fyrirtækið Síld og fiskur, sem Þorvaldur Guðmundsson átti og rak, um árabil verslun í sama húsi og hótelið, við Bergstaðastræti. 1980 flutti fyrirtækið alla sína starfsemi til Hafnarfjarðar og skapaðist þá möguleiki til breytinga og endurbóta á götuhæð hótelsins. Fyrst var hafist handa við stækkun gestamóttöku og setustofu, sem áður var bæði lítil og óhentug. Jafnframt var innréttaður rúmgóður og vistlegur bar. Lítill bar var áður inn af matsal, en það fyrirkomulag var óhentugt. Var gamli barinn því innréttaður sem viðbót við matsalinn, en jafnframt mátti nota hann fyrir allt að 15 manna lokaða hádegis- eða kvöldverðarfundi, að því er fram kom í Morgunblaðinu 1984. Voru þessar breytingar mjög til bóta að sögn Skúla Þorvaldssonar.

Einhverjir þekkja Bókastofuna ábyggilega undir nafninu Koníaksstofan enda var þar á sinni tíð vinsælt að drekka koníak og reykja vindla. Eftir að reykingar voru bannaðar innan dyra dró verulega úr koníaksdrykkju í stofunni, þannig að segja má að hún hafi endurheimt sitt upprunalega nafn, Bókastofan. Einhver bið verður líklega á því að bækur verði bannaðar í húsum.

Geirlaug segir hótelgesti hafa mikið dálæti á Bókastofunni og njóti þar gjarnan kyrrðar og léttra veitinga. Þá sé stofan einnig vinsæl hjá litlum hópum sem koma utan úr bæ til að funda. Þá er gjarnan lokað fram í lobbíið til að tryggja betra næði.

Alltaf líf of fjör

Hótel Holt fagnaði sextugsafmæli sínu fyrr í mánuðinum og af því tilefni var veitingastaðurinn opnaður á ný eftir nokkurra ára hlé. Geirlaug segir það ánægjulegan áfanga. Yfirkokkur er Gunnar Páll Rúnarsson. Þá verður áfram tekið á móti hópum. Eins hefur Barinn á Holtinu fengið upplyftingu, meðal annars með djasskvöldum. „Það er alltaf líf og fjör hjá okkur. Hótel Holt er og verður lifandi staður!“

Höf.: Orri Páll Ormarsson