Arinbjörn Rögnvaldsson
arir@mbl.is
Einar Hermannsson og Ásgeir Örn Þorsteinsson, eigendur fyrstu leigumiðlunar með flugvélar hér landi, segja reksturinn hafa gengið vonum framar frá því að Leiguflug ehf., eða Air Broker Iceland, hóf störf í byrjun síðasta árs.
„Fyrsta árið í rekstri hefur farið fram úr björtustu vonum. Það er greinilegt að mikil þörf er fyrir svona þjónustu á Íslandi. Það er ekki bara hjá Íslendingum, heldur einnig á meðal erlendra aðila sem þekkja ekki vel til aðstæðna, bæði á Grænlandi og hérlendis. Grænland hefur verið vinsælt síðustu mánuði, m.a. vegna umfjöllunar í kjölfar þess að Donald Trump forseti Bandaríkjanna lýsti yfir áhuga sínum á að kaupa landið,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið.
Flugvélar af öllum stærðum
Ásgeir segir að þetta ár byrji af krafti og hefur félagið útvíkkað starfsemina frá höfuðborgarsvæðinu og opnað starfsstöð á Akureyri. Spurður nánar um reksturinn segir Ásgeir að Air Broker hafi aðgang að 8.000 einkaþotum og 1.000 farþegaþotum auk fjölda flugvéla og þyrlna af öllum stærðum og gerðum bæði hér innanlands og erlendis.
„Starfsemi okkar einskorðast ekki endilega við Ísland og Grænland. Það sem við gerum í raun er að útvega vélar fyrir alla þá sem þurfa að fljúga, hvort sem það er á einkaþotum á milli landa eða farþegaþotum fyrir stóra hópa innan Evrópu. Við þjónustum bæði innlenda og erlenda aðila,“ útskýrir Ásgeir.
Aðspurður segir Einar að þeir útvegi einnig leiguflug til sértækra áfangastaða eins og Grænlands og Svalbarða, auk hefðbundinna áfangastaða fyrir ferðaskrifstofur.
„Við báðir höfum starfað lengi í flugbransanum og höfum því komið okkur upp góðu tengslaneti. Það hefur veitt okkur góða stöðu til að fá besta verðið fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Ásgeir og bætir við: „Meðal helstu kúnna okkar eru ferðaskrifstofur, kvikmyndafyrirtæki, stórfyrirtæki, opinberar stofnanir og íþróttahópar. Einnig er þó nokkuð af einstaklingum sem fljúga innan Evrópu með einkaþotum. Má því segja að þetta sé fjölbreyttur hópur fólks og fyrirtækja sem leitar til okkar.“
Að þeirra sögn er í raun öll flóran af viðskiptavinum sem óskar eftir flugvélum til leigu. En iðulega eru það efnaðir einstaklingar eða stórir aðilar sem hafa fjárhagslegt bolmagn til að leigja flugvélar, stundum með skömmum fyrirvara.
„Við vorum t.d. með einn kúnna um daginn sem var að ganga upp Hvannadalshnjúk. Hann þurfti að komast með nokkru hraði til Rómar. Hann var sóttur með þyrlu á hnjúkinn, sem flaug svo til Hafnar í Hornafirði, en þar beið eftir honum einkaflugvél. Sú vél flaug til Egilsstaða. Kúnninn hélt svo þaðan til Rómar með einkaþotu,“ segir Einar.
Ásgeir segir að þeir hafi fengið hinar ótrúlegustu fyrirspurnir frá einstaklingum og fyrirtækjum um leiguflug til áfangastaða sem alls ekki séu beinlínis á allra vörum. Komi slíkt upp reyni þeir að hugsa út fyrir boxið og segja aldrei nei við nokkurri fyrirspurn.