Hrólfur Hreiðarsson fæddist 17. janúar 1979. Hann lést 7. febrúar 2025.
Útför Hrólfs fór fram 21. febrúar 2025.
Mönnum eins og Hrólfi er aldrei hægt að gleyma. Allt sem hann sagði, gaf og gerði var vandað, traust, gott og öðrum til eftirbreytni. Það mun lifa með okkur áfram.
Orð sem koma upp í hugann og lýsa honum eru; hugrakkur, sannur, hugmyndaríkur, laghentur, fyndinn, hæverskur, glaður, íhugull, brosmildur, lítillátur, greiðvikinn, tryggur og traustur. Hann var fjölskyldumaður, umhyggjusamur, hjálpsamur, staðfastur, stríðinn, kjarkmikill, ljómandi og hlýr með djúpan skilning á innsta kjarna og tengslum okkar allra.
Hrólfur var örlátur á tíma og samúð og hann sýndi frumkvæði þegar þess var þörf. Hann vildi vel og sýndi fólki skilning, hann stóð með sannfæringu sinni og hjálpaði þegar hann gat. Lífshlaup hans var alltof stutt en um leið svo stórt og áhrifaríkt.
Þegar hvert og eitt okkar sem minnumst Hrólfs einsetjum okkur að rækta með okkur þó ekki væri nema einn af hans ótalmörgu kostum, þá gerum við heiminn betri, bjartari, kærleiksríkari.
Það er ljóst að maður eins og Hrólfur er vinamargur og elskaður. Að þekkja mann eins og hann er nærandi, að eiga hann að vini eru forréttindi. Við vorum samferða Hrólfi um stund og þökkum fyrir þá sérstöku gjöf.
Við brotthvarf Hrólfs er huggun að sjá það sem hluta af ferðalagi, breytingu á tilvist hans. Við finnum það í hjörtum okkar að nú dvelji Hrólfur á dásemdarstað og lýsi hann upp með tilvist sinni og fallegu sálarljósi.
Elsku Erna, Hróar, Emma, Alda, foreldrar, systkini og allir aðrir ættingjar og vinir. Megi þakklæti og minning um einstakan gæðadreng styrkja ykkur og styðja.
Hann leggur frá bryggju um bylgjandi sæ
brosir til framtíðarlanda
sú mynd sem örstutt á sjónhimnu næ
mun sefa og hugga minn anda
Hann stendur í stafni og starir á það
sem hugur og hjarta nú þráir
fagnar og breiðir út faðminn mót stað
hvar frelsi og kærleika sáir
(Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir)
Elsku Hrólfur, takk fyrir samfylgdina. Þínir vinir,
Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir, Martha Ernstdóttir, Elín Björk Guðbrandsdóttir, Sigurður Sigurbjörnsson, Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, Helgi Örn Viggósson, Margrét R. Jónasardóttir, Ágústa Árnadóttir,
Sigurður Bjarnason.
Það er komið að leiðarlokum. Yndislegur vinur okkar hefur kvatt eftir baráttu síðastliðna mánuði.
Það var ærið verkefni að fá upp í fangið fyrir hann og þá sem standa honum næst. Fréttirnar af veikindum Hrólfs komu sem þruma úr heiðskíru lofti, enda vonumst við öll til þess að fara í gegnum lífið án þess að þurfa að eiga við þess konar úthlutun úr lífsins sjóði.
Það var með miklu æðruleysi sem Hrólfur og fjölskyldan öll tókst á við þetta verkefni og mikil jákvæð orka og kraftur sem þau gáfu af sér. Það skynjaði maður og vissi að stuðningurinn væri mikill og mikils virði fyrir hann og þá sem stóðu honum næst. Ástin og kærleikurinn á milli hans og Ernu var sterkt afl og hvernig þau tækluðu erfiðar aðstæður var aðdáunarvert að fylgjast með.
Það eru margar minningarnar sem renna í gegnum huga okkar þegar við hugsum til elsku vinar okkar. Alltaf var hann tilbúinn að rétta hjálparhönd og gefa góð ráð. Það voru ófá símtöl sem Krissi og Hrólfur áttu varðandi húsbyggingar og viðhald, hvernig best væri að gera hlutina og að sjálfsögðu hvaða græjum þurfti á að halda. Jafnvel hvaða græjur þurfti að kaupa til þess að framkvæma hlutina. Þegar við giftum okkur þá stóð hann ekki hjá með hendur í vösum. Hann var hann mættur með lista af lögum og útfærslu á tónlist í veislunni, vissi upp á hár hvernig stemningin átti að vera hjá kúrekaliðinu og stóð vaktina allt kvöldið og fram á nótt með græjurnar sínar allar. Ennfremur klippti hann saman gæsunar- og steggjunarvídeó fyrir okkur sem er ómetanlegt að eiga.
Sérstaklega vænt þykir okkur um ferðina til Krítar árið 2013. Þar áttum við ellefu daga saman í sól og hita, endalaust af grísku salati, fetaosti og Mythos, foreldrafrí eins og þau gerast best. Við tókum þau með okkur upp í fjöllin til vina okkar þar og ég man að Hrólfur hafði á orði að það þyrfti að skrifa bók um þetta fólk, þessa menningu og þessa orku sem er í litla fjallaþorpinu „okkar“. Hver veit hvað verður en þakklát erum við fyrir þessa upplifun saman og þessar dásamlegu minningar. Þarna snerist allt um að njóta og slaka, og það er eitthvað sem við þurfum öll að muna eftir að gera meira af.
Elsku Erna okkar, Hróar, Emma og Alda, og fjölskyldan öll, megi orkan vera með ykkur áfram.
Ykkar vinir í dalnum,
Svava Björk, Kristmundur Anton, Bríet Björk, Emma Björk og Ásgeir Anton.
Mig langar að minnast vinar míns hans Hrólfs. Ég kynntist honum þegar Erna perluvinkona Önnu Siggu eiginkonu minnar fór að segja okkur frá þessum myndarpilti, en þá vorum við þrjú vinir í Borgarholtsskóla. Við Anna vorum á þeim tíma nýfarin að vera par og spennt að hitta kærastann Hrólf. Við vorum fljót að falla fyrir honum, enda reyndist Hrólfur vera alveg eðalgaur og við áttum eftir að vera vinir allar götur síðan.
Hrólfur var einn af þeim sem geta allt. Einstaklega laginn í höndunum, svakalega klár í öllum græjum og tækjum og skipulagður þannig að eftir var tekið. Og maður getur haldið áfram að tala um mannkosti Hrólfs, því hann var líka frábær tónlistarmaður. Í eftirminnilegri ferð á Laugarvatn hélt Hrólfur uppi stuðinu langt fram á nótt á gítarnum. Þarna vorum við öll krakkar – ekki farin að eignast börn sjálf og áhyggjur daglegs lífs takmarkaðar. Þá skipti öllu að djamma og syngja okkur hás af „Stál og hnífur“ og „Hjálpaðu mér upp“ en allir textarnir voru úr söngbók sem Hrólfur hafði snilldarlega sett saman fyrir einhverja útileguna.
Þrátt fyrir alla sína hæfileika var Hrólfur ekki að trana sér fram en var alltaf til ef á þurfti að halda. Ekki bara með gítarinn heldur líka hamarinn. Oft þurfti arkitektinn ég að spyrja smiðinn Hrólf hallærislegra spurninga og alltaf var hann til í að svara, fordómalaus og af ánægju.
Við dáðumst að því þegar þau Erna fóru í það stórvirki að byggja hús á Völlunum fyrir hrun. Þetta var einfalt plan – byrja á skúrnum og bæta við eftir þörfum og getu. Það var magnað hvað þau náðu að gera skúrinn huggulegan og við grínuðumst með það að mesta stórvirkið hefði verið að fá Ernu til að búa í bílskúr! En hver áfangi var sigur og upp úr grunninum reis stórkostlegt hús. Við vorum spennt að sjá útfærslur Hrólfs, sem einkenndust af hugsun út fyrir boxið og hann naut þess að segja hvað væri fram undan í framkvæmdunum. Þvílíkur snillingur sem þessi maður var. Hrólfur var fyrst og síðast fjölskyldumaður og lifði samkvæmt því. Húsið er einmitt sérhannað fyrir samveru fjölskyldu og vina. Verksmiðja sem framleiddi minningar, alveg eins og Hrólfur vildi.
Í seinni tíð fluttum við Anna til Skotlands og síðan í Borgarnes, og hittingarnir voru ekki eins margir og áður. En alltaf var jafngott að hitta Hrólla okkar og Ernu. Mér finnst afar viðeigandi að síðast þegar við hittumst var það í gleðigöngu Hinsegin Vesturlands á Akranesi. Við kvöddumst með faðmlagi eftir að hafa tekið spjallið sem var eins og við höfðum hist bara daginn áður. „Verum nú duglegri að hittast!“ Það er allt of langt síðan þetta var og urðu hittingarnir ekki fleiri. Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér og svona kennir manni að lífið er núna. Fréttir af veikindum Hrólfs voru mikið áfall fyrir okkur og nú syrgjum við elskulegan vin.
Elsku Erna, Hróar, Emma og Alda. Fríða og Hreiðar, María, Katla, Knútur og öll ykkar samheldna og fallega fjölskylda – ykkar er missirinn mestur. Við berum sorgina með ykkur og vottum innilega samúð. Minningin um góðan dreng mun lifa.
Sigursteinn og Anna Sigríður.