Samstarf Frá vinstri talið: Agnes Smáradóttir, yfirlæknir lyflækninga krabbameina Landspítalans, Ásdís Ingvarsdóttir og Ásta Ingibjörg Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingar heimaspítala krabbameinsþjónustu og lengst til hægri Halldóra Hálfdánardóttir sem er forstöðuhjúkrunarfræðingur.
Samstarf Frá vinstri talið: Agnes Smáradóttir, yfirlæknir lyflækninga krabbameina Landspítalans, Ásdís Ingvarsdóttir og Ásta Ingibjörg Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingar heimaspítala krabbameinsþjónustu og lengst til hægri Halldóra Hálfdánardóttir sem er forstöðuhjúkrunarfræðingur. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hér er leitast við að koma til móts við sjúklinga sem geta verið heima og fengið sína meðferð heima. Þetta er mörgum þægilegra en sjúkrahúsvist og mun ódýrara en að dveljast inniliggjandi á deild,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir,…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hér er leitast við að koma til móts við sjúklinga sem geta verið heima og fengið sína meðferð heima. Þetta er mörgum þægilegra en sjúkrahúsvist og mun ódýrara en að dveljast inniliggjandi á deild,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir, forstöðuhjúkrunarfræðingur krabbameinsþjónustu Landspítala.

Hliðargeta við aðra starfsemi

Síðast í janúar fór af stað á Landspítala þróunarverkefni Hospital@Home sem er skv. erlendri fyrirmynd og heitir á íslensku einfaldlega Heimaspítali. Þetta er hliðargeta við starfsemina á 11BC og 11EG sem eru deildir blóð- og krabbameinslækninga. Sú fyrrnefnda er göngudeild en hin legudeild með 28 rúmum. Þeim verður senn fjölgað um þrjú og er það samkvæmt þörf því á síðasta ári var rúmanýtingin nærri 115%. Allt þetta hvetur til þess að nýrra leiða sé leitað í starfsemi. Þar kemur Heimspítalinn sterkur inn.

Í starfsemi Landspítala er þjónusta nú í vaxandi mæli veitt á göngudeildum eða utan spítalans sjálfs, svo sem með fjarlækningum með vöktun, til dæmis yfir netið eða með snjalltækjum. En stundum, þegar slíkt hentar, mætir starfsfólkið líka á staðinn og heim til sjúklinga. Reynslan af því er góð.

Lyfjagjafirnar heim

„Hér höfum við horft til Norðurlandanna, þar sem heimaþjónustan er í örri þróun. Ég tel að mikil bylting verði þegar við verðum farin að geta gefið ákveðnar krabbameinslyfjameðferðir heima; léttir fyrir þá sjúklinga sem annars liggja oft mjög lengi á deild til að fá sín lyf og aðra þjónustu,“ segir Halldóra.

Nokkrir hjúkrunarfræðingar eru í þeim hópi sem mynda Heimaspítalann. Undir er höfuðborgarsvæðið og miðað er við að skjólstæðingarnir sem sinnt er hverju sinni séu að hámarki tíu í einu til að byrja með. Til þess að geta verið í þessari þjónustu þurfa sjúklingarnir, segir Halldóra, að vera rólfærir. Einnig þurfa þeir og aðstandendur þeirra að treysta því að heimavist sé raunhæf. Slíkt er þá sjónarmið sem vegst á við að sjúklingarnir séu orkulitlir svo reglulegar ferðir á dag- og göngudeild geti verið þeim erfiðar.

„Einmitt þess vegna getur verið hagur fólksins að fá þjónustuna heim. Sú litla orka sem fólkið hefur getur þá nýst í eitthvað uppbyggilegra en ferðir á milli heimilis og spítala,“ segir Halldóra.

Heimaspítalinn mun sinna sjúklingum tímabundið sem til dæmis þarf sýklalyf og vökva í æð svo og aðra þjónustu, svo sem að fagfólk meti ástand þess með blóðprufum og slíku. Um margt er þetta svipað og heimaþjónustan Hera, sem Landspítalinn veitir einnig. Þar er þó fremur sinnt fólki sem er langt gengið af sjúkdómi sínum og jafnvel komið í líknandi meðferð.

„Í krabbameinsþjónustunni, sem ég þekki best, þurfum við alltaf að vera að hugsa um nýjar leiðir til að geta sinnt hverjum sjúklingi best. Heimaspítalinn er ein leið til þess. Eins erum við alltaf að hugsa um tilfærslu verkefna, það er hverju þurfa læknar að sinna og hvað geta hjúkrunarfræðingar gert. Hvað á að vera Landspítalanum og hverju á heilsugæslan að sinna og svo framvegis. Þetta þarf sífellt að vera í skoðun og starfsemin í þróun, samanber að komur á dag- og göngudeild, blóð- og krabbameinslækninga, voru í fyrra nærri 20 þúsund,“ segir Halldóra.

Öryggi hjá fagfólki

Þó skammt sé um liðið frá því Heimaspítalinn var settur á laggirnar er reynslan hingað til góð, að sögn Halldóru. Í starfseminni eiga nýir þættir að vera teknir inn, svo sem fjarvöktun.

„Í raun eru engin takmörk fyrir því hve langt þessi þjónusta þróast. Við bindum vonir við að sjúklingar upplifi þetta sem örugga og góða þjónustu veitta af fagfólki sem er reynt á þessu sviði. Fyrstu niðurstöður eru þær að sjúklingarnir og aðstandendur þeirra eru ánægðir með að hafa fengið þjónustuna heim. Þau hafa upplifað aukið öryggi og að fá betri tíma með hjúkrunarfræðingi enda er ekkert sem truflar þá stund sem viðkomandi er með sjúklingnum,“ segir Halldóra.

Mikilli aukningu krabbameinsgreininga er spáð

Úr lífsógn í langvinnan sjúkdóm

Í náinni framtíð er gert ráð fyrir mikilli fjölgun krabbameinstilvika á Íslandi. Vísindafólk birti síðasta sumar rannsókn, sem sagt var frá Morgunblaðinu, hvar kom fram að greindir krabbameinssjúkir hér yrðu árlega 2.900 árið 2040, borið saman við 1.850 manns á ári nú. Slíkt er aukning um 57% frá því sem nú er. Hér ræður miklu að þjóðin er að eldast; fólk úr fjölmennum árgöngum miðrar 20. aldar er komið á áhættualdur krabbameina sem í mörgu tilliti er aldurstengdur sjúkdómur.

Skv. fyrrnefndri rannsókn greinist um þriðjungur Íslendinga með krabbamein á lífsleiðinni. Meðalaldur við greiningu er 67 ár. Síðustu ár hafa greindir verið, sem fyrr segir, um 1.850 á ári; um 400 fleiri árlega en 2012. Þeim sem lifa eftir greiningu krabbameins fjölgar einnig mikið. Í lok árs 2022 voru lifandi tæplega 18.000 manns sem greinst höfðu með mein og lifað af, ýmist læknaðir eða enn í meðferð við sjúkdómi sínum.

„Framfarir í heilbrigðisþjónustu ráða því að í stað þess að vera lífsógnandi sjúkdómur er krabbamein nú oft og tíðum orðinn langvinnur sjúkdómur sem fólk lifir með til fjölda ára. Þeim breyttu aðstæðum verður að svara. Sumir sjúklingar munu þurfa sjúkrahúsinnlagnir, aðrir göngudeildarþjónustu og enn aðrir geta verið heima í eftirliti, ýmist með fjarvöktun eða vitjunum. Heimaspítalinn tekur mið af þessu,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir að síðustu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson