Bjóstu við að stríðið yrði svona langt?
Nei, satt að segja hélt ég að það yrði í tvö ár í mesta lagi. Vonir okkar fara dvínandi og þegar við horfum á fréttir þessa dagana verðum við skelfingu lostin. Okkur finnst Bandaríkin hafa svikið okkur. Nú er þessi þjóð sem ætlaði að verja okkur að semja um að fá auðlindir okkar. Trump er að semja við Pútín en samningaviðræður eiga ekki að líðast án okkar. Okkur líður eins og þegar fórnarlambi nauðgunar er kennt um nauðgunina. Það var gerð innrás í landið okkur en nú er okkur kennt um að það sé stríð. Bandaríkin gáfu okkur ekki þau vopn sem okkur var lofað. Það má líkja þessu við að gefa sveltandi fólki daglega brauðmola; rétt nóg til að halda í fólki lífinu en ekki nóg til að lifa.
Finnið þið fyrir stuðningi frá öðrum ríkjum?
Við finnum fyrir stuðningi annarra lýðræðisríkja en hervald þeirra ríkja er ekki jafn mikið og Rússar búa yfir. Það þyrfti heri allra Evrópuríkja til að ná stærð hers Rússlands með tilheyrandi kostnaði. Þess vegna þurftum við stuðning Bandaríkjanna.
Segðu mér frá bænastundinni á mánudaginn.
Nú á mánudag eru þrjú ár frá upphafi stríðs og í Úkraínu ákvaðu stjórnvöld að á þessum degi ættum við að minnast þeirra sem misst hafa líf sitt við að verja land okkar. Þetta er dagur bænar; við biðjum fyrir þeim látnu og einnig þeim sem eru enn á lífi og við biðjum fyrir þjóðinni allri. Við munum halda bænastundina á Kýiv-torgi og á eftir munum við fara á Vitatorg til að spjalla yfir kaffibolla.
Er enn von fyrir Úkraínu?
Ég veit það ekki. Ég vil ekki gráta en þetta er erfið spurning. Ég skil að mörgum svæðum sem nú eru hernumin verður ekki skilað. Þarna er fólkið okkar, ættingjar okkar, sem enn bíður eftir að vera frelsað. Það er enn verið að pynta fólk og fólk er enn að hverfa. Nauðganir og morð eiga sér enn stað. Jafnvel þótt stríðið taki enda og Pútín fái þessi landsvæði mun fólk ekki hætta að láta lífið. Fólk mun ekki hætta að þjást. Við vitum ekki hvað mun gerast næst og getum ekki spáð fyrir um framtíðina.
Iryna Hordiienko flúði til Íslands þegar stríð braust út í Úkraínu. Í heimalandinu var hún framleiðandi og þáttagerðarstjórnandi, en hér vinnur hún hjá Rauða krossinum. Á mánudag, 24. febrúar, eru þrjú ár frá innrás Rússa í Úkraínu og verður efnt til bænastundar á Kýiv-torgi á horni Garðastrætis og Túngötu kl. 17. Allir eru velkomnir og er fólk hvatt til að mæta með kerti.