Breska leikkonan Cynthia Erivo mun túlka Jesú Krist í uppfærslu á söngleiknum Jesus Christ Superstar eftir Andrew Lloyd Webber and Tim Rice sem sett verður upp í Hollywood Bowl í Kaliforníu í ágúst. Þessu greindi hún frá á Instagram-reikningi sínum í vikunni. Í frétt um málið hjá Variety er rifjað upp að Erivo, sem vakið hefur mikla athygli fyrir túlkun sína á Elphöbu í söngleikjakvikmyndinni Wicked í leikstjórn Jons M. Chu, þekki söngleik Webbers og Rices vel, enda fór hún með hlutverk Maríu Magdalenu í uppfærslu á verkinu 2020 þar sem öll hlutverkin voru í höndum kvenna.
Leikstjóri Jesus Christ Superstar og danshöfundur verður Sergio Trujillo, en Stephen Oremus verður tónlistarstjóri. Þeir hafa, ásamt Erivo, unnið til bandarísku Tony-sviðslistaverðlaunanna.
Verkið Jesus Christ Superstar var upphaflega gefið út sem konseptalbúm áður en söngleikurinn rataði á svið á Broadway árið 1971. Í því er sjónum beint að síðustu dögunum í ævi Jesú.