RÚV og staða fjölmiðla voru til umræðu á Alþingi í vikunni. Það er ljóst að RÚV hefur mikilvægt menningarlegt gildi fyrir íslenskt samfélag. RÚV er ekki bara fjölmiðill heldur mikilvæg menningarstofnun sem stuðlar að sterkri íslenskri sjálfsmynd, eflingu listar og menningar og aðgengi allra landsmanna að vönduðu og fjölbreyttu menningarefni. Það er hins vegar skýrt að við okkur blasir mikill vandi á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Við því þarf að bregðast, og við þessu er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að bregðast.
Logi Einarsson, ráðherra fjölmiðlamála, hefur tilkynnt að hann ætli að fara í heildarendurskoðun á fjölmiðlaumhverfinu. Einkareknir fjölmiðlar eiga undir högg að sækja á Íslandi. Árið 2008 störfuðu 2.363 við fjölmiðla á Íslandi en í lok árs 2022 voru þeir 907. Burðugum miðlum hefur fækkað hratt og nú er staðan sú að eitt dagblað er eftir í landinu sem er lesið af um helmingi þess hóps sem las það árið 2008. Fjölræði og fjölbreytni á markaðnum hefur dregist verulega saman.
Þessi breyting er afleiðing af annars vegar upplýsinga- og tæknibyltingu og hins vegar andvaraleysi stjórnvalda, sem hafa lítið brugðist við miklum breytingum í rekstrarumhverfi fjölmiðla. Fyrir vikið er Ísland komið niður í 18. sæti á alþjóðlegum lista yfir fjölmiðlafrelsi þar sem hin Norðurlandaríkin raða sér í efstu sætin.
Árið 2012 fóru fjögur prósent auglýsingatekna á Íslandi til erlendra miðla. Ellefu árum síðar fór um helmingur þeirra til erlendra netmiðla. Tekjur innlendra fjölmiðla lækkuðu á árinu 2023, eftir að Fréttablaðið fór í þrot. Það hefur þannig sýnt sig í verki að þegar stór aðili hverfur af auglýsingamarkaði skilar það sér ekki endilega til hinna.
Fyrri ríkisstjórn brást við þessum vanda með því að innleiða einungis eina aðgerð til að styðja við einkarekna fjölmiðla, sem var sett fram árið 2020 til að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldurs. Styrkjakerfi sem hefur endurgreitt allt að 25 prósent af ritstjórnarkostnaði þeirra miðla sem uppfylla ákveðin skilyrði. Fjármagni er veitt úr takmörkuðum potti og þorri þess fer til stærstu miðla landsins.
Ráðherra fjölmiðlamála hefur tilkynnt að sá styrkur verði framlengdur um eitt ár á meðan unnið er að mun umfangsmeiri framtíðarútfærslu á stuðningi við einkarekna fjölmiðla, þar sem breytingar á RÚV verða meðal annars undir.
Framlengingin er til þess að fjölmiðlar fái fyrirsjáanleika í rekstur og með frumvarpinu er stigið fyrsta skrefið að endurskoðun með því að lækka þak þess styrks sem hver fjölmiðill getur fengið lítillega. Opnað hefur verið fyrir umsagnir á samráðsgátt nú þegar.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar. asa.berglind.hjalmarsdottir@althingi.is