
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Samstarfsyfirlýsing hins nýja vinstrimeirihluta í Reykjavíkurborg helgast af áherslu á grunnþjónustu, lífsgæði, velferð og „það sem fólkinu er næst“, eins og það er orðað. Þrátt fyrir að þar sé tæpt á ýmsum málum eru eiginleg markmið oft óljós og alls óvíst hvað þau eiga eða mega kosta.
Það kann að skýrast af því að ekki var vandalaust hjá flokknum fimm að ná sameiginlegum niðurstöðum og jafnvel verkaskipting þeirra lá ekki fyrir fyrr en síðla í gær.
Meirihlutinn hefur þó ekki langan tíma til að setja mark sitt á borgina, en aðeins eru rúmir 14 mánuðir til sveitarstjórnarkosninga 2026.
Undir stefnuyfirlýsingunni mátti lesa orðin „Við þorum, getum og viljum“ sem vísa til lagsins Áfram stelpur! frá kvennafrídeginum 1975. Helstu áherslur samstarfsins fólust hins vegar í hraðari uppbyggingu húsnæðis, úrbótum í samgöngum, bættri þjónustu við börn og fjölskyldur, velferð íbúa og aukinni skilvirkni í rekstri borgarinnar. Hér skal tæpt á því helsta.
Húsnæðismál
Skipuleggja á ný svæði fyrir allt að 10.000 íbúðir í Úlfarsárdal og víðar í samvinnu við verkalýðshreyfingu og óhagnaðardrifin félög, með áherslu á fjölbreytt búsetuform, þ. á m. kjarnasamfélög, heimili á hjólum og smáhýsi. Sporna á við „lóðabraski“ með því að takmarka endursöluréttinn.
Samgöngur
Auka á tíðni almenningssamgangna og bætta þjónustustig Strætó, meðal annars með betri stoppistöðvum. Borgarlínu og Sundabraut verður fram haldið skv. Samgöngusáttmála. Bílastæðareglur og íbúakort á að endurskoða. Hins vegar á ekki að hrófla við Reykjavíkurflugvelli.
Menntamál og fjölskyldur
Meirihlutinn ætlar að efla skólaþjónustu með fjölgun sérfræðinga, þar á meðal talmeinafræðinga, og bæta aðgengi að íslenskukennslu fyrir útlend börn. Skólabókasöfn verða efld og áætlanir eru um fjölgun leikskólaplássa, án þess þó að færa rekstur leikskóla í átt að einkarekstri. Þá verður opnunartími sundlauga lengdur yfir sumartímann og leggja á 100 milljónir kr. í selalaug í Húsdýragarðinum.
Velferð og félagsmál
Áhersla verður lögð á aukna heimahjúkrun og dagþjálfun í samstarfi við ríkið. Þá verður unnið að því að tryggja öruggt húsnæði fyrir heimilislausa og styrkja stuðning við fatlað fólk. Sérstakt mannréttindaráð verður sett á laggirnar til að tryggja þátttöku eldri borgara, fatlaðra og innflytjenda í stefnumótun borgarinnar.
Rekstur og stafrænar lausnir
Meirihlutinn hyggst endurskipuleggja rekstur borgarinnar með áherslu á ráðdeild og forgangsröðun grunnþjónustu. Aukið verður samstarf við ríki og sveitarfélög um notkun stafrænnar þjónustu og gervigreindar, ásamt því að efla netöryggi borgarkerfisins. Þarna kennir ýmissa grasa en oftast ræðir frekar um stefnumótun en framkvæmdir, enda lítill tími til slíks. Heitið er ráðdeild í rekstri en ekki er að sjá að taka eigi sérstaklega á fjárhagsvanda borgarinnar.